Skattar

Skattaumhverfið veldur nokkrum vanda er lýtur að rekstrarumhverfi hugbúnaðar- og sprotafyrirtækja á Íslandi í dag. Helstu vandamálin sem snúa að skattkerfinu varða hvata en eins og viðmælendur bentu á er skattaumhverfið nokkuð óhentugt þegar kemur að hvötum til að fjárfesta og vinna. Þetta er staðfest í alþjóðlegum mælingum en Ísland mælist í 124. sæti af þeim 148 löndum sem mæld voru í samkeppnisskýrslu WEF um áhrif skattlagningar á hvata til fjárfestinga sem þýðir að rúmlega 83% af mældum ríkjum eru fyrir ofan Ísland í þessu tilliti, þá mældist Ísland í 117. sæti í áhrifum skattlagningar á hvata til að vinna. Aðrir veikleikar í rekstrarumhverfinu snúa að svokallaðri framhlaðinni skattlagningu sem fylgir ekki greiðsluflæði en dæmi um þetta sem geta snert beint á rekstrarumhverfi hugbúnaðar- og sprotafyrirtækja snúa að kaupréttum, umbreytanlegum skuldabréfum og hugsanlega reiknuðu endurgjaldi eins og fram kemur í kaflanum Skattkerfið. Við rannsókn á mögulegum lausnum og yfirferð yfir erlendar fyrirmyndir kom ýmislegt í ljós sem ætla mætti að gæti hentað vel á Íslandi til þess að mæta framangreindum vanköntum.

Lausn varðandi umbreytanleg skuldabréf

Eins og fram kemur í kaflanum Umbreytanleg skuldabréf kann að vera töluvert gagn í aukinni notkun umbreytanlegra skuldabréfa við fjármögnun hugbúnaðar- og sprotafyrirtækja á Íslandi, sérstaklega á upphafsstigum. Í dag er skattlagning er snýr að hinum svokallaða afslætti sem oft er veittur við notkun þessa bréfa nokkuð fráhrindandi fyrir fjárfesta. Þegar breytiréttur á umbreytanlegu skuldabréfi er nýttur er ekki óalgengt að veittur sé afsláttur t.d. 20% þannig að skuldabréfið breytist í hlutafé að nafnvirði skuldabréfs að viðbættu 20% álagi. Eins og staðan er í dag er þessi afsláttur tekjuskattskyldur hjá fjárfestinum við umbreytingu sem þýðir að þó að fjárfestir hafi ekki selt nein bréf eða fengið út neinn raunhagnað þ.e.a.s. ekki eingöngu pappírshagnað að þá þarf hann að standa skil á opinberum gjöldum (Lög um tekjuskatt, 2003). Eins og bent hefur verið á þekkist þetta fyrirkomulag t.d. ekki í Bandaríkjunum þar sem þessi tegund fjármögnunar er mikið notuð á upphafsstigum sprota- og hugbúnaðarfyrirtækja. Lagt er til að skattlagningunni sé frestað fram að sölu bréfa, slíkt myndi gera þennan fjármögnunarkost mun meira aðlaðandi fyrir fjárfesta ásamt því að skattlagningin verður sanngjarnari en auðveldlega er hægt að sjá dæmi þar sem fjárfestir þarf að greiða skatt af tapi í núverandi kerfi, lækki bréfin í verði fram að væntum söludegi.

