Veikleikar samkvæmt viðtölum

Veikleikar og hindranir í rekstarumhverfi hugbúnaðarfyrirtækja á Íslandi eru samkvæmt viðmælendum mun fleiri en styrkleikarnir og snúa helst að lagaumhverfi, regluverki stjórnvalda og fjármögnun. Við rannsóknina komu tugir áhersluþátta í ljós sem hægt er að flokka sem hindranir og veikleika í rekstri hugbúnaðarfyrirtækja á Íslandi. Ákveðið var að notast við tvo mælikvarða á hvaða þættir skyldu valdir út og notaðir sem áhersluþættir til viðmiðunnar í því hvernig megi bæta rekstrarumhverfi hugbúnaðar og nýsköpunarfyrirtækja á Íslandi. Í fyrsta lagi verður notast við þá þætti sem hvað oftast bárust til tals í viðtölum vegna rannsóknarinnar en þess var vandlega gætt að leiða viðmælendur ekki inn á nein ákveðin svið við að sækja mat þeirra á rekstrarumhverfinu. Það var mikil samstaða um nokkra þætti sem nær allir viðmælendur komu ítrekað inn á sem gefur til kynna að þeir þættir vega þyngra sem veikleikar í rekstrarumhverfinu en aðrir. Í öðru lagi verður staða Íslands í alþjóðlegu tilliti rannsökuð og þá litið til þátta sem taldir eru hafa áhrif á rekstrarumhverfi nýsköpunar- og hugbúnaðarfyrirtækja með sérstakri áherslu á þá þætti sem fram komu í viðtölunum. Að lokum verður leitað út fyrir landsteinana til ríkja sem hafa tekist á við þá þætti sem um ræðir og skoðað hvernig árangur hefur hlotist af mismunandi lagasetningum og úrræðum ríkisstjórna hverju sinni í að fást við þætti sem íslenskir rekstraraðilar telja vera vandamál í dag. Verður því leitast eftir að leggja þá veikleika til grundvallar sem mæta framangreindum skilyrðum og reynt að meta út frá alþjóðlegum mælingum og erlendum fyrirmyndum hvernig hægt sér að bregðast við þannig að betur til takist. Yfirgnæfandi meirihluta lagasetningar á Íslandi er aðlöguð að erlendri fyrirmynd og er þess vegna eðlilegt að í stað þess að ætla að finna upp hjólið fyrir hvern þátt að skoða hvernig aðrir hafa tekist á við þessi sömu viðfangsefni og hvernig til hefur tekist.

Þeir þættir sem hvað oftast komu upp í viðtölum sem veikleikar eða hindranir í rekstrarumhverfinu sneru að miklu leyti að fjármögnun, vöntun á sérfræðiþekkingu og tengslum, skattkerfinu og hvernig hvatningu vantar í regluverkið. Með hvatningu er átt við hvata fjárfesta til að taka áhættu í nýsköpun, hvata einstaklinga til að stofna fyrirtæki og fara út í rekstur og hvata starfsfólks til að vinna í áhætturekstri. Ýmsir fleiri þættir voru þó nefndir ítrekað og er eftirfarandi samantekt á þeim sem oftast voru nefndir. Nánar verður síðan farið út í stöðu Íslands í alþjóðlegum samanburði í kaflanum Rekstrarumhverfið á Íslandi í alþjóðlegum samanburði.

Skattkerfið

Skattaumhverfi fyrirtækja á Íslandi er einn helsti veikleiki rekstrarumhverfis hugbúnaðar- og nýsköpunarfyrirtækja á Íslandi að mati viðmælenda. Veikleikinn felst fyrst og fremst í uppbyggingu skattkerfisins sem er  framhlaðið skattlagningu og mjög óhentugt þegar kemur að hvata til fjárfestinga og vinnu. Með framhlaðinni skattlagningu er átt við að greiðsluskylda á opinber gjöld myndast áður en raunhagnaður þ.e.a.s. greiðsluflæði liggur fyrir. Í þessu samhengi má t.a.m. nefna að á Íslandi þurfa rekstraraðilar að greiða sér reiknað endurgjald sem er ekki endilega í samræmi við tekjur fyrirtækisins, skattlagning myndast á kauprétti áður en þeir mynda raunhagnað og skattur getur lagst á við umbreytingu skuldabréfs í hlutafé án þess að eigandi sé að fá raunhagnað þ.e.a.s. greiðslu. Í framangreindum tilfellum eltir skattlagningin því ekki greiðsluflæði heldur er hún framhlaðin sem getur valdið ýmsum vandkvæðum eins og verður nú nánar farið yfir. Þá kvörtuðu flestir viðmælendur undan háum launatengdum gjöldum og margir töldu einnig að tekjuskattur á einstaklinga væri of hár.

Reiknað endurgjald

Hver sá einstaklingur sem starfar við eigin atvinnurekstur á Íslandi þarf að reikna sér endurgjald þ.e.a.s. laun fyrir þá vinnu. Reiknaða endurgjald þetta má ekki vera lægra en launatekjur einstaklingsins hefðu orðið ef hann hefði unnið fyrir ótengdan eða óskyldan aðila. Vegna framangreindrar reglu setur ríkisskattstjóri árlega reglur um lágmark reiknaðs endurgjalds með hliðsjón af raunverulegum tekjum fyrir sambærileg störf að viðbættum hverskonar hlunnindum (Ríkisskattstjóri, 2014). Þessi regla getur komið þungt niður á aðilum sem eru að stofna fyrirtæki og eru á fyrstu stigum fyrirtækjareksturs. Sé t.a.m. horft til þess ferlis sem oft liggur að baki stofnunar hugbúnaðarfyrirtækja fara einn eða fleiri aðilar af stað með hugmynd, þessir aðilar eiga oft litla fjármuni og er helsta orrustan er varðar framtíð fyrirtækisins á byrjunarstigum oftar en ekki sú hvernig á að fjármagna verkefnið og halda því gangandi. Þekktar eru frásagnir frumkvöðla af þessum erfiðu fyrstu skrefum þar sem allt er lagt undir með von um hagnað síðar meir og unnið er launalaust fram á kvöld og hver króna nýtt til þess að geta haldið verkefninu gangandi. Reglurnar um reiknað endurgjald geta hinsvegar verið töluverð hindrun þegar kemur að þessum fyrstu skrefum. Nær allir viðmælendur sem höfðu komið að rekstri fyrirtækis og sérstaklega þeir viðmælendur sem höfðu stofnað fyrirtæki sögðu að krafan um reiknað endurgjald setti oft slíka byrði á byrjunarskref rekstur að teflt væri í tvísýnu. Krafan um reiknað endurgjald fyrir starfsfólk með þá sérfræðikunnáttu sem oft fylgir rekstri hugbúnaðarfyrirtækja er nokkuð há. Tölvumenntaður einstaklingur sem fer út í rekstur þar sem reksturinn felur t.d. í sér forritun og er með tvo til fimm starfsmenn getur átt von á að vera settur í endurgjaldsflokk A(4) sem þýðir að hann þarf að greiða sér 800.000 kr. mánaðarlega eða 9.600.000 kr. árlega (Ríkisskattstjóri, 2014).Sambærilegar kvaðir eru ekki algengar í samanburðarlöndum. Þess ber þó að geta að í einhverjum tilvikum er hægt að sækja um undanþágu tímabundið um að greiða fullt gjald m.v. tilsettan flokk. Viðmælendur voru ekki sammála um hversu auðvelt reynist að fá slíkar undanþágur. Þeir sem þekktu til innan skattkerfisins vildu meina að það væri misjafnt hvernig færi með slíkar undanþágur en ekki reyndist unnt að fá fullnægjandi gögn frá skattayfirvöldum um það hvernig raunveruleg framkvæmd er á slíku. Á meðan nokkrir rekstraraðilar sögðu að það gæti verið erfitt að sækja þessar undanþágur og tími og kostnaður sem færi í slíkt væri einnig töluverð rekstrarbyrði sagði t.a.m. starfandi skrifstofustjóri á skrifstofu skattamála hjá fjármálaráðuneytinu sem vann áður í átta ár hjá Ríkisskattstjóra að ef menn geta sýnt fram á að þeir séu að fá lægri laun en krafan er um endurgjald að þá eigi þeir að geta fengið endurgjaldskröfuna lækkaða (Guðrún Þorleifsdóttir, viðtal 8. apríl 2014). Ljóst er að það skiptir miklu máli hvernig framkvæmdin er á þessu tiltekna atriði þegar kemur að því að meta hvort um sé að ræða byrði í formi framhlaðinnar skattlagningar eins og að framan greinir. Annar viðmælandi sem vildi þó ekki láta nafn síns getið en hefur reynslu innan úr skattkerfinu sagði að það væri því miður ekki alltaf samræmi í því hjá skattyfirvöldum hvernig farið væri með undanþágubeiðnir.

