Fjármögnunarleiðir

Alvarlegasta vandamálið sem snýr að rekstrarumhverfi hugbúnaðar- og nýsköpunarfyrirtækja á Íslandi í dag varðar fjármögnun fyrirtækja. Eins og fram kom í viðtölum þá eru fjármögnunarskörð í fjármögnunarumhverfinu, fyrst og fremst á því stigi rekstrar sem kemur eftir fyrstu fjármögnun sem kom fyrirtækinu af stað og er gjarnan áður en farið er í mikinn vöxt. Slíkt fjármögnunarskarð er einnig á upphafsstigum rekstrar eða hinu svokallaða sprotastigi, þó það fjármagnsskarð virðist ekki vera eins alvarlegt. Fjármögnunin á millistiginu er stundum kölluð vaxtafjármögnun, þar sem oft er um að ræða það stig sem kemur á undan helsta vaxtaskeiði fyrirtækis. Þá er vöntun á hvötum til fjárfestinga og eru ákveðnar hindranir í skattaumhverfinu sem gera notkun algengra fjármögnunar- og hvatatóla erlendis eins og kauprétta og umbreytanlegra skuldabréfa minna aðlaðandi hérlendis. Alþjóðlegar mælingar renna stoðum undir það að framangreindir þættir séu ekki í ásættanlegu horfi á Íslandi. Ein skýrasta útkoman úr alþjóðlega samanburðinum er að aðgangur að fjármagni á Íslandi er takmarkaður og að Ísland stendur ekki vel m.v. viðmiðunarríki. Í samkeppnis skýrslu WEF kemur t.a.m. fram að á eftir gjaldeyrishöftum og verðbólgu eru aðgangur að fjármögnun og skatthlutfall og skattalöggjöf þeir þættir sem valda mestum vandkvæðum við samkeppnishæfni íslenska hagkerfisins. Niðurstöður Alþjóðabankans voru þær að í heildina er Ísland neðst viðmiðunarríkja þegar kemur að aðgengi að fjármagni eða í 42. sæti. Ísland var einnig neðst viðmiðunarríkja þegar kemur að fjármögnun samkvæmt mælingum WEF eða að meðaltali í 88. sæti. Munurinn á mælingunum skýrist af því að aðrir þættir eru lagðir til grundvallar matinu.  Ísland mælist síðan í neðsta fjórðungi allra mældra ríkja hjá WEF þegar kemur að áhrifum skattlagningar á hvata til að fjárfesta eða í 124. sæti af 148 mældum ríkjum. Við rannsókn á mögulegum lausnum m.a. með athugun á erlendum fyrirmyndum kom ýmislegt í ljós sem ætla mætti að gæti hentað vel á Íslandi til þess að mæta framangreindum vanköntum á rekstrarumhverfinu.

Sprotahröðun – Y Combinator módelið, Techstars og Startup Chile

Viðmælendur kvörtuðu margir undan því að á Íslandi vantaði oft þekkingu og skilning á meðal fjárfesta á geiranum sem þeir starfa í. Þá kvörtuðu nokkrir viðmælendur undan því að það gæti verið erfitt og of mikið af óhentugum kvöðum háð að fá upphafsfjármagn, hið svokallaða sprotafjármagn, á Íslandi. Til þess að mæta sambærilegum vandamálum var Y Combinator sprotahraðallinn (e. seed accelerator) stofnaður í mars árið 2005 í Bandaríkjunum. Y Combinator útvegar sprotafjármagn, ráðgjöf og tengslanet í gegnum tvö þriggja mánaða ferli ár hvert. Sem gagngjald fyrir framangreint tekur hraðallinn iðulega 6 prósent eignahlutdeild í félaginu sem fjárfest er í. Frá 2005 hefur Y Combinator fjármagnað yfir 630 fyrirtæki og er sjóðurinn margverðlaunaður og var t.a.m. valin besta nýsköpunar útungunarvélin (e. Startup incubator) árið 2012 af Forbes tímaritinu (Geron, 2012). Síðan Y Combinator kom fram á sjónarsviðið hefur fjöldin allur af aðilum út um allan heim tileinkað sér hið svokallaða hröðunarmódel. Það er erfitt að fylgjast með nákvæmlega hversu margir hraðlar eru núna starfandi en vefsíðan f6s.com sem er þjónustusíða fyrir hraðla og nýsköpunarstuðningsverkefni skráir ríflega 2.500 slík verkefni víða um heim (f6s.com, 2014). Y Combinator er frægasti hraðallinn en siðan hafa einnig verið sett upp svokölluð hraðlatengslanet (e. Accelerator networks) og er frægasta tengslanetið TechStars tengslanetið en þangað hefur t.a.m. Arion banki leitað og fengið stuðning við að setja upp Startup Reykjavík en Startup Reykjavík hefur tileinkað sér hluta af módelinu (Startup Reykjavík, 2014). Hraðlatengslanet í anda TechStars minna oft meira á námsstofnanir en fyrirtækjarekstur. Fólk vinnur gjarnan saman í 10-12 manna bekkjum með leiðbeinanda viðstaddan og á þremur mánuðum er mikið af námskeiðum og fundum og fyrirlestrum með leiðbeinendum sem síðan verða mögulega svokallaðir lærifeður (e. Mentor) fyrir verkefnið (The Economist 2014).