Lausn varðandi kauprétti

Eins og fram kemur í kaflanum Kaupréttir hefur dregið mikið úr notagildi kauprétta á Íslandi með skattlagningu. Í dag eru kaupréttir á Íslandi skattlagðir sem tekjur og telst þá til skattskyldra tekna mismunur á kaupverði samkvæmt kaupréttarsamningi og gangverði bréfanna þegar kaupréttur er nýttur (Lög um tekjuskatt, 2003). Þetta þýðir að ef starfsmanni fyrirtækis er boðið kaupréttur þá þarf hann um leið og hann nýtir kaupréttinn að greiða fullan tekjuskatt af mismuninum á kaupréttarverðinu og verði bréfanna eins og þau eru á þeim tíma. Hinsvegar hefur á þeim tímapunkti ekki myndast neinn raunverulegur hagnaður fyrir starfsmanninn, mögulegur hagnaður myndast ekki fyrr en bréfin sem fengin voru í gegnum kauprétt verða seld. Þetta þýðir að á Íslandi geta þeir einstaklingar sem þiggja kauprétt þurft að taka lán til þess að geta nýtt kaupréttinn og staðið undir skattbyrðinni og síðan getur það einnig gerst að virði kaupréttarins er neikvætt eða minna virði en skattgreiðslan sagði til um ef bréfin lækka síðan í verði fram að sölu. Kaupréttir hafa sögulega séð verið mikilvægt tól við fjármögnun og til þess að laða þekkingu og hæfileika að hugbúnaðar- og sprotafyrirtækjum sérstaklega á fyrstu skrefum rekstrar. Viðmælendur bentu með skýrum hætti á mikilvægi þess að kaupréttarformið væri nothæft. Lagt er til sambærileg lausn og varðandi umbreytanlegu skuldabréfin þ.e. að horfið sé frá framhlaðinni skattlagningu í þeirri mynd sem hér hefur verið lýst og að skattlagningu sé frestað fram að sölu bréfanna eins og tíðkast í flestum ríkjum sem Ísland ber sig saman við.

Reiknað endurgjald

Í ljósi þess að ekki reyndist unnt að fá afgerandi upplýsingar frá skattayfirvöldum um það hvernig staðið er að veitingu undanþága vegna reiknaðs endurgjalds er ekki hægt að fullyrða hvort reiknað endurgjald teljist vera form af framhlaðinni skattlagningu eða ekki. Það er alveg ljóst af ef til þess kemur að rekstraraðilar þurfa að greiða sér laun án þess að velta dugi til þess að greiða þau laun sem krafist er af skattayfirvöldum, að þá er um framhlaðna skattlagningu að ræða sem eltir ekki greiðsluflæði og getur lagt mikla byrði á rekstur. Í ljósi þess sem fram kom við rannsóknina að ekki virðist vera skýrt hvernig staðið er að veitingu undanþága og að slík ferli geta verið tímafrek og flókin er lagt til að ekki þurfi að greiða reiknað endurgjald fyrr en ákveðnu tekjulágmarki hefur verið náð. Hér væri t.d. hægt að stilla upp hvatakerfi sem væri þannig að öll fyrirtæki fái fyrsta árið frítt frá greiðslu reiknaðs endurgjalds þar til tekjur ná ákveðnu lágmarki. Þetta gæti gefið aukna hvatningu til að fara út í rekstur og rekstraraðilar væru ekki, eins og nokkrir þeirra lýstu í viðtölum, að hafa áhyggjur af því að geta ekki mætt kröfu um reiknað endurgjald, þegar litlar sem engar tekjur væru að koma inn. Útfærsla á þessu gæti t.a.m. tekið mið af framkvæmd í samkeppnisrétti í því sem kallast hópundanþágur þar sem sett eru fram viðmið og ef fyrirtæki uppfylla þau fá þau undanþágu. Ekki er ólíklegt að framangreind framkvæmd myndi auka hagkvæmni í skattaeftirliti og minnka óvissu í rekstrarumhverfinu.