Kaupréttir

Þegar kemur að upphafsskrefum í rekstri fyrirtækis getur oft verið erfitt að afla fjármögnunar. Algengar fjármögnunarleiðir nýfyrirtækja eru: eigin fjármögnun oft í gegnum vini og ættingja, bankalán eða fjármögnun frá öðrum aðilum eins og fjárfestum eða sjóðum. Á Íslandi hafa á seinni árum styrkir verið að koma í sívaxandi mæli inn í myndina sem fjármögnun á fyrstu skrefum og má þá t.a.m. nefna styrki úr sjóðum hjá Rannís eða úr hinum ýmsu frumkvöðlakeppnum. Þessum styrkjum fylgja þó stundum rekstrarskilyrði. Þegar kemur að hugbúnaðarfyrirtækjum og áhættusömum sprotafyrirtækjum þá eru bankalán oft ekki inn í myndinni. Bankalán krefjast að öllu jöfnu einhverskonar veða sem eru oftar en ekki til á þessum fyrstu stigum. Þá er í eðli sínu rekstur hugbúnaðar- og sprotafyrirtæki almennt mun áhættusamari með meiri óvissuþáttum en hefðbundnari rekstur enda er oft verið að feta veg án fordæma. Þess vegna þarf oft að leita fjármögnunar annars staðar en nánar er farið í þætti er snúa að fjármögnun í undirkaflanum Fjármögnun. Vinsælt form fjármögnunar á upphafsstigum hjá hugbúnaðar- og sprotafyrirtækjum í flestum ríkjum sem Ísland ber sig saman við eru kaupréttir. Kaupréttir eru hér flokkaðir sem fjármögnun í þessu tilliti því þeir eru notaðir til að greiða laun og tryggja starfsfólk sem annars væri ekki hægt nema með aukinni fjármögnun. Kaupréttir eru gjarnan notaðir til þess að laða að starfsfólk og gefa hvata til þess að vinna mikla vinnu fyrir lítið kaup með von um meiri ágóða seinna meir eða eins og einn viðmælandi orðaði það: „það þarf að vera einhver hvati svo að fólk sé tilbúið að sofa í vinnunni og lifa á núðlum í tvö ár“ (Magnús Ragnarsson, viðtal 7. febrúar 2014). Hinsvegar er „búið að eyðileggja kaupréttarformið á Íslandi í dag“ eins og annar viðmælandi orðaði það. Ástæðan fyrir því að kaupréttarfyrirkomulag á Íslandi er ekki sérlega aðlaðandi hvatatól er að skv. 9. gr. tekjuskattslaga nr. 90/2003 eru kaupréttir skattlagðir sem tekjur og telst þá til skattskyldra tekna mismunur á kaupverði samkvæmt kaupréttarsamningi og gangverði bréfanna þegar kaupréttur er nýttur (Lög um tekjuskatt, 2003). Þetta þýðir að ef starfsmanni fyrirtækis er boðinn kaupréttur þá þarf hann um leið og hann nýtir kaupréttinn að greiða fullan tekjuskatt af mismuninum á kaupréttarverðinu og verði bréfanna eins og þau eru á þeim tíma. Hinsvegar hefur á þeim tímapunkti ekki myndast neinn hagnaður fyrir starfsmanninn, mögulegur hagnaður myndast ekki fyrr en bréfin sem fengin voru í gegnum kauprétt verða seld. Þetta þýðir að á Íslandi geta þeir einstaklingar sem þiggja kauprétt þurft að taka lán til þess að geta nýtt kaupréttinn og staðið undir skattbyrðinni og síðan getur það einnig gerst að virði kaupréttarins er neikvætt eða minna virði en skattgreiðslan sagði til um ef bréfin lækka síðan í verði fram að sölu. Til samanburðar eru kaupréttir í Bandaríkjunum ekki skattlagðir fyrr en við sölu, þar er skattgreiðslan látin elta sjóðsflæðið hjá einstaklingnum og þá eru einnig til kaupréttir sem eru einungis skattlagðir sem fjármagnstekjur sem bera mun lægri skattprósentu (Internal Revenue Service, 2006). Það er því ljóst að kaupréttir á Íslandi virka ekki vel sem hvatatól og sé notkun þeirra á Íslandi borin saman við notkun þeirra í Bandaríkjunum og víðar er ljóst að það er himinn og haf er á milli notagildis kauprétta. Þá er vegna eðli skattlagningarinnar hægt að segja að um sé að ræða framhlaðna skattlagningu sem leggst á áður en raunhagnaður verður til. Kaupréttir nýtast því í framkvæmd ekki sem hvatatól og var það einróma mat þeirra viðmælenda sem ræddu kauprétti að þeir eru dýr og óhentug leið til þess að umbuna starfsmönnum eða nota sem fjármögnunartól.

Launatengd gjöld

Samhljómur var hjá öllum viðmælendum sem hafa komið að rekstri að launatengd gjöld á Íslandi séu há og mikill dragbítur á rekstur fyrirtækja, sérstaklega á upphafsstigum. Þegar rætt er um launatengd gjöld er helst átt við tryggingagjald, lífeyrissjóðsframlög og mótframlög í séreignasjóði. Hinsvegar eru einnig fleiri launatengd gjöld eins og orlofssjóður, sjúkrasjóður, starfsmenntunarsjóður, vísindasjóður, samningasjóður, endurmenntunarsjóður, starfsendurhæfingarsjóður og styrktarsjóður. Þessi gjöld eru hinsvegar lægri hlutfallslega og verður ekki minnst sérstaklega á þau. Lang mest íþyngjandi launatengda gjaldið er tryggingargjaldið. Tryggingagjald er sérstakt gjald sem launagreiðendum ber að greiða af heildarlaunum launamanna sinna á tekjuári og eftir atvikum af eigin reiknuðu endurgjaldi. Tryggingagjald er almennt innheimt í staðgreiðslu og skiptist í almennt tryggingagjald og atvinnutryggingagjald. Á staðgreiðsluárinu 2014 er tryggingagjaldshlutfallið samtals 7,59%. Þar af er tryggingagjaldið sjálft 6,04%, atvinnutryggingagjald 1,45%, og síðan bætast við gjald í ábyrgðasjóð launa (0,05%) og markaðsgjald (0,05%) (Ríkisskattstjóri 2014). Tryggingargjaldi þessu skal síðan skila mánaðarlega til ríkissjóðs. Gjöld þessi setja að mati viðmælenda mikla byrði á fyrirtæki þegar kemur að ráðningu starfsfólks og lýstu nokkrir viðmælendur því að þeir reyndu að tefja það eins og þeir gætu að ráða nýtt starfsfólk vegna þessa gjalda.

