Félagaform

Flestir viðmælendur voru sammála að félagaformið á Íslandi væri þægilegt og fremur einfallt. Frosti Sigurjónsson, alþingismaður og englafjárfestir, benti t.a.m. á að á Íslandi væri það um tveggja daga vinna að stofna fyrirtæki, víða er það meira mál með miklu flækjustigi. Frosti tók sem dæmi Frakkland þar sem hann þekkir til og sagði hann að það væri ekki stofnað fyrirtæki á minna en þrem mánuðum og fyrstu starfsmenn sem þyrfti að ráða í Frakklandi væru lögfræðingar og endurskoðendur til að geta sinnt skrifræðiskröfunum. Frosti bætti því við að í Frakklandi væri ekki hægt að stofna fyrirtæki án þess að fá styrk, á Íslandi þyrfti það ekki því það er svo einfallt. Alþjóðlegar mælingar renna stoðum undir lýsingar Frosta en Ísland var það ríki sem það tók fæsta daga að stofna félag af samanburðarríkjum og þá var Ísland fyrir miðju í samanburðarríkjum en ofarlega í allri mælingunni þegar kemur að fjölda aðgerða til að stofna félag og er þetta ekkert nema jákvætt. Hinsvegar eru nokkrir þættir er snúa að félagaumgjörðinni sem mætti taka til endurskoðunnar.

Kostnaður við að stofna fyrirtæki

Kostnaðurinn við að stofna félag er vandamál á Íslandi skv. rekstrarviðmælendum og þar mældist Ísland ekki nógu vel í alþjóðlegum samanburði. Viðmælendur höfðu hinsvegar mjög misjafnar skoðanir á þessum kostnaði og töldu sumir viðmælendur hreinlega að hann væri ekki nógu hár, enda ætti að vera ákveðið aðhald að þeim sem stofna fyrirtæki svo þeir gætu ekki bara stofnað fyrirtæki út um allt til að svindla á kerfinu. Eins og farið er yfir í köflunum Kostnaður við að stofna félag og Að hefja rekstur þá getur þessi kostnaður verið töluverð hindrun fyrir venjulegt fólk sem vill hefja rekstur og kostnaður er í flestum viðmiðunarríkjum ekki sambærilegur. Hinsvegar eru kröfur og aðhald ríkisins að rekstraraðilum mismunandi á milli ríkja og vegur það upp á móti þessum kostnaði. Eins og áður er komið fram er einfallt að stofna fyrirtæki á Íslandi og getur í raun hver sem er gert það burtséð frá sinni rekstrar- eða skuldarsögu. Þá telja sérfræðingar margir hverjir að sögulega hafi skattyfirvöld ekki verið nógu dugleg að ganga að rekstraraðilum sem skulda opinber gjöld og skila ekki lögbundnum skýrslum.[1] Við þessu hefur þó verið brugðist á margvíslegan hátt undanfarin ár t.d. með því að loka virðisaukaskattsnúmerum rekstraraðila sem ekki standa réttilega í skilum mun fyrr og skilvirkar en áður þekktist og með því að leggja á auknar sektir á slíka aðila. Í dag er t.d. hægt að loka á fyrirtæki sem ekki hafa skilað ársreikningum í lengri tíma, þá hafa kröfur á endurskoðendur verið auknar og áfram má telja. Margir telja að þessar aðgerðir séu að skila góðum árangri t.d. í baráttunni gegn kennitöluflakki. Það er skoðun rannsakara að svona aðhald sé eðlilegara til að koma í veg fyrir slík vandamál fremur en að reisa aðgangshindrun á að stofna fyrirtæki í formi fjárútláta, slíkt vekur margar spurningar um sanngirni og samkeppnishæfni. Að lokum má benda á að í leiðara Tíundar, fréttablaðs Ríkisskattstjóra frá 22. apríl 2014 kemur fram að í dag geta allir á Íslandi stofnað félag og komist á virðisaukaskattskrá á meðan margir þessara sömu aðila myndu ekki fá grænt ljós hjá fjármálastofnunum. Þarna kann að vera kjarni málsins, að í stað þess að refsa öllum núna og í framtíðinni sem vilja stofna til atvinnureksturs með því að hafa stífa kostnaðarkröfu til að bregðast við svindli og slugsagang nokkurra aðila að þá væri e.t.v. eðlilegra að aðhald og kerfi væri þess eðlis að slíkt svindl væri ekki eins auðframkvæmanlegt hvort sem það er í formi lána án fullnægjandi veða með lítilli eftirfylgni eða eftirlátssemi skattyfirvalda í að skila ekki lögbundnum gjöldum og gögnum. Framangreint stendur þó vissulega til bóta eins og fram er komið og verður líklega ekki eins mikið vandamál í framtíðinni og það hefur sögulega verið bæði vegna aukins aðhalds hjá fjármálastofnunum og skattyfirvöldum. Hinsvegar væri það skref afturábak að ætla að fara að hækka kostnaðarkröfur til að stofna til atvinnurekstrar.