Sérfræðiskattlagning

Ein af skýrari niðurstöðum rannsóknarinnar var sú að á Íslandi vantar sérfræðiþekkingu á ákveðnum sviðum. Íslenskir rekstraraðilar kvörtuðu undan því að erfitt væri að finna ákveðna tegund af þekkingu og var sérstaklega nefndir þættir er snúa að markaðssetningu á stórum erlendum mörkuðum og að vöntun væri almennt á tæknimenntuðu starfsfólki og þyrfti þá að leita út fyrir landsteina. Hinsvegar sögðu viðmælendur að erfitt væri að koma starfsfólki til Íslands og væru þar helst þrjár ástæður sem valda því: höft, háir tekjuskattar og flókið og hægvirkt regluumhverfi sérstaklega sem snýr að starfsfólki utan evrópska efnahagssvæðisins. Það þarf ekki að fara mörgum orðum um mikilvægi þess að fá inn erlenda sérfræðiþekkingu þegar vöntun er á henni. Ef auðvelt er að flytja inn slíka þekkingu minnkar það líkurnar á að fyrirtækin sem hana þurfa flytji úr landi að hluta til eða öllu leyti. Þá mun aukin aðgangur að slíkri þekkingu auka innlenda þekkingu enda eru margföldunaráhrif af innflutning á þekkingu vel þekkt. Að lokum er auðvelt að sjá hvernig hagkerfið getur grætt á aukinni þekkingu og tengslaneti sem getur fylgt slíku starfsfólki til lengri tíma. Hér má einnig minna á að samkvæmt skýrslu WEF mælist Ísland í 73. sæti þegar kemur að því að laða að hæfileika (e. talent) erlendis frá en hinsvegar mælist Ísland í 24. sæti þegar kemur að því að halda hæfileikum í landinu sem er í topp 16%. Sérfræðiskattlagning gæti styrkt fyrri stöðuna.

Nokkrar leiðir eru til sem taka á framangreindu vandamáli. Fyrir utan það að afnema höft og gera regluverkið þægilegra við að flytja inn erlenda þekkingu er hægt að koma á svokallaðri expert tax eða sérfræðiskattlagningu sem virkar sem gulrót fyrir erlenda sérfræðiþekkingu. Sérfræðiskattlagningar þekkjast víða og eru dæmi um slíka framkvæmd í löndum eins og Danmörku, Svíþjóð og Kanada og síðan er útfærsla til staðar í Bretlandi sem kallast NonDom sem er í svipuðum stíl. Einfalt dæmi um slíka skattlagningu væri að ef sérfræðingur með þekkingu sem vöntun væri á í landinu kæmi til landsins að vinna fyrir íslenskt fyrirtæki þá gæti hann sem dæmi fengið 50% afslátt af tekjuskatti í takmarkaðan tíma t.d. 3-5 ár. Rannsakandi telur að sérfræðiskattlagning sé verðmætt tól, sérstaklega fyrir lítið land eins og Ísland þar sem ekki er hægt að ætlast til þess að menntakerfið geti mætt öllum þörfum nútíma hagkerfis. Rannsakandi telur í raun að sérfræðiskattlagning sé ein af auðframkvæmanlegri lausnum sem hægt er að stilla upp til þess að gera rekstrarumhverfi hugbúnaðar- og sprotafyrirtækja betra sérstaklega ef litið yrði til hugsanlegs ávinnings af slíku kerfi. Framkvæmdin gæti þá verið á þann veg að yfirvöld myndu í samráði við atvinnulífið kortleggja hver vöntunin væri og stilla upp t.d. þrem sérsviðum þar sem hægt væri að sækja um slíka skattlagningu t.d. verkfræðingar, forritarar og læknar. Þau fyrirtæki eða stofnanir sem vanta slíkt starfsfólk geta síðan sótt um sérfræðistöðu fyrir fulltrúa sem kæmu inn. Ef heimild væri veitt á grundvelli fyrirfram skilgreindra krafna myndi sérfræðingurinn fá fellda niður t.d. 50% af tekjuskatti til þriggja ára og 25% af tekjuskatti til tveggja ára eftir það. Reglurnar gætu síðan verið endurskoðaðar á tveggja til fimm ára fresti með þarfir atvinnulífsins í huga. Mikilvægt er að reglurnar yrðu einfaldar og þægilegar í framkvæmd en sænska ríkisstjórnin endurskoðaði sínar reglur árið 2011 og var þá helsta niðurstaðan að það þyrfti að einfalda reglurnar svo þær virki sem best en ein aðal tillagan til að einfalda kerfið var einmitt að það yrðu bara skýrir mælikvarðar sem lægju til grundvallar en ekki huglægt úrskurðarvald skattyfirvalda hverju sinni (Nylander, 2011).