Hvatakerfi

Flestir viðmælendur nefndu að það væri vandamál að litlir sem engir hvatar væri til staðar í skattaumhverfinu þegar það kæmi að fjárfestingum. Viðmælendur voru duglegir að benda á erlendar fyrirmyndir þar sem hvati í formi skattafsláttar er til staðar þegar kemur að fjárfestingu í sprotafyrirtækjum. Hvatar eins og að fjárfestingar í sprotafyrirtækjum eru frádráttabærar að hluta eða öllu leyti ef þær mæta ákveðnum skilyrðum t.d. tímamörkum eða að afsláttur er veittur af tekjuskatti af hagnaði af slíkum fjárfestingum. Mælingar á stöðu Íslands þegar kemur að áhrifum skattlagningar á hvata til fjárfestinga og vinnu í alþjóðlegum samanburði voru neikvæðar en Ísland mælist mjög neðarlega í þessu tilliti eins og farið er nánar yfir í kaflanum Rekstrarumhverfið á Íslandi í alþjóðlegum samanburði. Margir viðmælendur töldu einnig að áhrif skattlagningar á hvata til að vinna væri mjög neikvæð en það er einnig staðfest í alþjóðlegum mælingum. Í þessu tilliti nefndu viðmælendur þætti eins og háan tekjuskatt og launatengd gjöld og takmörkun á notkun umbunakerfa eins og kaupréttir, bónusar og aðgangur að hlutafé.

 

Fjármögnun

Fjármögnunarumhverfið á Íslandi var það viðfangsefni sem var mest rætt af viðmælendum. Allir viðmælendur án undantekninga töldu að aðgangur að fjármagni og áhrif skattlagningar á aðgang að fjármagni t.a.m. með því hvernig áhrif skattlagningar eru á hvata til fjárfestinga væru eitt helsta vandamálið í rekstrarumhverfi hugbúnaðar- og nýsköpunarfyrirtækja á Íslandi í dag. Vandkvæðin er snúa að fjármögnuninni tengjast oft skattaumhverfinu en það eru þó fleiri þættir sem ber að skoða.

Umbreytanleg skuldabréf

Umbreytanleg skuldabréf falla að miklu leyti í sama flokk og kaupréttir á Íslandi, þ.e.a.s. að þau virka ekki sem skyldi sem hvatatól eða fjármögnunartól. Erlendis eru umbreytanleg skuldabréf vinsæl leið til að fjármagna hugbúnaðar- og nýsköpunarfyrirtæki, sérstaklega á fyrstu stigunum þar sem óvissan er hvað mest. Umbreytanlegt skuldabréf er skuld sem ber vexti, í Bandaríkjunum er algengt að vaxtastigið sé um 4%-8% á ári. Þessir vextir eru oftar en ekki greiddir með því að leggjast sem viðbót við höfuðstól í stað þess að vera greiddir út með reiðufé. Í fjármögnunarumhverfi hugbúnaðar- og nýsköpunarfyrirtækja er algengt að skuldin breytist í hlutafé á fyrirframgefnum tíma eða markmiði sem er þá oft næsti leggur fjármögnunnar. Þegar skuldin breytist í hlutafé við næsta legg fjármögnunnar er ekki óalgengt að hún beri afslátt. Í Bandaríkjunum er talið að meðal afsláttur sé um 20% (Deeb, 2014). Með afslætti er átt við að þegar skuldin breytist í hlutafé þá breytist hún í hlutafé fyrir andvirði skuldarinnar að viðbættu 20% álagi þannig að skuld upp á 1 milljón krónur myndi breytast í hlutafé fyrir 1,2 milljón krónur við nýtingu breytiréttar. Umbreytirétturinn er ekki endilega fastur en oft er samið um einhverskonar verðtakmark. Lengd á umbreytanlegum skuldabréfum er iðulega á bilinu sex mánuðir til tvö ár á meðan algengasta bilið er 12-18 mánuðir. Náist ekki seinni fjármögnun er algengast að rétturinn breytist þá sjálfkrafa í hlutafé á fyrirframákveðnum tíma og skilyrðum eða þá að það komi uppgreiðslukrafa í reiðufé. Ekki er óvenjulegt að hægt sé að kaupa út umbreytanlega skuld á 150% verði af höfuðstól.

Helstu kostirnir við umbreytanlegar skuldir sem fjármögnunarfyrirkomulag eru að þessi leið er mun einfaldari og fljótvirkari en að gefa út hlutafé, bæði gagnvart skattayfirvöldum og vegna þess að með þessu móti er farið framhjá einum erfiðasta hjalla fjármögnunnar á öllum stigum sem er að finna sanngjarnt verð á hlutafé. Þá þarf ekki að eiga við þann erfiða höfuðverk sem er þynning hluthafa, þeirri glímu er í raun frestað fram að næstu umferð fjármögnunnar með svona útgáfu. Með þessu fyrirkomulagi er virðismat fyrirtækisins líka sveigjanlegra og getur mætt betur kröfum þeirra fjárfesta sem koma seinna inn og eru venju samkvæmt mun stærri fjárfestar. Vaxtagreiðslur þurfa ekki að vera greiddar út í reiðufé þannig að fjármögnunin á að skila sér að mesta inn í rekstur fyrirtækisins án þess að setja greiðslubyrði í reksturinn.

Helstu gallar við umbreytanlegar skuldir eru tímapressan sem þessi fjármögnun setur. Eins og fram er komið er iðulega settur umbreytitími sem er innan tveggja ára og það er ekkert sem segir að sá tímapunktur sé endilega sá heppilegasti til þess að eiga við umbreytikröfuna. Í verstu tilvikunum fara lánveitendurnir fram á að skuldin sé greidd upp með reiðufé og geta rekstraraðilar fyrirtækisins þá jafnvel þurft að selja fyrirtækið til að mæta þeirri kröfu. Algengar er þó að hagur lánveitenda og fyrirtækisins sé jafnari en svo að niðurstaðan endi í algjöru öngstræti en það er þó allur gangur á því.

Umbreytanleg skuldabréf geta gagnast fyrirtækjum vel þegar þau eru á hinu svokallaða byrjunarstigi, þegar hugmynd liggur fyrir og áætlun um hvernig á að vinna hana. Það sem viðmælendur kvörtuðu meðal annars undan varðandi fjármögnunarumhverfið á Íslandi og þá sérstaklega rekstraraðilarnir er að þegar rætt er við væntanlega fjármögnunaraðila þá fer allt ferlið í ákveðið mót sem hentar ekki endilega hugbúnaðar- og sprotafyrirtækjum. Sem dæmi um hvað er átt við er að iðulega er mikil áhersla sett á gerð viðskiptaáætlana og að verðmeta hugmyndina. Í þessum tveim þáttum koma oft upp árekstrar og viðræður stranda þegar fjármögnunaraðilar geta ómögulega séð hvernig hugmynd ætti að geta verið x mikils virði og þá er reynslan sú samkvæmt viðmælendum að viðskiptaáætlanir eru mjög óáreiðanlegar sökum mikilla áhættuþátta. Lausn við framangreindum vandamálum gæti verið útgáfa umbreytanlegra skuldabréfa. Ein stærsta hindrun frumkvöðla er oftar en ekki sú að fá fyrstu fjármögnun til þess að geta komið hugmynd sinni af stað og smíða einhverskonar frumgerð af hugmyndinni. Það sem felst því í fyrsta skrefi fjármögnunar fyrir hugbúnaðar- og nýsköpunarfyrirtæki er oftar en ekki að fá nægt fjármagn til þess að geta smíðað einhverja útfærslu af frumgerð hugmyndarinnar. Á þessu stigi fjármögnunnar er nær ógerningur að verðleggja fyrirtækið eða að byggja verðmat á viðskiptaáætlunum og getur mun hentugra fjármögnunartól heldur en að selja hlutafé inn í fyrirtækið því verið að gefa út umbreytanlegt skuldabréf.