 

Verklagið

Þegar Y Combinator kom fram á sjónarsviðið kynntu þeir nýtt módel af sprotafjármögnun. Tvisvar sinnum á hverju ári fjárfestir hraðallinn upphæð á bilinu 14-20 þúsund dollara í fjölda fyrirtækja í einu ásamt því að fjárfestar setja 80 þúsund dollara til þeirra sem klára módelið (Rao, L. 2012).  Í síðustu umferð ársins 2013 voru 68 fyrirtæki sem fengu fjárfestingu (Graham, P. 2013). Fyrirtækin flytja síðan til Sílikondals í þrjá mánuði og á því tímabili vinnur hraðallinn með þeim í að koma þeim sem hraðast áfram og undirbúa fyrirtækin til þess að fara inn í næstu umferð fjármögnunar hjá stærri fjárfestum. Þegar hverri umferð lýkur síðan eftir þrjá mánuði er haldin svokallaður kynningardagur (e. demo day) þar sem fyrirtækin kynna viðskiptaáætlanir sínar fyrir lokuðum hópi sem Y combinator kallar saman. Takmark Y Combinator er s.s. að koma góðum hugmyndum á laggirnar og gefa aðstandendum þeirra allt sem til þarf á fyrstu skrefum til að geta haldið áfram og sótt þá þekkingu, fjármagn og tengsl sem þarf til að geta komið hugmyndinni og fyrirtækinu eins langt og hægt er (Graham 2013). Verklagið í hverri umferð eða hring (e. cycle) eins og það er kallað er á þá leið að vikulega eru haldnir kynningarfundir þar sem Y Combinator fær einhvern aðila sem gjarnan hefur mikla reynslu eða þekkingu úr geiranum og oftar en ekki er um að ræða aðila sem hefur stofnað og komið á laggirnar stóru fyrirtæki, til þess að koma og vera með erindi. Þessir fundir eru notaðir sem einskonar mælikvarðar á framgang fyrirtækjana hverju sinni ásamt því að þarna gefst tækifæri til þess að ræða mál, spyrja spurninga og kynna hugmyndir. Að öllu jöfnu hafa síðan fyrirtækin aðgang að sérfræðiteymi Y Combinator allan tíman á meðan á hverjum hring stendur og geta þau þá pantað skrifstofutíma með ráðgjafa hverju sinni. Y Combinator teymið er með sérfræðinga úr ýmsum áttum t.a.m. tvo lögfræðinga sem veita lögfræðiráðgjöf og aðstoð frítt.

 