Sænska útgáfan

Ýmsum útgáfum af sérfræðiskattlagningu væri hægt að beita á Íslandi. Í Svíþjóð t.a.m. er lágmarks launagólf sem sérfræðingur þarf að ná til að vera gjaldgengur og var það 85.600 sænskar krónur á mánuði árið 2011. Í Svíþjóð njóta atvinnurekendur þess einnig að borga lægri launatengd gjöld vegna erlendu sérfræðinganna ásamt því að kostnaður sem hlýst að því að flytja sérfræðingana til og frá landinu er undanskilin skatti s.s. flutnings- og ferðakostnaður og skólagjöld fyrir börn. Í Svíþjóð eru hlutföllin þannig að veittur er 25% afsláttur af tekjuskatti til þriggja ára og er þá átt við allar tekjur sérfræðingsins hvort sem það eru launatekjur, hlunnindi, kaupréttir eða annað. Sérfræðingurinn fær búsetuleyfi til fimm ára og er ekki ætlast til þess að hann búi lengur en það í landinu. Samkvæmt sænska viðskiptaráðinu veita sérfræðiafslættirnir sænskum fyrirtækjum aukna getu til að bjóða alþjóðlega samkeppnishæf laun og getu til að byggja starfsemi á heimsmælikvarða gæðalega séð í heimalandinu (The Swedish Trade and Invest Council, 2014).

 

Hvatar

Skattalegir hvatar geta skipt miklu máli þegar kemur að því hvar fjárfestingar enda og hvernig uppbygging atvinnugreina gengur. Flestir viðmælendur voru sammála um að á Íslandi væru mjög lítið af skattalegum hvötum þó vissulega væri fagnað endurgreiðslu hluta skatta vegna þróunarkostnaðar. Sé litið til þeirra samanburðaríkja sem eru til skoðunar í rannsókn þessari kemur í ljós að ekki er óalgengt að einhvers konar skattalegra hvata njóti við. Í kjölfar alþjóðlegu fjármálakrísunnar sem hófst árið 2008 hafa mörg ríki endurskoðað löggjöf sína er snýr að sprotum og nýsköpun í þeim tilgangi að reyna að efla og laða að fyrirtæki í þessum geira. Margar áhugaverðar lagabreytingar hafa fylgt og þá sérstaklega er snúa að skattaumhverfinu og skattalegum hvötum.

Skattalegir hvatar til að byggja upp fjárfestingarsjóði

Eins og skýrt hefur komið fram í rannsókn þessari þá er fjármögnunarskarð til staðar á Íslandi í hugbúnaðar- og sprotageiranum og vilja margir meina að lausnin við því skarði sé að koma á laggirnar fleiri og öflugari framtaksfjárfestingarsjóðum. Í kaflanum Fjármögnunarleiðir er farið yfir ýmsar leiðir sem mögulegar væru til þess að byggja upp slíka sjóði. Hinsvegar er alltaf ákveðin áhættustuðull fyrir hendi og ljóst eins og fram kom í viðtölum að ákveðin fælni er meðal fjárfesta að taka þátt í slíkum sjóðum. Til þess að hjálpa til við uppbyggingu betri fjármögnunarumhverfis á Íslandi væri hægt að nota skattalega hvata til þess að styðja við uppbyggingu framtakssjóða. Ein leið til þess að ná slíku markmiði væri að bjóða hvata fyrir fjármagnseigendur til að setja fé inn í slíka sjóði t.d. með því að bjóða hagnað af slíkri fjárfestingu skattfrjálsa að hluta til eða öllu leyti og þá mögulega til takmarkaðs tíma. Skilyrði í þessu tilliti gætu t.a.m. verið að binda þyrfti fé í sjóðunum í a.m.k. 5 ár og að sjóðirnir sjálfir þyrftu að uppfylla ákveðin skilyrði um framtaksfjárfestingar. Sambærilegar fyrirmyndir af fjárfestingarhvötum eru til staðar víða um heim og má þar m.a. nefna í Bandaríkjunum og Bretlandi.

