Hraðallinn Ísland

Á Íslandi er gott að stofna fyrirtæki, aðgangur er að góðu tengslaneti, styttra er í prufumarkaði en almennt gengur og gerist erlendis og grunnaðstæður eru til staðar til þess að mikill hraði getur verið í ferlinu að breyta hugmynd í fyrirtæki. Við þetta má bæta eins og fram kemur í skýrslu starsfhóps fjármálaráðuneytisins um skattaívilnanir til kaupa á hlutabréfum í litlum fyrirtækjum í vexti að „Í alþjóðlegum samanburði er virkni íslenskra fyrirtækja á sviði rannsóknar- og þróunarstarfsemi ein sú hæsta sem um getur og vísindastarf þykir standa föstum fótum hér á landi (Fjármálaráðuneytið, 2013).“  Framangreind virkni mældist árið 2009 3.11% á Íslandi á móti 2,03% meðaltali í Evrópu og 2,75% meðaltali í Bandaríkjunum. Síðan má benda á að ótal vísbendingar og mælikvarðar eru til staðar sem gefa til kynna að fjármagn og styrkir sem veitt hefur verið í nýsköpunar- og sprotafyrirtæki á síðustu árum sé að skila sér margfallt tilbaka. Ein mest sláandi niðurstaðan sem rannsakandi rakst á við vinnslu rannsóknarinnar var samantekt á afdrifum nýsköpunarfyrirtækja sem fengið hafa styrki úr Tækniþróunarsjóði frá árinu 2005. Alls fengju 32 fyrirtæki úthlutað styrkjum að upphæð 201 milljón krónur. Einungis fjögur af þeim hafa hætt rekstri síðan þá. Hinsvegar hafa 14 fyrirtæki eða nær 44% þeirra sem hlutu styrk náð mjög góðum árangri. Velta þessara fyrirtækja var 20.558 milljón krónur árið 2005 en hafði vaxið í 118.858 milljón krónur á árinu 2012 sem er nærri sexföldun á sjö árum (Fjármálaráðuneytið, 2013). Fjöldi starfsmanna nærri tvöfaldaðist á sama tíma.

Að mati rannsakanda ætti Ísland auðveldlega að geta verið í fremstu röð í heiminum þegar kemur að rekstrarumhverfi hugbúnaðar- og sprotafyrirtækja. Rannsakandi telur einnig að  auðveldlega sé hægt að smíða þannig umhverfi að slík fyrirtæki hafi góða vaxtarmöguleika, mikilvægir grunnþættir eru til staðar samanber mannauð, menningu, kostnað gagnvart vexti, aðgang að stjórnvöldum o.fl. eins og rakið hefur verið í þessari rannsókn. Á Íslandi á að vera hægt að smíða þannig umhverfi að hér séu byggð upp öflug fyrirtæki hratt sem geta síðan sótt á stærri markaði og margfaldað virði sitt ansi hratt. Draumurinn um þúsundföldun á grunnfjárfestingu er ekki óhugsandi, slík dæmi hafa margoft komið fram í þessum bransa og þeim er að fjölga. Ísland er hinsvegar ekki heimamarkaður sem fyrirtæki geta vaxið á, til þess er markaðurinn of lítill, þess vegna ætti frá byrjun að reyna að smíða umhverfi sem stuðlar að alþjóðlegum vexti. Umhverfi sem stuðlar að slíkum vexti þarf fyrst og fremst að hafa aðgang að nægilegu fjármagni og fullnægjandi tengslaneti og þekkingu á réttu mörkuðunum erlendis. Lykilatriðið í þessu öllu saman er hvernig staðið verður að fjármögnuninni, hvernig fjármögnunarumhverfið verður eflt. Í rannsókn þessari hafa verið kynntir helstu veikleikarnir í rekstrarumhverfi hugbúnaðar- og sprotafyrirtækja og snúa þeir helst að fjármögnun, skattaumhverfinu og erlendum tengslum og sérfræðikunnáttu. Í rannsókninni hafa einnig verið kynntar lausnir á öllum framangreindum veikleikum og ljóst er að aðrar þjóðir hafa þegar tekist á við alla þá veikleika sem hrjá Íslendinga í þessum efnum með góðum árangri.

Það var upplifun rannsakanda að mikill vilji og skilningur sé á þeim vandkvæðum sem Íslendingar standa frammi fyrir í þessum efnum og á mikilvægi þess að bæta rekstrarumhverfið í þessum geira. Hvort sem það voru aðilar úr stjórnsýslunni, lífeyrissjóðunum, rekstraraðilar eða sérfræðingar að þá var mikill samhljómur í að umhverfið þyrfti að bæta og að mögulegur ábati Íslendinga af sterku hugbúnaðar- og sprotafyrirtækja umhverfi væri mikill. Ákveðnum skriðþunga hefur þegar verið náð í að sækja breytingar til hins betra á vissum sviðum sem farið hefur verið yfir í rannsókn þessari t.a.m. hvata til fjárfestinga og uppsetningu nýrra framtakssjóða. Slíkt er að sjálfsögðu af hinu góða en ekki ber að fagna fyrr en breytingum hefur verið náð og niðurstöður liggja fyrir. Áherslu ætti fyrst og fremst að leggja á að smíða fullnægjandi fjármögnunarumhverfi og er það mat rannsakanda að slíkt verður ekki gert án aðkomu erlendra aðila, bæði hvað varðar sérþekkingu og reynslu en einnig hvað varðar nægilegt fjármagn. Í þessu tilliti þarf ekki endilega að koma erlendum sjóði til starfa á Íslandi en að minnsta kosti þarf aðgengi út fyrir íslensk hugbúnaðar- og sprotafyrirtæki sem þurfa vaxtarfjármagn því eins og nýleg dæmi sýna að þá getur fullnægjandi fjármögnun þýtt tugir milljóna dollara og það er ekki raunhæft að ætlast til að upphaf og endir fjármögnunar sé á Íslandi og á sama tíma ætlast til að íslenska fjármögnunarumhverfið ráði við slíkar fjármagnanir. Það er margrannsakað að eitt mikilvægasta skrefið í að ná stjarnfræðilegri ávöxtun og stórum lokasölum í þessum geira byggir á fullnægjandi fjármögnun á fyrri stigum og þá sérstaklega vaxtastiginu. Fyrirmyndir sem hafa sannað virkni sína í þessum efnum hafa verið kynntar í rannsókn þessari.

Íslendingar eiga að vera sérfræðingar í að byggja upp fyrirtæki og fara með þau úr milljón upp í milljarð og koma þeim síðan erlendis. Þúsundföldunarvélin Ísland mun síðan laða að sér erlenda hæfileika og aðila sem vilja stofna fyrirtækin sín hér á landi. Þetta þarf hvorki að vera óraunhæfur né fjarlægur veruleiki ef rétt er haldið á spilunum og farið af krafti í að laga þá grunnveikleika sem kynntir hafa verið í rannsókn þessari. Hraðallinn Ísland mun þá hafa umhverfi sem er í fararbroddi í heiminum í að koma hugmynd í hagnað. Í þessu tilliti er það svo sannarlega raunhæft að Ísland verði best í heimi.