Áhugaverðar fyrirmyndir

Startup Reykjavík hefur rutt brautina á Íslandi með hröðunarmódelinu en ljóst er m.a. vegna fjölda umsækjenda og þeim takmarkaða tímaramma á árinu sem Startup Reykjavík starfar í að það er svigrúm fyrir fleiri hröðunarmódel og þá jafnvel með mismunandi útfærslum. Upprunalega Y Combinator módelið gæti vissulega hentað á Íslandi, lykilatriðið er að fólkið sem stendur á bakvið hraðalinn hafi næga þekkingu og reynslu til þess að geta annarsvegar metið góðar hugmyndir á sínu sérfræðisviði og hinsvegar veitt stuðning sem gagn er af. Það eru ekki bara einkaaðilar sem hafa stillt upp hröðunarmódelum heldur hafa ríki og sveitarfélög einnig stillt upp áhugaverðum módelum víða um heim. Það sem gerir hröðunarmódelið eftirsóknarvert sem ríkisframtak er einkum tvennt. Í fyrsta lagi er um að ræða fjárfestingu í nýsköpun og þ.a.l. verkefnum sem geta leitt til tækninýjunga og vaxtar í nýjum iðnaði en í öðru lagi sem er jafnvel mikilvægara er hröðunarmódelið kjörið dæmi um góða menntun. Dave McClure sem er stofnandi 500 Startups, sem er hraðall í Sílíkondal orðaði þetta svona: „Ég myndi frekar vilja fá 100 þúsund dollara til að framkvæma rannsókn heldur en að borga 100 þúsund dollara til að lesa um rannsókn“ (The Economist, 2014). Eins og forstjóri CCP benti á á iðnþingi 2014, þegar hann sýndi hversu mörg fyrirtæki hefðu orðið til út frá tæknifyrirtækinu OZ, að hvort sem hugbúnaðar- og nýsköpunarfyrirtæki fara á hausinn eða ekki þá er fylgifiskur við rekstur þeirra eðli síns vegna að þau búa til nýja þekkingu og reynslu sem heldur áfram að smitast í gegnum hagkerfið. Hraðlar stuðla að framgangi slíkrar smitunar.

Jóhann Tómas Sigurðsson vann hjá einu stærsta tæknifyrirtæki í heimi, Google, í hartnær 10 ár. Jóhann flutti síðan heim árið 2011 og hefur sett upp sprotafjárfestingarfélagið Investa á Íslandi. Jóhann telur (viðtal 16. apríl 2014) að á Íslandi sé mikill skortur á tæknimenntuðu fólki og telur Jóhann að eitt mest aðkallandi verkefni íslenskra stjórnvalda til stuðnings viðskiptalífinu og þá sérstaklega hugbúnaðar- og sprotageirann sé að efla menntakerfið. Áhugaverð leið til þess að mæta skorti á tæknimenntun í menntakerfinu eru módel eins og hröðunarmódelið þar sem menntunin er mjög markvisst miðuð inn á það svið sem einstaklingar hafa valið sér að sækja fram á og menntunin er í formi þjálfunar og leiðbeiningar í tilteknum verkefnum sem eru líkleg til að skila vexti í hagkerfið. Það er ekki að ástæðulausu að Forbes hefur kallað sprotahraðla valkost á móti MBA gráðum (Forbes, 2012). Eitt af þeim ríkismódelum sem hefur vakið hvað mesta athygli og náð áhugaverðum árangri er Startup Chile en hér mætti einnig nefna fleiri módel eins og Startup Wise Guys í Eistlandi og Oasis500 í Jórdaníu.

Startup Chile er sprotahraðall sem var settur á laggirnar af stjórnvöldum í Chile. Verkefninu er stýrt af Efnahagsþróunar stofnun Chile (e. Chilean Economic Development Agency) og er takmarkið að hvetja til nýsköpunar og framtakssemi til þess að örva framleiðni í Chile. Verkefnið er fjármagnað í gegnum þrjú mismunandi ráðuneyti og var hleypt á stokk árið 2010 með því að bjóða 22 sprotafyrirtækjum (e. Startups) frá 14 mismunandi löndum til Chile og fékk hvert fyrirtæki 40 þúsund dollara styrk og eins árs atvinnuleyfi til að þróa verkefnið sitt í sex mánuði. Þau fyrirtæki sem eru valin fara í 24 vikna verkefni þar sem þau hljóta ráðgjöf, skrifstofurými og aðgang að upplýsinga- og fjármálatengslaneti landsins. Verkefnið er opið öllum bæði innlendum sem erlendum en hingað til hafa flest fyrirtæki sem hafa verið valin inn verið erlendis frá. Yfirlýst markmið verkefnisins er að gera Chile að nýsköpunar- og frumkvöðlamiðstöð Suður Ameríku með því að laða að heimsins bestu frumkvöðla til að tengja rekstur, hugmyndir og fyrirtæki sín í hagkerfi Chile. Önnur markmið snúa að því að tengja hagkerfi Chile betur inn í alþjóðasamfélagið og efla frumkvöðlamenningu og nýsköpun í Chile. Valferlið fer fram hjá valnefnd sem er skipuð innlendum sérfræðingum og sérfræðingum úr Sílíkondal og er áhersla lögð á að velja verkefni sem talin eru hafa alþjóðlega burði (e. Global potential) þ.e.a.s. geti orðið útflutningsvara en ekki eingöngu starfað á heimamarkaði. Útdeiling fjármagns fer fram þannig að þegar fyrirtæki komast inn í hraðalinn fá þau helming af styrk fjárhæðinni 20 þúsund dollara, þrem mánuðum seinna er síðan útdeilt hinum helming fjárhæðarinnar en þá upphæð fá aðeins þau fyrirtæki sem eru talin standa sig vel. Það eru yfirleitt fimm til tíu fyrirtæki sem ekki ná seinni upphæðinni (Start-up Chile, 2014).