Skráning hluthafa

Það var ekkert sérstaklega lögð áhersla á skráningu hluthafa í viðtölunum og er því ekki minnst á það í niðurstöðukafla viðtala en nokkrir aðilar minntust sérstaklega á ákveðin vandkvæði er snúa að þessu. Í ljósi þekkingar og reynslu rannsakara er talið nauðsynlegt að benda á ákveðin vankant í þessum málum og mögulega lausn á móti. Í dag er hluthafaskrá félaga geymd hjá félögunum sjálfum. Þetta minnkar gegnsæi í rekstri félagana ásamt því að minnka öryggi hluthafa og minnka seljanleika bréfa. Komi ókunnugur fjárfestir að félagi og vill meta stöðu þess þá má ætla að það sé fráhrindandi að vita til þess að hann þarf að treysta á framangreint fyrirkomulag. Það eru til ótal sögur á Íslandi þar sem hlutafés skráning hefur verið með vafasömum hætti.

Ef ríkið myndi halda utan um hluthafaskráningu t.d. hjá fyrirtækjaskrá Ríkisskattstjóra þá má sjá í hendi sér að slíkt myndi auka seljanleika bréfa, færa meira öryggi til fjárfesta og auðvelda skattaeftirlit. Þá gæti þetta líka hjálpað til við öflugari verðmyndun sprotafyrirtækja. Fjárfestar sem væru að íhuga að fjárfesta í félögum gætu t.d. skoðað hvernig eignaskipting félaga væri. Gagnrýnisraddir á svona opinbera skráningu snúa fyrst og fremst að því að það komi öðrum ekki við í hverju einstaklingar fjárfesta. Þessi gagnrýni á rétt á sér og mætti hugsanlega bregðast við henni með því að hafa uppsetninguna þannig að félagið sjálft þarf að veita aðilum aðgang að skráningunni, en skráningin væri engu að síður hjá yfirvöldum.

Auðveldara að skiptast á hlutum

Það er óskráð rekstrarregla að stofna ekki félag fyrr en nauðsyn krefur og er gjarnan miðað við þann tímaramma þegar skrifa þarf út fyrsta reikning. Ástæðan fyrir þessari reglu er sú að stofnun félags er kostnaðarsöm og stofnar til kvaða frá ríkisvaldinu. Fram að stofnun félags getur samt verið töluverð vinna í gangi við að undirbúa rekstur og er algengt form á skiptingu eignahlutdeildar í félögum að það fari eftir vinnuframlagi manna fram að stofnun félags ásamt fjárframlagi þeirra. Sem dæmi eru þrír aðilar að vinna að því að stofna fyrirtæki og allir leggja þeir fram 500 þúsund krónur í stofnfé og stefna því að því að þegar félagið verður stofnað þá muni hver þeirra eignast þriðjungs hlutdeild í félaginu. En það líður ár fram að stofnun félagsins og á því tímabili leggur A fram tvisvar sinnum meiri vinnuframlag að stofnun félagsins en aðilar B og C. Aðilarnir koma sér því saman um að auka hlutdeild A í félaginu sem þeir ætla að stofna í takt við vinnuframlag hans. Þetta er að sjálfsögðu löglegt og vekur enga skattskyldu. En um leið og félag er stofnað er þetta ekki lengur hægt án þess að mynda skattskyldu. Eðlilegra væri að starfsmenn félaga gætu í einhverri mynd stundað framangreint án kostnaðar.

 

[1] Samtal rannsakanda við Kristín Norðfjörð skattasérfræðing ásamt samtölum við fleiri aðila innan skattkerfisins sem vildu ekki láta nafna sinna getið.