Ýmir Örn Finnbogason er fjármálastjóri hjá Plain Vanilla sem er íslenskt tölvuleikjafyrirtæki sem er einna þekktast fyrir að hafa gefið út tölvuleikin QuizUp. Plain Vanilla gekk tiltölulega hratt í gegnum öll helstu stig fjármögnunnar sem hugbúnaðarfyrirtæki ganga í gegnum en í júní 2012 sótti fyrirtækið eina milljón dollara í upphafsfjármögnun í Bandaríkjunum eða svokallað „seed fund“. Fyrirtækið tók síðan fyrsta hlutafjárútboð í kjölfarið upp á 2,5 milljónir dollara sem var fylgt eftir með öðru hlutafjárútboði upp á 2 milljón dollara. Í lok árs 2013 sótti félagið 22 milljón dollara fjármögnun en félagið var þá komið á þannig stað að allir stærstu framtaksfjárfestingarsjóðirnir (e. Venture capitalist funds) í Bandaríkjunum vildu taka þátt í fjármögnuninni (Ýmir Örn Finnbogason, viðtal 11. febrúar 2014). Ýmir var einn af viðmælendum vegna þessa rannsóknar og hefur eins og framangreind frásögn gefur til kynna aflað sér töluverðar reynslu af fjármögnunarumhverfinu í hugbúnaðargeiranum í Bandaríkjunum. Ýmir sagði að á þeim mörgu fundum sem fyrirsvarsmenn Plain Vanilla hefðu átt með fjárfestum í Bandaríkjunum hafi komið skýrt í ljós að hugmyndir eru ekki verðmetnar með viðskiptaáætlunum og að fjárfestar vestanhafs hafi gefið það skýrt til kynna. Þess vegna gekk fyrstu umferð fjármögnunnarinnar hið svokallaða „seed money stage“ út á það að fá fjármagn til þess að geta smíðað frumgerð af vörunni sem um ræddi. Algengar fjármögnunarupphæðir á þessu upphafsstigi eru um 500 þúsund – 1 milljón dollarar. Ýmir sagði frá því hvernig á þessu stigi í Sílikondal sé algengast að notast sé við umbreytanleg skuldabréf. Þar notist allir við sama staðlaða eyðublaðið og þá er auðvelt að safna mörgum fjárfestum upp í þá upphæð sem stefnt er að og stýrt er framhjá hinu tímafreka verðmati. Það sem þarf að liggja fyrir er þá hvert virði breytiréttarins sé, hámarkið og hvað þarf að taka inn mikið í þessari fyrstu umferð. Ýmir benti á að það væri miklu flóknara að taka inn hluthafa heldur en að gefa út skuldabréf og með þessum hætti er hægt að láta þetta ganga hratt fyrir sig og með þessu formi verði líka hvati hjá þeim fjárfestum sem koma fyrstir inn til þess að hjálpa til við að ná næstu fjármögnun í gegn, enda er það þeirra hagur að hún gangi eftir. Ýmir benti á að þetta síðasta atriði væri sérstaklega mikilvægt á stórum mörkuðum eins og í Bandaríkjunum, þar sem tengslanet fjárfesta getur skipt miklu máli til þess að opna aðgang að stærri fjárfestum og meira fjármagni á seinni stigum, með því að ná þessu stigi fjármögnunnar væri því í raun stórt skref stigið í að tryggja öryggi fyrirtækisins til lengri tíma. Erfiðasta og mikilvægasta skref frumkvöðlafyrirtækja er því að ná inn þessari fyrstu fjármögnun, það er sú fjármögnun sem gerir fyrirtækinu kleift að sjá hvort hugmynd þess er í raun einhvers virði. Það er sú fjármögnun sem opnar á tengsl inn í frekari fjármögnun seinna meira og það er sú fjármögnun sem setur rekstrargrundvöll undir fyrirtækið til að byrja með. Þeir sem oftast koma inn í þessa fyrstu umferð fjármögnunnar í Bandaríkjunum eru svokallaðir engla fjárfestar og svokallaðir „seed“ sjóðir. Með englafjárfesti er átt við einstakling sem fjármagnar gjarnan fyrstu skref hjá fyrirtækjum og kemur þá oft að rekstrinum sem ráðgjafi eða með því að opna tengslanet sitt fyrir fyrirtækið. Algengt er að englafjárfestar hafi sjálfir bakgrunn í þeim geira sem þeir fjárfesta í og komi þannig inn með sérþekkingu.

Hugsanlegur hagsmunaárekstur frumkvöðla og upphafsfjárfesta á öðru stigi fjármögnunnar gæti verið sá að þá vilja fjárfestar lægra verð svo að þeir eigi meira hlutfallslega í fyrirtækinu en frumkvöðlarnir vilja hærra verð. Ýmir benti á að fjárfestirinn á að geta búist við lágmarks arði sem er þá umsamið hámark í breytisamningnum og að þetta form fjármögnunnar er hentugt fyrir fjárfesta að því leyti að um er að ræða litlar einfaldar fjárfestingar sem taka ekki mikinn tíma eða vinnu. Eyðublaðið getur verið ein blaðsíða og fjárfestar gætu því með þessu móti fjárfest litlar upphæðir í fjölda fyrirtækja með litlum tilkostnaði og tíma ásamt því að vera í sæmilegu öryggisneti með fjárfestingu sína enda eiga þeir rétt á vaxtagreiðslum og eru ofar í kröfuhafaröðinni en venjulegir hluthafar á meðan þeir eiga skuld á fyrirtækið. Framangreint fyrirkomulag gæti t.a.m. hentað vel inn í fjármögnunarfyrirkomulagstillögu sem lögð er fram í niðurstöðukaflanum Englasamvinna.

Á Íslandi eru umbreytanleg skuldabréf ekki notuð í neinum mæli eins og þau eru notuð t.d. í Bandaríkjunum. Ein ástæða þess kann að vera að umbreytanleg skuldabréf á Íslandi eru skattskyld á þann hátt að þau eru ekki eins eftirsóknarverð fyrir fjárfesti umfram t.d. hlutafé. Sé gefið út skuldabréf á Íslandi sem er 100 krónu virði með breytirétti sem ber 20% afslátt þá verður þessi 20% afsláttur, sem væri þá 20 krónur ef bréfið er 100 krónur, skattskyldur hjá eiganda bréfsins við umbreytingu sem fjármagnstekjur en skattlagningin byggir á c lið 7. gr. tekjuskattslaga nr. 90/2003.[1]Í Bandaríkjunum sé dæmi tekið myndast ekki skattskylda fyrr en bréfin eru seld (Internal Revenue Service, 2006). Þarna er því enn eitt dæmið um framhlaðna skattlagningu enda myndast þessi hluti skattlagningarinnar ekki þegar bréfið er selt og raunhagnaður eða greiðsla kemur inn heldur við að bréfinu sé umbreytt. Þetta fyrirkomulag á skattlagningu getur skiljanlega verið fráhrindandi fyrir fjárfesta enda horfa þeir þarna upp á skattskyldu af bréfum sem þeir hyggjast jafnvel halda til lengri tíma. Sé þetta borið saman t.d. við aðra fjárfestingakosti eins og hlutdeild í verðbréfasjóðum að þá er virðisaukning ekki skattskyld fyrr en við innlausn. Það er því ljóst að skattlagning þessi getur haft mikil áhrif á ákvarðanartöku fjárfesta við mat á fjárfestingakostum um það voru flestir viðmælendur og þá sérstaklega þeir sem hafa komið að fjárfestingum sammála. Ein af grunnreglum fjárfesta lýtur að tímavirði peninga þ.e. að x upphæð í dag er meira virði en x upphæð eftir ár að öllu jöfnu vegna þess að upphæðin getur verið að safna arði allt árið. Aðspurðir hvers vegna umbreytanleg skuldabréf sem fjármögnunarleið hjá sprotafyrirtækjum væri ekki algeng á Íslandi töldu flestir viðmælendur að það skýrðist fyrst og fremst af vanþekkingu í fjármögnunarumhverfinu og annars vegar vegna óhagstæðrar skattlagningar.