 

Árangur

Y Combinator er almennt talin vera sá hraðall sem hefur náð bestum árangri í heiminum. Samkvæmt stofnanda Y Combinator Paul Graham er góður vöxtur á meðan á Y Combinator hringnum stendur eða um 5-7% á viku og er þá átt við vöxt í tekjum eða fjölda viðskiptavina en Graham segir að einnig þekkist dæmi um 10% vöxt á viku (GrowHack.com, 2012). Meðal virði fyrirtækis sem hefur hlotið stuðning Y Combinator var 45,2 milljón dollarar árið 2012 (Geron, T. 2012). Y Combinator hefur átt þátt í að koma mjög stórum fyrirtækjum af stað og má þar t.d. nefna Dropox og Airbnb. Sequoia Capital, sem er einn stærsti og farsælasti framtakssjóður í heimi, hefur fjárfest í gegnum Y Combinator.

Árangur Techstars hefur verið mældur nokkuð ítarlega og heldur Techstars úti tölfræðisíðu þar sem hægt er að fara yfir tölfræði er snýr að þeim fyrirtækjum sem hafa hlotið fjármögnun í gegnum hraðal á þeirra vegum (Techstars, 2014). Töflur 10 og 11 sýna stöðu þeirra fyrirtækja sem Techstars hefur fjármagnað og ýmsa tölfræði er varða fyrirtækin.

 

 

Tafla 10. Staða fyrirtækja sem Techstars hefur fjármagnað

 Tafla 10

 

 

Tafla 11. Ýmis tölfræði frá Techstars

 Tafla 11

 

Startup Chile er í dag orðið stærsta sprotasamfélag í heimi og er almennt talið hafa skilað góðum árangri. Það getur þó verið erfitt að mæla árangur á ýmsum sviðum en yfirvöld í Chile vinna nú að frekari mælingum á árangri verkefnisins með því að reyna að kortleggja hvernig staða þeirra fyrirtækja er í dag sem hafa farið í gegnum hraðalinn. Það liggja engu að síður fyrir nokkrar tölur sem hægt er að skoða. Seinni part 2013 höfðu meira en 700 verkefni farið í gegnum hraðalinn frá 65 löndum. Af 663 sprotafyrirtækjum í fyrstu sjö kynslóðum Chile hraðalsins hafa 12,7% þeirra landað fjárfestingu fyrir 32 milljón dollara samtals (Stewart, E. 2013). Árangur fyrstu kynslóðarinnar sem tók þátt í Startup Chile árið 2010 var mældur tveim árum eftir útskrift en um var að ræða 22 sprotafyrirtæki og voru niðurstöðurnar eftirfarandi (Lustig, N. 2012):

  • 10 fyrirtæki (45%) voru að stunda viðskipti í Chile.
  • 7 fyrirtæki (32%) höfðu safnað meira en fjórum milljónum dollar í fjármögnun samtals.
  • 12 fyrirtæki (55%) voru með hagnað á rekstri eða hafði tekist að safna töluverðum fjárhæðum.
  • 3 fyrirtæki (14%) fóru á hliðina.
  • 1 fyrirtæki (4,5%) hafði verið yfirtekið.
  • 19 fyrirtæki (86%) voru með einhverskonar viðskiptaleg tengsl við Chile.
  • Að minnsta kosti 16 ný störf höfðu verið sköpuð í Chile.

Árangur fyrstu umferðar er því góður að mörgu leyti. En það eru einnig aðrir þættir sem eru illmælanlegir sem geta skipt hvað mestu máli varðandi gagn af sambærilegum verkefnum og snúa þeir þættir að langtímahagnaði í formi starfa, þekkingar, reynslu, tengsla o.s.frv. Yfirlit yfir umræðuna um árangur af Startup Chile gefur til kynna að fáir efast um að verkefnið sé ekki að uppfylla eitt af grunnmarkmiðum sínum þ.e. að tengja hagkerfi Chile betur inn í alþjóðasamfélagið og efla frumkvöðlamenningu og nýsköpun í Chile. Það er of snemmt að mæla langtímaárangur fyrir hagkerfið í formi aukinnar framleiðni.