Léttir frumkvöðulsins (e. entrepreneurs´ relief)

Það er í raun hægt að fara ótal leiðir þegar kemur að því að veita hvata til fjárfestinga í sprotageiranum. Ein af leiðunum sem farin var í Bretlandi í þessu tilliti snýr að því að veita afslátt á hagnaði af sölu nýsköpunar- og sprotafyrirtækja. Í stuttu máli þarf einstaklingurinn sem ætlar að fá afsláttinn að uppfylla eftirfarandi skilyrði:

 • Eiga a.m.k. 5% í fyrirtækinu í heilt ár fyrir sölu.
 • Vera í stjórn eða starfsmaður fyrirtækisins.

Sé framangreindum skilyrðum mætt ásamt því að félagið uppfylli skilyrði um að vera sprotafyrirtæki þá getur eigandinn fengið að greiða einungis 10% skatt af hagnaði af sölu á bréfum í félaginu upp að hámarki 10 milljón punda. Þessi leið er kölluð entrepreneurs´relief eða léttir frumkvöðulsins og var komið á árið 2011 í Bretlandi (Gov.uk, 2014).

Seed Enterprise Investment Scheme

Breska ríkisstjórnin kom á fleiri skattalegum hvötum fyrir sprotageirann en létti frumkvöðulsins og voru árið 2012 kynntar ansi framsæknar hvatareglur sem kölluðust Seed Enterprise Investment Scheme (SEIS) í Bretlandi. Samkvæmt SEIS geta einkafjárfestar (e. private investors) sett upp í 100 þúsund pund í sprotafyrirtæki og fá þá fyrirfram 50% skattaafslátt. Dæmi um þetta væri ef fjárfestir A setur 100 þúsund pund í sprotafélag 1 að þá fær hann 50 þúsund pund í afslátt af tekjuskatt. Að sama skapi sleppa fjárfestar við að greiða hagnað af öðrum fjárfestingum ef þeir endurfjárfesta í sprotafyrirtækjum. Þá er enginn fjármagnstekjuskattur greiddur af hagnaði af bréfum sem hefur verið haldið lengur en þrjú ár. Fari fyrirtækið sem fjárfest er í á hausinn geta fjárfestar fengið því sem samsvarar helming af þeirri upphæð sem fjárfest var fyrir margfaldaða með skattprósentunni bætta. Kröfur eru gerðar á bæði fyrirtækin og fjárfestana sem eru gjaldgeng í afslættina (HM Revenue and Customs, 2014).

Fjárfestar:

 • Mega ekki hafa verið starfsmenn fyrir hlutafjáraukninguna, nema þeir hafi verið framkvæmdarstjórar.
 • Mega ekki eiga meira en 30% í fyrirtæki.

Fyrirtækin:

 • Mega ekki safna meira en 150 þúsund pundum í gegnum þessa leið.
 • Mega ekki hafa meira en 25 starfsmenn.
 • Mega ekki eiga eignir fyrir meira en 200 þúsund pund fyrir hlutafjáraukninguna.
 • Mega ekki hafa verið skráð fyrir meira en tveim árum.

Framangreindar reglur gefa til kynna hvernig hvatarnir eiga að nýtast, en stefnt var að því að hvatarnir myndu nýtast litlum og nýjum sprotafyrirtækjum sem hafa ekki aflað öflugrar fjármögnunar. SEIS verkefnið hefur mælst vel fyrir í heimalandinu og verið mært af mörgum, sérstaklega innan fjárfestingarsamfélagsins. Í janúar 2014 höfðu meira en 1.250 sprotafyrirtæki fengið fjármögnun í gegnum SEIS verkefnið (Payton, 2014)