 

Aðgangur að fjármögnun – Skörð í fjármögnun

Nær allir viðmælendur voru sammála um að það eru skörð, á ákveðnum stigum í rekstri fyrirtækja, þegar kemur að fjármögnun. Enginn viðmælandi nefndi að fjárfestingarumhverfið á Íslandi væri fullnægjandi. Það voru helst tvö stig sem voru nefnd þar sem skörð hafa myndast. Fyrsta stigið sem nefnt var er upphafsstigið eða hið svokallaða „seed stage“ þegar farið er af stað með hugmynd og það vantar fyrstu fjármögnun. Það voru ekki allir viðmælendur sammála um að það væri skarð þegar kemur að þessu fjármögnunarstigi á Íslandi en einhverjir töldu að þörfum á þessu stigi væri nokkuð vel mætt af hinum ýmsu sjóðum og keppnum sbr. t.d. Gullegginu. Hinsvegar nefndu aðrir að það gæti verið slæmt fyrir rekstur fyrirtækja að fá fyrstu fjármögnun sína frá sjóði eða í gegnum keppni vegna þess að þær kröfur sem fylgja gjarnan fjármagninu geta haft neikvæðar afleiðingar fyrir fyrirtækin og breytt stefnu þeirra á mikilvægum fyrstu skrefum og þá í átt sem jafnvel hentar illa. Davíð Lúðvíksson forstöðumaður stefnumótunnar og nýsköpunar hjá Samtökum Iðnaðarins lýsti þessu á þá leið að á Íslandi þurfa fyrirtæki að elta slóð af peningapokum sem hægt sé að sækja til hinna ýmsu sjóða og í gegnum keppnir og fleira slíkt. Með hverjum peningapoka kemur einhverskonar kvöð eða viðmið sem sendir fyrirtækið alltaf lengra og lengra út í móa. Síðan klárast slóðin af peningapokum og fyrirtæki þurfa þá oft að eyða löngum tíma og fjármagni í að koma sér heim úr móanum (Davíð Lúðvíksson, viðtal 9. apríl 2014). Nokkrir viðmælendur telja að fyrstu skref fjármögnunar séu of háð sjóðum og keppnum sem setja oft kvaðir sem henta ekki sérstaklega. Þá séu þessi ferli oft tímafrek og takmörkuð t.d. sé bara aðgangur að fjármagni á ákveðnum tímum árs o.s.frv.Um seinna stigið voru nær allir viðmælendur sammála að myndast hefði fjármögnunarskarð. Seinna stigið er hið svokallaða millistig eftir fyrstu fjármögnun sem kom fyrirtækinu af stað sem kemur gjarnan áður en farið er í mikinn vöxt. Í hugbúnaðargeiranum kemur þetta stig gjarnan þegar það þarf að fara að huga að markaðssetningu eða frekari ráðningu starfsfólks til þess að taka vöruþróun á næsta stig. Hjálmar Gíslason, stofnandi og framkvæmdarstjóri DataMarket ehf. sagði að eitt helsta vandamál í rekstrarumhverfi hugbúnaðar- og nýsköpunarfyrirtækja á Íslandi væri slakt aðgengi að fjármagni „…en það á aðallega við um “millistigin” í uppbyggingu rekstrarins. Þau stig þar sem þarf að fara að spýta í lófana við sölu- og markaðssetningu og svo vaxtarstigin sem fylgja þar á eftir“ (Hjálmar Gíslason, viðtal, 10. febrúar 2014). Helga Valfells, framkvæmdarstjóri Nýsköpunarsjóðs Atvinnulífsins orðaði þetta þannig að að helsta vandkvæðið sem snýr að rekstri fyrirtækja á Íslandi í dag væri takmarkað aðgengi að vaxtarfjármagni (Helga Valfells, viðtal, 19. mars 2014). Helga hélt erindi á viðskiptaþingi viðskiptaráðs þann 12. febrúar 2014 þar sem Helga hafði stillt upp skýringarmynd (Mynd 2) til þess að sýna hvar framangreint fjármögnunarskarð liggur:

Mynd 2. Fjármögnunarskarð – Höfundur: Helga Valfells

 Mynd 2

Bláu hringirnir sýna fjármögnunaraðila og táknar fyrsti blái kassinn sem merktur er „3F“ algenga fyrstu uppsprettu fjármagns hjá hugbúnaðar- og nýsköpunarfyrirtækjum en 3F stendur fyrir: Friends, Family and Fools eða vinir, fjölskylda og flón en með því er átt við helsta nærumhverfi rekstraraðila. Síðan koma nöfn og skammstafanir á fjármögnunaraðilum á Íslandi og standa flestar skammstafanirnar fyrir einhverskonar sjóði. Rauða örin táknar fjármögnunarskarðið sem um ræðir.

Takmörkuð aðkoma stærstu fjármagnseigenda landsins

Hrein eign íslensku lífeyrissjóðanna nam 2.656,9 milljörðum í lok desember 2013 samkvæmt mælingum Seðlabanka Íslands (2014). Verg landsframleiðsla á Íslandi árið 2013 var 1.786 milljarðar (Hagstofa Íslands 2014). Þetta þýðir að hrein eign lífeyrissjóðanna er rúmlega ein og hálf landsframleiðsla. Lífeyrissjóðirnir eru lang stærstu fjármagnseigendurnir á Íslandi og lang stærstu fjárfestarnir á Íslandi. Lífeyrissjóðirnir eiga t.a.m. um þriðjung hlutabréfa í Kauphöllinni sem er hlutfall sem margir telja að muni halda áfram að hækka (Vísir.is, 2013). Endurfjárfestingarþörf lífeyrissjóðana á næsta ári er almennt talin vera í kringum 100-120 milljarðar. Samkvæmt 36. grein laga nr. 129/1997 um lífeyrissjóði hafa lífeyrissjóðir heimild til að fjárfesta allt að 20% af eignasöfnum sínum í óskráðum bréfum og vera með allt að 15% eignahlutdeild í hverju fyrirtæki fyrir sig ef fjárfest er beint í fyrirtæki. Þá mega lífeyrissjóðir ekki eiga meira en 15% hver í nýsköpunarsjóð þ.e.a.s. sjóðum sem sérhæfa sig í óskráðum eignum. Að lokum má sjóður ekki vera meira en 10% af eignum lífeyrissjóðs ef sjóðurinn lýtur ekki opinberu eftirliti en samkvæmt túlkun fjármálaeftirlitsins á 4 ml. 4. mg. laga nr. 129/1997 vegna fagfjárfestasjóða skv. lögum nr. 128/2011 eru slíkir sjóðir ekki taldir lúta opinberu eftirliti (Fjármálaeftirlitið, 2012). Samkvæmt gögnum frá fjármálaeftirlitinu um stöðu eignasafna lífeyrissjóðanna í lok árs 2012 voru hlutföll heildareigna lífeyrissjóða  í óskráðum verðbréfum með breytilegar tekjur samtals 10,4% og í óskráðum verðbréfum með föstum tekjum samtals 4,9%. Þá má einnig geta þess að þó ekki séu til nákvæmar mælingar á því hversu hátt hlutfall af fjárfestingum lífeyrissjóðanna í óskráðum bréfum eru í því sem gæti flokkast sem nýsköpunar- eða sprotafjárfestingar þá taldi formaður Landssamtaka Lífeyrissjóðanna, Gunnar Baldvinsson, að það hlutfall væri innan við 1%.[2] Þetta þýðir að af heildareignarsafni lífeyrissjóða á landinu er samtals 15,3% af 20% hámarksheimild sem er í óskráðum bréfum (Fjármálaeftirlitið, 2014). Þó að 4,7% hljómi ekki sem mikið rými til fjárfestinga þá eru það gífurlega háar upphæðir sé það sett í samhengi við stærð eignarsafna lífeyrissjóðana en 4,7% af 2.656,9 milljörðum er 124,8 milljarðar. Það er því ljóst að þrátt fyrir framangreindar takmarkanir er lífeyrissjóðunum heimilt að fjárfesta í nýsköpun, framtakssjóðum og áhætturekstri og að töluvert rými er til staðar til slíkra fjárfestinga.