Flestir hraðlar koma fram árið 2010 og seinna og er því takmörkuð gögn til sem mæla árangur vegna þeirra. Hægt og bítandi eru samt að koma fram betri gögn. Jed Christiansen sem vinnur fyrir Google hefur kortlagt og fylgst með framvindu og árangri 182 hraðla sem hafa stutt yfir þrjú þúsund fyrirtæki. Þessi fyrirtæki hafa sín á milli aflað 3,2 milljarða dollara í frekari fjármögnun eftir þátttöku í hraðli og hafa útgöngusölur eða svökölluð exit farið fram fyrir að andvirði 1,8 milljarða dollara. Y Combinator og Techstars eru leiðandi hraðlar í heiminum í þessu tilliti eins og sjá má á mynd 2 (The Economist, 2014).

 

Mynd 3. Fjármögnun fyrirtækja sem koma frá hröðlum – heimild: Seed-DB

 

Englasamvinna

Algengt er erlendis að svokallaðir englar komi að fjármögnun og stuðningshlutverki við framtaksfyrirtæki og þá sérstaklega á fyrstu stigum. Með englafjárfesti er átt við einstakling sem fjármagnar gjarnan fyrstu skref hjá fyrirtækjum og kemur þá oft að rekstrinum sem ráðgjafi eða með því að opna tengslanet sitt fyrir fyrirtækið. Algengt er að englafjárfestar hafi sjálfir bakgrunn í þeim geira sem þeir fjárfesta í og komi þannig inn með sérþekkingu. Áhugavert er að skoða skiptingu fjármögnunar þegar kemur að svokallaðri upphafsfjármögnun[1] í Sílíkondal í Bandaríkjunum árið 2012 (Mynd 4). Stærsti einstaki fjárfestahópurinn eru englar með 25% af sprotafjármögnun.

Mynd 4. Skipting sprotafjármögnunnar í Sílíkondal í Bandaríkjunum 2012 – heimild: Startup ecosystem report 2012.

Mynd 4

Áður fyrr var framlag englafjárfesta hvorki mikið né skipulagt, en á seinni hluta níunda áratugarins fóru englar að mynda svokallaða englahópa (e. Angel groups) sem höfðu það að takmarki að deila upplýsingum, hjálpa hvor öðrum að framkvæma grunn athuganir á fjárfestingum (e. due dilligence) og setja fjármuni saman í púkk í stærri fjárfestingar. Fljótlega fóru þessir hópar að hafa meiri áhrif og tengjast betur inn í fjármögnunarumhverfið en árið 1996 voru um tíu slíkir hópar starfandi í Bandaríkjunum og tíu árum seinna, árið 2006, voru þeir orðnir yfir 200 talsins (Lee, 2006). Hugmyndin með tengingun englana í hóp er sú að englarnir hafa mismunandi sérþekkingu og reynslu sem nýtist. Engill A hefur t.d. sérþekkingu á líftækni á meðan engill B hefur sérþekkingu á hugbúnaði. Ef engill A fær inn á borð til sín fjárfestingartækifæri sem varðar hugbúnað getur hann notað tengslanetið innan hópsins og beint tækifærinu til engils B sem er betur til þess fallinn að meta fjárfestinguna. Að sama skapi getur engill A metið fjárfestingu sem varðar líftækni og framkvæmt grunn athuganir og í kjölfarið mælt með fjárfestingu til hinna englana í hópnum ef hann telur að um álitlega fjárfestingu sé að ræða.