Startup NY

Í október 2013 tilkynnti fylkisstjóri New York fylkis nýtt verkefni sem kallast Start-up NY. Markmið Start-up NY er að búa til skattfrjáls svæði sem munu laða að og styðja ný fyrirtæki. Verkefnið er unnið í samstarfi með háskólum í New York og virkar þannig að þau fyrirtæki sem uppfylla skilyrði um þátttöku fá alla skatta fellda niður í tíu ár að undanskildum svokölluðum alríkis sköttum (e. Federal tax). Þetta þýðir að tekjuskattur, fyrirtækjaskattur, eigna- og söluskattur er felldur niður í tíu ár. Starfsmenn borga engan tekjuskatt fyrstu fimm árin og seinni fimm árin borga þeir engan tekjuskatt upp að 2-300 þúsund dollurum á ári en skiptingin fer eftir fjölskyldustöðu. Hugmyndin er að New York fylki búi til hraðal fyrir fyrirtæki sem geta vaxið og skapað störf og nýja þekkingu. Fyrirtækin sem taka þátt í verkefninu koma til með að vinna með háskólum og starfa á sértilgreindum svæðum á vegum háskólanna og er hugmyndin að fyrirtækin og háskólarnir vinni saman að því að rannsaka og búa til nýja þekkingu og vörur. Hugmyndin er því að verkefnið virki í báðar áttir, þ.e.a.s. að þetta hjálpi nemendum að stofna rekstur út frá rannsóknum sínum og vinnu í háskólum og að tengja atvinnulífið betur við háskólana og þá sérfræðiþekkingu sem þar finnst. Til þess að vera gjaldgengt í verkefnið þarf fyrirtæki að uppfylla eftirfarandi skilyrði (Cuomo, 2013):

 • Vera sprotafyrirtæki (e. startup company).
 • Vera fyrirtæki staðsett fyrir utan New York sem ætlar að flytja til New York eða vera nýr armur af núverandi fyrirtæki í New York þ.e.a.s. sem er að hefja nýja framleiðslu eða sambærilegt eða nýtt fyrirtæki frá New York. Hugmyndin er að fyrirtækin þurfa að vera líkleg til að flytja inn eða búa til ný störf á fyrsta árinu sem þau starfa en ekki bara færa til störf innan fylkisins.
 • Komast að samkomulagi um verklag við þann háskóla sem það ætlar að sækja um hjá og vera í takt við væntingar og starfsumhverfið sem stillt er upp þar.

Startup NY verkefnið er mjög framsækið og stórt í sniðum. Því hefur almennt verið tekið mjög vel og eru þegar farin að koma fram fyrirtæki sem  hafa gengið vel í gegnum verkefnið. Það er hinsvegar enn og snemmt að segja til um hvort langtímaábati verði af verkefninu. Hinsvegar er um áhugaverða fyrirmynd að ræða sem Íslendingar gætu mögulega litið til.

Skattalegir hvatar á Norðurlöndunum

Í Svíþjóð og Finnlandi voru árið 2013 tekin í gildi skattafsláttarkerfi vegna hlutabréfakaupa einstaklinga. Sambærileg kerfi eru ekki til staðar í Noregi eða Danmörku. Í Noregi er hinsvegar til staðar stuðningskerfi við nýsköpun í formi frádráttar frá tekjuskatti sambærilegt því sem tekið var upp á Íslandi árið 2010 enda sótti íslenska kerfið fyrirmyndina þangað en slík kerfi eru t.a.m. ekki til staðar í Svíþjóð eða Finnlandi. Hvatakerfið sem tekið var upp í Svíþjóð árið 2013 virkar þannig að einstaklingar sem fjárfesta í litlum fyrirtækjum geta fengið skattafslátt að ákveðnum skilyrðum uppfylltum. Hver einstaklingur getur að hámarki fjárfest fyrir 1,3 milljón sænskar krónur á ári og er þá hvatinn sá að heimilt er að draga 50% af fjárfestingunni frá fjármagnstekjum en ef engar eru fjármagnstekjurnar þá færist heimildin yfir á aðrar tekjur. Einstaklingurinn má ekki vera tengdur fyrirtækinu sem hann fjárfestir í og greiða verður fyrir fjárfestinguna með reiðufé (European Commission, 2013). Í Finnlandi virkar kerfið þannig að skilyrðin eru ansi svipuð og í Svíþjóð en þar máttu hinsvegar fresta skattlagningu fjármagnstekja vegna fjárfestingar í litlum fyrirtækjum (European Commission, 2013). Í ljós þess hversu stutt er síðan þessum hvötum var komið á er lítill mælanlegur árangur til staðar.