Í ljósi þess sem þegar hefur komið fram um fjármögnunarskörð fyrir hugbúnaðar- og nýsköpunarfyrirtæki á Íslandi voru margir viðmælendur ósáttir með að stærstu fjármagnseigendur og fjárfestingaraðilar landsins, lífeyrissjóðirnir, hafa hingað til viljað hafa mjög takmarkaða aðkomu að fjárfestingum í hugbúnaðar- og sprotafyrirtækjum. Viðmælendur höfðu mismunandi skýringar á því hvers vegna svona væri fyrirkomið í þessum málum en algengustu skýringarnar voru á þá leið að lífeyrissjóðirnir væru að einhverju leyti brenndir af áhættufjárfestingum og væru í dag að reyna að hreinsa slíkan stimpil af sér eða þá að það hreinlega vantaði þekkingu og betri tengsl við þennan geira. Frosti Sigurjónsson er þingmaður Framsóknarflokksins, formaður efnahags- og viðskiptanefndar ásamt því að hafa komið víða að í hugbúnaðar- og sprotageiranum á Íslandi. Frosti hefur síðan hann varð þingmaður árið 2013 beitt sér fyrir ákveðnum breytingum sem snúa að rekstrarumhverfi hugbúnaðar- og sprotafyrirtækja á Íslandi þ.á.m. hefur Frosti skoðað möguleikana á aukinni aðkomu lífeyrissjóðanna inn í þá mynd. Frosti flutti erindi á málþingi um fjárfestingar lífeyrissjóða í atvinnulífinu á vegum Landssambands Lífeyrissjóða þann 21. mars 2014 þar sem Frosti fór yfir það hvers vegna lífeyrissjóðirnir hefðu hag af því að koma í auknum mæli að fjárfestingum í nýsköpunargeiranum. Frosti benti á að í ljósi stærðar sinnar þyrftu lífeyrissjóðirnir að fara að huga að því hvort og þá hvernig þeir geta stuðlað að auknum hagvexti í framtíðinni og þar með aukið ávöxtun sína og jafnvel seljanleika eignasafna sinna í framtíðinni. Frosti telur að aðferðafræðin varðandi aðkomu lífeyrissjóðanna skipti máli, mikilvægt sé að þeir fari ekki að fjárfesta upp á sitt einsdæmi í stökum áhættusömum óskráðum félögum, það myndi vera óþarflega áhættusamt. Eðlilegra væri að fara gætilega af stað og stefna að ávöxtun í samræmi við áhættu. Frosti benti á tvær leiðir sem væru ákjósanlegar í þessu tilliti: annars vegar að auka heimildir lífeyrissjóða til að fjárfesta á hinum svokallaða First North markaði sem er hliðarmarkaður fyrir hlutabréfaviðskipti og hinsvegar að fjárfesta í gegnum nýsköpunarsjóði/framtakssjóði.

Nafnvirði hlutafjár

Nokkrir viðmælendur kvörtuðu yfir því fyrirkomulagi er varðar nafnvirði hlutafjár á Íslandi. Samkvæmt 1. mg. 11. gr. laga um einkahlutafélög nr. 138/1994 og 1. mg. 16. gr. laga um hlutafélög nr. 2/1995 má greiðsla hlutar ekki nema minna en nafnverði hans. Guðjón Már Guðjónsson stofnandi og framkvæmdarstjóri tæknifyrirtækisins OZ sagði að ýmis vandkvæði fylgdu þessu fyrirkomulagi og mætti þá sérstaklega nefna atriði er snúa að samstarfi við erlenda fjárfesta. „Félagaform á Íslandi er afar torkennilegt fyrir alþjóðlega fjárfesta sem skilja ekki nafnverð reiknað í krónum, heldur alast upp við að fyrirtæki byggi á fjölda útgefna bréfa sem síðan hafa verðmæti í viðkomandi gjaldmiðli. Þetta form veldur misskilningi og getur fælt frá sér“ (Guðjón Már Guðjónsson, viðtal, 7. mars 2014). Fleiri viðmælendur nefndu að ef fyrirtæki mættu gefa út hluti í samræmi við það sem tíðkast annars staðar að þá gæti það t.a.m. auðveldað meðferð hlutafjár í sambandi við fjárfesta og þegar kemur að því að veita starfsfólki ákveðna starfshvata eða til þess að laða að starfsfólk. Annar viðmælandi nefndi dæmi um framangreint þar sem fyrirtæki er metið á 70 milljónir og starfsmaður er að koma inn í það og á að fá 30 prósent hlut. Samkvæmt íslenska kerfinu í dag þyrfti þessi starfsmaður því að koma með 30 milljón krónur til þess að greiða fyrir hlut sinn, en samkvæmt kerfinu sem fyrirfinnst erlendis t.d. í Bandaríkjunum gæti þessi sami starfsmaður greitt t.d. 5 milljón krónur og síðan yrði virði í honum. Nafnvirði hlutafjár var ekki nefnt af mörgum viðmælendum sem vandamál. Aðrir viðmælendur nefndu að það væri ákveðið gildi í nafnvirðisreglunni vegna þess að hún kemur í veg fyrir misnotkun skattalega séð þar sem hægt sé að fara framhjá því að raunvirði berist inn í félagið sem gagngjald fyrir hlutafé.