Frosti Sigurjónsson, þingmaður Framsóknarflokksins, hefur komið að fjárfestingum víða í hlutverki engils. Frosti hefur bent á (2014) að engill leggur mest af mörkum fyrstu 1-3 árin en á Íslandi séu hinsvegar flestir englar fastir með fjárfestingu sína í 5-15 ár og eru flestir íslenskir englar óvirkir af þessari ástæðu. Í viðtölum vegna rannsóknarinnar var gjarnan rætt um engla og töldu viðmælendur margir að englar á Íslandi væri í kringum 100 talsins. Hinsvegar töldu flestir viðmælendur einnig að englar á Íslandi væru lítið skipulagður hópur og margir tóku undir með Frosta að meirihluti engla hér á landi í dag væri í raun fastur með fjármagn sitt og tíma í nokkrum verkefnum til lengri tíma. Sé litið til hefbundins hlutverks engla þá er það rétt sem Frosti segir að áhrif þeirra og aðstoð vegur gjarnan þyngst á fyrstu stigum, þegar rekstraraðilar eru óreyndir og vantar aðgang að þekkingu og tengslaneti og lægri upphæðum fjármögnunnar en oft er þörf seinna í rekstrinum. Þegar rekstur hefur þroskast, tengslanet og þekking hefur myndast og það þarf að afla meiri fjármögnunar þá minnkar virði engils töluvert og því orðið meira gagn af honum ef hann myndi koma sér út úr fyrirtækinu og byrja að hjálpa öðru fyrirtæki að fóta sig. Í ljósi þess sem framan greinir gæti verið skynsamlegt að skoða hentugar lausnir sem gætu gagnast við það að: a) gera engla á Íslandi að skipulegari og skilvirkari stuðnings- og fjárfestahóp fyrir framtaksfyrirtæki og b) að losa engla út úr fjárfestingum sínum þegar þeir hafa sinnt meginhlutverki sínu. Fyrri hlutinn, að koma á englahóp, ætti í sjálfu sér ekki að vera mjög flókinn í framkvæmd og má líta til englahópa sambærilegum þeim sem lýst hefur verið í Bandaríkjunum. Þá mætti einnig skoða nýtt form af englasamvinnu sem hefur verið að ryðja sér til rúms erlendis og kallast Angel Syndicates eða Englasamtök. Englasamtök virka þannig að engill A safnar fólki sem treystir honum til þess að meta fjárfestingar og gefur honum vilyrði um blinda fjármögnun t.d. að aðili B er tilbúinn að fjárfesta 5 þúsund dollara í það verkefni sem engill A er tilbúinn að fjárfesta sjálfur í. Engill A safnar síðan í samtökin sín t.d. 10 fjárfestum og hver þeirra gefur vilyrði fyrir t.d. 5 þúsund dollurum. Engill A finnur síðan fjárfestingu sem honum lýst vel á og er það þá gjarnan þannig að engillinn er að meta fjárfestingar á sínu sérsviði. Engill A ákveður að fjárfesta 50 þúsund dollara og virkjar síðan samtökin sín sem hafa þá samtals 50 þúsund dollara fjárfestingargetu til viðbótar í verkefnið. Engill A fær síðan hluta af hagnaði heildarupphæðarinnar sem hann fjárfesti áður en öðrum hagnaði er deilt út, þannig að í þessu tilviki er hann búinn að afla 100 þúsund dollara fjármögnun og þá fær hann t.d. 20% af hagnaði af þessum 100 þúsund dollurum áður en hagnaði er síðan deilt út til annarra. Vefsíðan angel.co hefur verið leiðandi vettvangur þar sem englar og aðrir fjárfestar skipuleggja englasamtök en þar kemur fram að hagnaðarhlutdeild engils sem kallað er Carry er vanalega á milli 5% og 20%. Hugmyndin á bakvið englasamtök er að fjárfestar fá aðgang að fjárfestingartækifærum, engillinn fær hvata til að leita uppi fjárfestingartækifæri á sama tíma og hann fær aðhald að gera það vel og fyrirtæki og þá sérstaklega framtaksfyrirtæki fá fjármögnun.

Seinna viðfangsefnið, að losa engla út þegar þeir hafa sinnt hlutverki sínu, snýr fyrst og fremst að því að það sé einhverskonar viðskiptavaki sem ýti undir markaðsverð og sölu á bréfum. Ef horft væri til þess að skynsamleg þróun fjármögnunar hjá framtaksfyrirtæki væri að þegar fyrirtækinu hefur verið komið af stað og það er tilbúið í hið svokallaða vaxtarstig að þá gætu komið inn stærri og þróaðari fjárfestar eins og framtakssjóðir sem gætu þá losað út minni fjárfesta á því stigi samanber því sem gjarnan þekkist t.d. í Bandaríkjunum að þá eru tvær lausnir sem gætu verið ásættanlegar. Í fyrsta lagi væri það að koma á laggirnar skilvirkari fjármögnunarumhverfi þar sem ekki eru áberandi fjármögnunarskörð, en þörfum á framangreindu fjármögnunarstigi á Íslandi virðist ekki vera mætt. Mögulegar lausnir við því verða ræddar í næsta hluta Framtaksfjármögnun – aðrar lausnir. Annars vegar væri hægt að koma á fót skilvirku markaðsumhverfi með óskráð bréf en í því samhengi er hægt að líta til First North markaðar kauphallarinnar. Aukin notkun umbreytanlegra skuldabréfa gætu síðan verið hentug tól í framangreindri samvinnu vegna þeirra eiginleika sem farið er yfir í kaflanum Umbreytanleg skuldabréf.