Skattalegir hvatar til að fjárfesta í sprotafyrirtækjum á Íslandi

Lang flestir viðmælendur voru sammála um að það yrði mikið gagn í því ef stjórnvöld myndu koma á laggirnar einhverskonar skattalegum hvötum til að fjárfesta í sprotafyrirtækjum. Í ljósi þess að mesti veikleikinn í rekstrarumhverfinu er aðgangur að fjármagni er þetta ekki óeðlileg beiðni. Nokkur vinna hefur farið fram í stjórnsýslunni á síðustu árum við að skoða möguleikana á beitingu slíkra hvatatóla og má þar helst nefna að í desember 2013 gaf starfshópur á vegum fjármálaráðuneytisins um skattaívilnanir til einstaklinga vegna kaupa á hlutabréfum í litlum fyrirtækjum í vexti út greinagerð. Í greinagerð starfshópsins er farið yfir hvernig hægt sé að koma í framkvæmd skattaívilnunum til einstaklinga vegna kaupa á hlutabréfum í litlum fyrirtækjum í vexti en í stuttu máli var slíkt reynt með lagasetningu árið 2010 en frestað eftir athugasemdir frá eftirlitsstofnun EFTA (ESA).

Tillagan sem starfshópur fjármálaráðuneytisins leggur fram í lok greinagerðar sinnar er sú að til að stuðla að vexti lítilla nýsköpunarfyrirtækja verði lögfest hvatakerfi sem felur í sér skattafslátt til þeirra einstaklinga sem lagt hafa nýsköpunarfyrirtækjum til hlutafé. Skilyrðin sem þarf að uppfylla eru eftirfarandi (fjármálaráðuneytið, 2013):

Kerfið nær til hlutafélags/einkahlutafélags sem uppfyllir eftirtalin skilyrði:

1. Er á vaxtarskeiði.

2. Hefur 50 starfsmenn eða færri eða er með veltu undir 10 milljónum evra á ári eða efnahagsreikning að hámarki 10 milljónum evra.

3. Er stofnað á Íslandi, á EES svæðinu eða í Færeyjum.

4. Stundar starfsemi á Íslandi.

5. Er ekki skráð á hlutabréfamarkað.

6. Á ekki í fjárhagsvandræðum (bókað með fyrirvara um nánari útfærslu).

7. Stundar ekki einvörðungu inn- og útflutning á vörum sem framleiddar eru af öðrum. (Nýsköpunar- og hönnunarfyrirtæki sem sjálf þróa vöru en láta framleiða fyrir sig erlendis til alþjóðlegrar markaðssetningar falla þó innan rammans)

8. Stundar ekki starfsemi á sviði skipasmíða, kola- og stáliðnaðar.

Fjárfesting þarf að uppfylla eftirtalin skilyrði

1. Heildarfjárfesting í hverju félagi getur að hámarki orðið X kr. á þriggja ára tímabili.[1]

2. Allt það hlutafé sem fellur innan kerfisins verður að vera nýtt hlutafé og það má ekki veita forgangsrétt af neinu tagi.

3. Allt það hlutafé sem fellur innan kerfisins verður að vera að fullu greitt í reiðufé og innan viðkomandi rekstrarárs (ekki framtalsárs).

4. Allt það hlutafé sem fellur innan kerfisins verður að vera nýtt í þágu atvinnurekstrarins og til að viðhalda eða fjölga störfum.

Einstaklingur getur öðlast rétt til skattafsláttar ef hann uppfyllir öll eftirtalinna skilyrði:

1. Ber ótakmarkaða skattskyldu á Íslandi á því ári sem hann gerir kröfu um skattafsláttinn (framtalsári).

2. Skráir sig fyrir hlutafé í einkahlutafélagi/hlutafélagi sem uppfyllir skilyrði kerfisins og greiðir fyrir hlutaféð að fullu með reiðufé.