Vöntun á sérfræðiþekkingu og erlendum tengslum

Mikil samstaða var meðal viðmælenda og þá sérstaklega þeirra sem koma að rekstri að á Íslandi er mikil vöntun á ákveðnum hæfileikum þ.e.a.s. sérfræðiþekkingu. Viðmælendur lýstu þessu vandamáli margir hverjir á þann hátt að á Íslandi væri vöntun á starfsfólki með sérþekkingu á ákveðnum sviðum og var ítrekað nefnt skort á þekkingu á markaðssetningu á stórum erlendum mörkuðum og að vöntun væri almennt á tæknimenntuðu starfsfólki. Viðmælendur sem höfðu reynslu af vöruþróun og markaðssetningu umfram fyrstu stig rekstrar nefndu t.a.m. að þegar komið væri á slík stig kæmi oft í ljós augljós vöntun á hæfileikum sem leiddi til þess að leita þyrfti út fyrir landsteina að starfsfólki. Aðspurður um atriði sem valda fyrirtækjum sem starfa á Íslandi helstu vandkvæðum í rekstri lýsti Hjálmar Gíslason, stofnandi og framkvæmdarstjóri DataMarket framangreindu vandamáli svona:

„Í annað sæti myndi ég setja skort á tæknimenntuðu fólki. Þegar ég lýsi þessu hér úti tala ég um “strong but shallow talent pool”. Þetta snýr ekki bara að skólunum, heldur líka að því hversu erfitt er að flytja inn starfsfólk (utan Evrópulanda) og hversu erfitt er að bjóða fólki sem kemur annars staðar frá samkeppnishæf starfskjör (það stafar að vísu nokkuð af höftunum). Með smá alhæfingu leyfi ég mér að segja að Íslendingar séu góðir í vöruhönnun og –þróun. Þetta er hin hliðin á “strong, but shallow talent pool”. Smæð markaðarins býður ekki upp á mikla sérhæfingu og því margir sem hafa breiða þekkingu, a.m.k. yfirborðsþekkingu, langt út fyrir sitt sérsvið (Hjálmar Gíslason, viðtal 10. febrúar 2014). “

Framangreint vandamál er hægt að leysa með því að færa hluta eða alla starfsemi fyrirtækisins erlendis, DataMarket setti t.a.m. upp starfstöð í Boston er sér um markaðssetningu og fleiri íslensk hugbúnaðarfyrirtæki hafa ráðist í sambærilegar aðgerðir,  eða með því að flytja starfsfólk inn til Íslands. Allir viðmælendur sem höfðu reynslu af því að standa í slíkum ferlum sögðu að það væri erfitt að koma starfsfólki til Íslands og voru nokkrar ástæður nefndar fyrir því. Í fyrsta lagi væru nú höft á Íslandi sem settu mikið strik í reikninginn, í öðru lagi eru háir tekjuskattar á Íslandi og í þriðja lagi er regluverkið ekki þjált þegar kemur að því að flytja inn starfsfólk, sérstaklega starfsfólk utan Evrópska efnahagssvæðisins. Þeir viðmælendur, sem höfðu framangreinda reynslu af því að standa í að finna lausnir á þessu vandamáli, töldu flestir að besta lausnin, fyrir utan það að fyrst þyrfti að afnema höftin, væri að koma á laggirnar einhverskonar hvatakerfi er snýr að þessu starfsfólki sem væri sambærilegt t.d. við svokallaðar Expert Tax skattlagningar eins og fyrirfinnast víða t.d. í Svíþjóð og Kanada. Einfalt dæmi um slíka skattlagningu væri að ef sérfræðingur á sviði sem vöntun væri á í landinu kæmi til landsins að vinna fyrir íslenskt fyrirtæki þá gæti hann sem dæmi fengið 50% afslátt af tekjuskatti í takmarkaðan tíma t.d. 3-5 ár. Viðmælendur töldu að slíkt kerfi myndi reynast vel enda myndi þetta vera gulrót til að koma sérfræðiþekkingu í mikilli vöntun til landsins og viðvera slíkra aðila gæti síðan haft margföldunaráhrif þekkingar og reynslu inn á íslenskan vinnumarkað. Svona hvatar gætu því gegnt mikilvægu hlutverki ekki bara í því að auðvelda fyrirtækjum að sækja sérfræðivinnuafl heldur í að byggja upp sérþekkingu í íslenska hagkerfinu sem vöntun væri á.

Önnur atriði sem viðmælendur nefndu sem snúa að sérfræðiþekkingu voru að tengsl við erlenda sérfræðiþekkingu eru takmörkuð á Íslandi ásamt því að það er gjarnan vöntun á þekkingu og skilning á rekstri hugbúnaðar- og tæknifyrirtækja meðal innlendra fjármögnunaraðila sem myndar oft gjá á milli eigenda og fjárfesta þegar kemur að fjárfestingum. Viðmælendur vildu margir sjá meiri og sterkari tengsl og áhrif erlendra fjárfesta á Íslandi en einnig að komið væri á laggirnar fleiri og öflugari framtakssjóðum sem hefðu mikla sérfræðiþekkingu  á sviði hugbúnaðar- og hátæknifyrirtækja. Sterk tengsl við erlenda sérfræðiþekkingu og fjárfesta töldu margir viðmælendur að væri algjör grundvöllur fyrir því að eftirsóknarvert væri að stofna metnaðarfull hugbúnaðar- og hátæknifyrirtæki á Íslandi því ef og þegar það kæmi að því stigi að það þyrfti að afla fjármögnunar sem ekki væri hægt að mæta á Íslandi eða að ná stórum útgöngusölum þar sem fyrirtæki væru seld á einu bretti (e. exit), þá yrðu að vera öflug tengsl við erlenda fjárfesta. Margir viðmælendur bentu þó á að þetta landslag væri að breytast hratt á Íslandi því síðustu ár hafa íslensk fyrirtæki og einstaklingar í síauknum mæli myndað slík tengsl. Nýlegasta dæmið um slíkt er fjármögnun Plain Vanilla sem sótt var til Bandarískra framtakssjóða, en stærðargráðan á þeirri fjármögnun sem var yfir 20 milljónir dollara gerði það að verkum að ekki er raunhæft að ætla að hægt hefði verið að afla hennar með góðu móti á Íslandi. Fjármálastjóri Plain Vanilla, nefndi í viðtali vegna rannsóknarinnar að stjórnendum Plain Vanilla hefði tekist að mynda öflugt og gott tengslanet við Bandaríska framtakssjóði og fjárfestanet í þessu ferli sem þeir vildu að fleiri íslenskir aðilar gætu notið góðs af. (Ýmir Örn Finnbogason, viðtal 11. febrúar 2014)

Kostnaður við að stofna félag

Vilji aðili stofna fyrirtæki á Íslandi getur hann sett reksturinn upp í nokkur mismunandi félagaform eða sinnt rekstrinum sem einstaklingur á eigin kennitölu. Lang algengasta félagaformið á Íslandi er einkahlutafélagaformið. Þó nokkur kostnaður fylgir því að stofna félag á Íslandi og bentu margir viðmælendur á það að það væri dýrt að stofna félag á Íslandi í alþjóðlegum samanburði og að helstu röksemdafærslur yfirvalda fyrir kostnaði og fjárbindingu ættu við veik rök að styðjast. Vilji aðili stofna félag þarf sá hinn sami að mæta útgjöldum og kröfum yfirvalda um fjárbindingu. Kostnaður við stofnun mismunandi félagaforma á Íslandi er sem hér segir (Ríkisskattstjóri, 2014) :