 

Framtaksfjármögnun – aðrar lausnir

Á Íslandi eru starfandi framtakssjóðir, má þar t.d. nefna sjóðina Frumtak og Nýsköpunarsjóð Atvinnulífsins. Með framtakssjóð er átt við það sem er kallað á ensku Venture Capital Fund en það sem einkennir þessa sjóði er að þeir stýra fjármagni frá fjárfestum og fjárfesta í óskráðum fyrirtækjum sem eru iðulega lítil til meðalstór og hafa mikla vaxtamöguleika. Fjárfestingar slíkra sjóða eru áhættusamar en geta að sama skapi skilað mjög háum arði og er ekki óalgengt að arður af fjárfestingum sé mældur í margföldunum í stað prósenta.

2/20 módelið

En þrátt fyrir að á Íslandi séu starfandi framtakssjóðir eru ekki starfandi neinir svokallaðir tveir og tuttugu sjóðir sem eru þekktir sem helstu framtakssjóðir þegar kemur að hugbúnaðar- og nýsköpunargeiranum í Bandaríkjunum. Eins og nokkrir viðmælendur höfðu orð á í einni eða annarri mynd að þá eru engir alvöru framtakssjóðir á Íslandi. Framangreindri fullyrðingu eru vissulega ekki allir viðmælendur sammála. Slíkir sjóðir virka þannig að þeir eru iðulega stofnaðir af fáum einstaklingum sem hafa þá gjarnan mikla reynslu og þekkingu bæði úr þeim geira sem þeir ætla sér að fjárfesta í og einnig af fjárfestingum, þessir aðilar eru kallaðir virkir eigendur (e. active partners) en þeirra hlutverk er að sigta út góðar fjárfestingar og fylgja þeim síðan eftir með stuðning og aðgangi að tengslaneti sínu og þekkingu. Inn í myndina koma síðan takmarkaðir eigendur (e. limited partners) sem eru þeir aðilar sem koma með megnið af fjármagninu inn. Eignaskiptingin á milli virkra og takmarkaðra eigenda er oftast á bilinu 5/95 eða 10/90 þar sem virku eigendurnir eru minnihlutaeigendur, þessi hlutföll geta þó vissulega verið með öllu móti. Virku eigendurnir eru sérfræðingarnir sem stýra fjárfestingunum og fá þeir gjarnan 20% af hagnaði (e. Carry fee / Outperformance fee) sem ræðst þá af árangri þeirra ásamt því að fá 2% af framlögðu fjármagni sem rekstrarkostnað (e. Managment fee). Vandamálið á Íslandi virðist vera að hér vantar að koma þekkingu, árangri og tengslaneti saman í sjóð að mati nokkurra viðmælenda. Til þess að svona sjóðir gangi síðan þurfa þeir að vera af ákveðinni stærðargræðu eins og einn viðmælandi benti á:

Sjóðirnir munu einnig þurfa að vera að þeirri stærðargráðu að “2 & 20″ VC módelið gæti gengið upp. Þ.e.a.s. þessi 2% af stærð sjóðsins þarf að geta greitt fyrir allan rekstur, sbr. launakostnað, ráðgjöf, ferðalög, ráðstefnur, lögfræðikostnað, o.s.frv. Þess vegna þurfa sjóðirnir að vera stærri en 5 milljarðar. Það er mikilvægt að stjórnendur sjóðanna séu faglegir aðilar og að pólítík sé ekki að þvælast fyrir (Guðjón Már Guðjónsson, viðtal 7. mars 2013) .