3. Er ekki tengdur félaginu á þeim tíma sem sótt er um skattafsláttinn (þau framtalsár sem eignarhaldstíminn spannar).

Skattafsláttur

Einstaklingur sem skráir sig fyrir hlutafé öðlast rétt til frádráttar frá tekjuskattsstofni enda séu öll framangreind skilyrði uppfyllt.

Frekari skilyrði skattfrádráttar eru þessi:

1. Fjárfestingin er að lágmarki kr. 100.000 og að hámarki kr. Y (getur verið í fleiri en einu félagi).

2. Afslátturinn er í formi frádráttar frá tekjuskattstofni.

3. Hámarksfrádráttur hvers einstaklings er ákveðið hlutfall af fjárfestingu hvers skattárs.

i) Ef einstaklingur selur eða afsalar á annan hátt því hlutafé sem veitti rétt til skattfrádráttar innan þriggja ára verður skattfrádrátturinn dreginn til baka.

Framangreindar tillögur starfshópsins eru svo sannarlega af hinu góða og leiða vonandi, komist þær í framkvæmd, til þess að fjármögnunarumhverfi hugbúnaðar-og sprotafyrirtækja batnar á Íslandi. Notkun á þeim hvötum sem kynntir eru að framan mun velta að miklu leyti á því hvernig hlutföll og hámörk verða heimiluð í væntanlegum lögum, t.a.m. hversu mikið má að hámarki eiga  og fjárfesta í félögum. Lokatakmörkunin sem minnst er á í tillögunum um að ef einstaklingur selji eða afsali sér á annan hátt hlutafé ógildi frádráttinn er eðlileg svo lengi sem hún taki ekki til heildarsölu á félaginu sjálfu t.d. ef það yrði selt til erlendra fjárfesta í heilu lagi. Vonandi stefnir því í betra fjármögnunarumhverfi á Íslandi en framangreindar tillögur snúa þó einungis að hluta af vandamálinu t.a.m. nær þessi hvati ekki til stærri fjárfesta og sjóða og er ólíklegt að einstaklingar geti einir borið uppi það fjármagnsskarð sem myndast hefur á Íslandi í þessum geira og lýst er í þessari rannsókn.  Innlendir aðilar gætu því skoðað eitthvað af þeim fyrirmyndum og tillögum sem kynntar eru hér að framan sem mögulega  lausnir við þeim vandkvæðum.

Tvískattlagning hlutafélagahagnaðar

Á Íslandi eins og víðar er hlutafélagahagnaður tvískattlagður. Með tvískattlagningu er átt við að útgreiðsla t.a.m. arðs er skattlögð hjá greiðanda sem úttektarskattlagning en einnig móttakanda sem úthlutunarskattlagning. Almennt er talið að slík tvískattlagning hafi óæskilegar afleiðingar fyrir viðskiptalífið. Ólíkt því sem gerist víðar hefur ekki verið reynt að milda tvískattlagninguna á Íslandi. Í gegnum tíðina hefur ýmsum leiðum verið beitt til að milda tvískattlagningu í öðrum ríkjum og hefur einkum fjórum aðferðum verið beitt (Ásmundur Vilhjálmsson, 2014):

 1. að leyfa félagi að draga greiddan arð frá tekjum
 2. að leyfa hluthafa að undanþiggja móttekinn arð skatti
 3. með samblandi af báðum þessum aðferðum
 4. með því að endurgreiða  hluthafa þann skatt er félag hefur greitt vegna hlutareignar hans – Avoir fiscal

Á Íslandi er engum af þessum aðferðum beitt og telja margir þ.á.m. þekktir skattasérfræðingar að tvískattlagning fyrirtækjahagnaðar hafi gengið alltof langt (Ásmundur Vilhjálmsson, 2014). Því er lagt til að skoðað verði að beita einhverjum af framangreindum leiðum til þess að milda tvískattlagningu hlutafélagahagnaðar og jafna þar með samkeppnisgrundvöll íslenskra fyrirtækja við erlend viðmiðunarríki.

 

[1] Í athugasemd með þessum lið er bent á að hámark skv. gildandi reglum ESA sé 2,5 milljón evra á 12. mánaða tímabili.