Tafla 1. Kostnaður við stofnun mismunandi félagaforma á Íslandi

 Tafla 1

Til viðbótar við framangreinan kostnað er einnig gerð krafa á lágmarkshlutafé við stofnun hlutafélaga. Við stofnun einkahlutafélags skal lágmarkshlutafé vera 500.000 kr. og við stofnun hlutafélags skal lágmarkshlutafé vera 4.000.000 kr. Vilji aðili eða aðilar stofna einkahlutafélag utan um rekstur þarf því að útvega a.m.k. 630.500 kr. til þess eins að geta sett löglega upp félag í kringum reksturinn. Meðallaun fullvinnandi launamanna á Íslandi árið 2012 voru 402.000 krónur samkvæmt launakönnun Hagstofu Íslands og þá er átt við laun fyrir skatta (Hagstofa Íslands, 2013). Það er því ljóst að sé miðað við meðalráðstöfunartekjur á Íslandi að þá getur það tekið einstakling marga mánuði að safna fyrir þeirri upphæð sem krafist er til að geta sett rekstur í félagaform. Viðmælendur bentu eins og áður sagði á að þessi kostnaðarkrafa væri mjög há á Íslandi í alþjóðlegum samanburði. Þessi fullyrðing viðmælenda er studd alþjóðlegum mælingum eins og fram kemur í kaflanum Rekstrarumhverfið á Íslandi í alþjóðlegum samanburði. Ein helstu rök löggjafans fyrir framangreindum kostnaði og hlutafjárbindingu hafa verið að þetta sé leið til þess að berjast gegn kennitöluflakki og að með hlutafé séu til einhverjar eignir sem kröfuhafar geta gengið að. Í mars 2013 bárust t.a.m. fréttir af því að lagafrumvarp sem ætlað væri að taka á kennitöluflakki væri farið til þingflokka stjórnarflokkanna en umræðan var á þá leið að sem liður í að berjast gegn kennitöluflakki ætti að hækka lágmarkshlutafé einkahlutafélaga í 750.000 kr. (Sif Sigmarsdóttir, 2013). Frumvarpið náði aldrei í gegn í framangreindri mynd en umræðan gefur mynd af því hvernig hugsun hjá löggjafanum er varðandi lágmarkshlutafé. Viðmælendur höfðu margir sterkar skoðanir á lágmarkshlutafjárkröfunni og töldu flestir að þetta væri ekki hentug leið til að berjast gegn kennitöluflakki. Kjartan Ólafsson, stofnandi Basno og eigandi Volta Labs, sagði að áhugavert væri að bera saman Ísland og Bandaríkin þegar kæmi að meðferð á gjaldþrotum fyrirtækja og því sem á Íslandi væri kallað kennitöluflakk (viðtal, 5. febrúar 2014). Kjartan telur að stór ástæða þess að kennitöluflakk hefur verið vandamál á Íslandi og gjarnan mikið í deiglunni sé að á Íslandi sé mikill lántökukúltúr og bankalán séu ekki bara lang algengasta fjármögnunarformið heldur hafi þau sögulega séð of oft verið veitt út á krít án þess að fullnægjandi veð liggi fyrir. Þess vegna sé það meira samfélagslegt vandamál þegar fyrirtæki verði síðan gjaldþrota og mæta ekki skyldum sínum því þá eru það kröfuhafar sem oft eru dreifður hluthafahópur, almenningur, sveitarfélög eða hið opinbera sem þurfa að taka á sig tapið. Kjartan bætti því við að í raun ættu fyrirtæki sem fara af stað í eins áhættumikin rekstur eins og hugbúnaðarfyrirtæki ekki að fá bankalán þar sem fyrstu skref byggja t.d. algerlega á óefnislegum eignum og von um að tími og peningar náist til að forrita kóða sem skilar því sem ætlast er til af honum o.s.frv. Kjartan útskýrði þetta þannig að ef bankastofnun veitir lán í slíkan rekstur, þar sem ekki eru fyrir fullnægjandi veð, að þá er mögulegur ávinningur bankastofnunarinnar væntanlegir vextir af láninu sem eru t.d. 5-15% af höfuðstól en áhættan er 100% tap. Slíkar lánveitingar eru því aldrei réttlætanlegar. Fjárfestir sem kemur inn í reksturinn með fé og fær hlutdeild í félaginu er í allt annarri verðmætastöðu. Það besta sem fyrirtæki sem ekki getur lagt fram fullnægjandi veð getur gert er að fá bankalán því þá hefur það fært áhættuna yfir á bankann. Baráttan við kennitöluflakk liggur fyrst og fremst í því að tryggja fullnægjandi veð, samningsstöðu og aðför ef til þess kemur. Kostnaðurinn við að stofna félög reisa hinsvegar hindranir sem geta skipt sköpum fyrir einstaklinga. Margir viðmælendur töldu að þessi kostnaður væri ekki bara óþarfa þröskuldur heldur skipti hann máli.

 

Áhættufælni á Íslandi.

Umræða um áhættu í viðskiptalífinu er ekki ný af nálinni á Íslandi. Mælikvarðar í umræðunni hafa hinsvegar nýlega breyst að því leyti að í kjölfar hruns stóru bankanna þriggja sem að miklu leyti má rekja til óhóflegrar áhættusækni, er eins og ný lína hafi verið dregin í sandinn um það hvernig áhætta skuli metin. Áhættusækni fékk á sig slæman stimpil og um tíma virtist öll áhætta vera sett undir sama hatt og álitin glæfraleg. Ljóst er að fjármálakerfið brást við, útlán banka snarminnkuðu og kröfur um veð og útlán voru hertar sem er í sjálfu sér ekki óeðlilegt, enda ljóst að ákveðin pottur var brotin í því hvernig staðið var að slíkum gerningum hér áður fyrr, a.m.k. um tíma. Bestu sönnunargögnin um það liggja líklega í því hversu léleg veð voru oft sett fyrir háum lánum í eignasöfnum bankanna og jafnvel veð í bréfum sem verið var að lána fyrir sem í eðli sínu eru áhættufjárfestingar. En eins og oft gerist í kjölfar áfalla var bakslagið öfgafullt og kvörtuðu t.a.m. flestir viðmælendur undan því að aðgangur að fjármagni hefði takmarkast umfram það sem skynsamlegt mætti teljast á sama tíma og gífurlega háar fjárhæðir af lausafé lokuðust inn í landinu. Viðbrögð ríkisins voru á svipaða leið og var farið í margvíslegar lagasetningar til þess að lágmarka áhættusækni í viðskiptalífinu. Ríkisstjórnin sem tók við völdum árið 2009 í kjölfar efnahagshrunsins á Íslandi árið 2008 beitti sér t.a.m. fyrir margvíslegum skattabreytingum. Mörgum af þeim skattbreytingum var ætlað að takmarka áhættu í viðskiptum t.a.m. með því að takmarka svigrúm fyrirtækja til að umbuna starfsfólki og eigendum sínum og með því að gera hvatatæki til áhættusækni eins og kaupréttarsamninga nær bitlaus tól. En áhætta er ekki slæm fyrir viðskiptalífið, þvert á móti er áhættusækni grundvöllur heilbrigðs viðskiptalífs og nýsköpunnar. Áhættu verður þó að stilla í hóf svo hún endi ekki í fífldirfsku eða glæfraskap og eru margir fræðimenn á þeirri skoðun að hlutverk ríkisins sé að smíða leikreglur og umhverfi sem hvetja til áhættusækni og styðja við hana en refsi þó fyrir fífldirfsku og glæfraskap. Munurinn þarna á er stór. Að taka áhættu er að fórna ákveðnum hagsmunum í þeirri von að umbunin sé meiri.

Óstöðugleiki í rekstrarumhverfinu

Viðmælendur nefndu nokkrir að mikill óstöðugleiki væri í rekstrarumhverfinu á Íslandi til lengri tíma og væri hann skapaður af stjórnvöldum. Regluverk sem snýr að rekstri eins og skattaumhverfi fyrirtækja væri reglulega breytt sem skapaði óvissu og óþægindi fyrir rekstraraðila. Þeir viðmælendur sem höfðu tengsl við erlenda fjárfestingaraðila nefndu að þessi þáttur væri oft stór hluti í fælni erlendra aðila til að koma með fjármagn til landsins og felldu viðmælendur þetta undir pólitískan óstöðugleika. Alþjóðlegar mælingar renna stoðum undir þetta eins og fram kemur í kaflanum Rekstrarumhverfið á Íslandi í alþjóðlegum samanburði.

 

[1] Rannsakandi sendi erindi til Ríkisskattstjóra í tengslum við rannsóknina og var þessi framkvæmd staðfest.

[2] Samtal við rannsakanda