Rekstrarumhverfi hugbúnaðar- og sprotafyrirtækja á Íslandi

 

Ég rannsakaði rekstrarumhverfi hugbúnaðar- og sprotafyrirtækja (nýsköpunar-) í masters ritgerð minni í fjármálum fyrirtækja og er óhætt að segja að niðurstöðurnar úr rannsókninni voru mjög afgerandi og ansi áhugaverðar. Rannsóknin endaði á að verða nokkuð umfangsmikil en ég ræddi við sérfræðiaðila á þessu sviði, fulltrúa margra af helstu fyrirtækjum okkar í þessum geira, aðila úr stjórnsýslunni, frá löggjafarvaldinu, aðila úr fjárfestingarsjóðum, skattkerfinu, lögfræðinga, endurskoðendur, fjárfesta og áfram má telja. Í heild ræddi ég við 27 manns vegna rannsóknarinnar. Síðan bar ég saman niðurstöður innlendu rannsóknarinnar við erlendar mælingar og að lokum eyddi ég nokkru púðri í að rannsaka erlendar fyrirmyndir í þessum bransa.

Niðurstöðurnar voru (í mjög stuttu máli) þær að á Íslandi er ofsalega gott að stofna fyrirtæki og hér eru nokkrir lykilþættir sem veita okkur samkeppnisforskot eins og smæð, aðgangur að tengslaneti þjóðarinnar, stutt er í prufumarkaði, gott aðgengi er  að stjórnvöldum, launa- og aðstöðukostnaður er tiltölulega lár hér í alþjóðlegum samanburði og áfram má telja.

En rekstrarumhverfið er líka með nokkra fremur stóra vankanta og eru þeir helstu þeir að hér er ófullnægjandi fjármögnunarumhverfi, sérstaklega þegar kemur að vaxtarfjármagni, skattkerfið er að ýmsu leyti ósanngjarnt og tók ég sérstaklega fyrir það sem ég kalla framhlaðna skattlagningu en það má einnig benda á að skattkerfið drepur hvata niður í meira mæli á ákveðnum sviðum en í samanburðarlöndum t.d. þegar kemur að hvötum til fjárfestinga og þá er mikil vöntun á ákveðinni sérfræðiþekkingu. Hér mætti nefna fleiri þætti eins og kostnað við að stofna félög og óstöðugleika en fyrst og fremst telja þessir þrír þættir sem veikleikar þ.e.a.s. fjármögnunarumhverfið, þættir í skattaumhverfinu og takmarkaður aðgangur að sérfræðiþekkingu.

Kosturinn við þá veikleika sem steðja að rekstrarumhverfi hugbúnaðar- og sprotafyrirtækja á Íslandi er að þeir eru mun viðráðanlegri heldur en t.d. styrkirnir sem við Íslendingar höfum sem byggja meira á þáttum sem eru ekki eins umbreytanlegir eins og menning og smæð. Flesta veikleikana er hægt að lagfæra með breyttu regluverki en ég eyddi nokkrum tíma í að rannsaka mögulegar lausnir við framangreindum veikleikum og komst að því að önnur ríki hafa í gegnum tíðina beitt lausnum sem hafa virkað nokkuð vel við öllum þeim helstu vandamálum sem við glímum við.

Áhugaverðar fyrirmyndir varðandi fjármögnun finnast víða t.d. í Ísrael í BIRD og YOZMA módelunum. Áhugaverðar lausnir varðandi takmarkaðan aðgang að sérfræðiþekkingu gætu verið eitthvað eins og sérfræðiskattlagningar sem beitt hefur verið víða t.d. í Svíþjóð, Kanada og Bretlandi svo eitthvað sé nefnt. Áhugaverðar lausnir varðandi skattkerfið er að finna víða t.d. er fullt af áhugaverðum hvötum til staðar í flestum þeim viðmiðunarþjóðum sem við berum okkur gjarnan saman við.

Myndbandið hér að ofan er stutt kynningarmyndband á rannsókninni sem ég tók saman og hvet ég þá sem hafa einhvern áhuga á þessu viðfangsefni að kíkja á það. Niðurstöður rannsóknarinnar í heild sinni eru síðan í aðgengilegu formi á heimasíðu þessari.