 

Nýsköpun í sjóðamyndun á Íslandi

Viðmælendur sem hafa staðið í rekstri á þessu sviði töluðu margir um að það væri gjá á milli fjármagns og hugbúnaðar- og sprotageirans á Íslandi þegar kæmi að þekkingu og skilning á rekstrinum. Þá töluðu nokkrir viðmælendur um að það vantaði aðila sem hafa langa reynslu og hafa getað sýnt fram á ítrekaðan árangur t.d. með því að stofna og loka sjóð með hagnaði og endurtaka svo leikinn. Ólafur Sigurðsson framkvæmdarstjóri Stafa og formaður eigna- og áhættustýringarnefndar Landssambands Lífeyrissjóða orðaði þetta á þá leið (viðtal 15. apríl 2014) að rekstrarsaga nýsköpunarsjóða á Íslandi sé stopul. Sé farið aftur rúmlega 20 ár þegar fyrstu slíku sjóðirnir komu fram og fóru að fárfesta í verkefnum eins og laxeldi og minnkarækt og sagan síðan rakið alveg til dagsins í dag kemur í ljós að í fyrsta lagi er sagan stutt og í öðru lagi eru ekki margir aðilar sem hafa rekið marga sjóði með góðum árangri. Tæknibyltingin svokallaða í kringum síðustu aldamót skilaði nokkrum slíkum sjóðum en sjóðirnir skiluðu ekki mörgum hátæknifyrirtækjum sem entust (Ólafur Sigurðsson, viðtal 15. apríl 2014). Sé hinsvegar litið til Bandaríkjanna sem hefur án vafa þróaðasta umhverfi framtaksfjármögnunar í heiminum þá hafa framtakssjóðir þar þróast í sér geira með mikla sérþekkingu og er til fjöldin allur af aðilum sem hafa stofnað og rekið marga farsæla sjóði í röð. Ólafur benti á að vöntun væri á þessu á Íslandi: „Hringrás áhættufjármagns hefur aldrei skilað sér almennilega á Íslandi, fjárfestingarnar hafa ekki verið sjálfbærar“ (Ólafur Sigurðsson, viðtal 15. apríl 2014). Ólafur útskýrði að með þessu ætti hann við að fjármagn er sett inn í óskráð vaxtarfyrirtæki en nær síðan ekki að klára hringinn þ.e.a.s. að fyrirtækin vaxi og skili arði á fjárfestinguna sem er þá tekin út og sett inn í nýjar fjárfestingar í sama geira t.d. með því að loka framtakssjóði með hagnaði og opna nýjan öflugari sjóð fyrir hagnaðinn. Það eru nokkrar kenningar uppi meðal viðmælenda um hvers vegna ekki hefði náðst stöðugra og skilvirkara fjármagnsumhverfi á Íslandi þegar kemur að áhættufjármögnun. Helstu skýringar viðmælenda voru tvær: annars vegar vantar réttu aðilana til að ráðast í verkefnin þ.e.a.s. aðila með sérþekkingu og reynslu í þessum geira og með margar farsælar fjármagnsstýringar undir beltinu t.d. með því að hafa opnað og lokað nokkrum sjóðum í röð með hagnaði og hinsvegar hafa ekki verið kynnt og notuð réttu tólin til fjármögnunnar áhættufyrirtækja á Íslandi. „Það skortir nýsköpun í sjóðamyndun á Íslandi“ (Ólafur Sigurðsson, viðtal 15. apríl 2014).

Aðkoma lífeyrissjóða

Nokkrir viðmælendur töldu að á Íslandi vantaði einfaldlega að fjármagnseigendur í landinu vildu hafa aðkomu að hugbúnaðar- og sprotageiranum. Fyrirtæki í áhættusömum rekstri eins og sprota- og hugbúnaðargeiranum eiga lítið með að vera að sækja sér bankalán, til þess er reksturinn alltof áhættusamur og það er of mikil óvissa um sjóðsflæði ásamt því að lítil sem engin veð eru til lengri tíma í rekstrinum. Það er ekki að ástæðulausu að langalgengasta leiðin til að fjármagna slík félög er í gegnum hlutafjáröflun. Á Íslandi gnæfir einn hópur fjárfesta yfir alla aðra, bæði hvað varðar stærð og umfang fjárfestinga og eru þetta lífeyrissjóðirnir. Með rúmlega eina og hálfa landsframleiðslu í eignasöfnum sínum og rúmlega þriðjungs hlutdeild í skráðum hlutafélögum á Íslandi eru þetta aðilarnir sem geta haft úrslitaáhrif á aðgengi að fjármögnun. Margir viðmælendur kvörtuðu undan því að lífeyrissjóðirnir hafa hingað til haft takmarkaða aðkomu að áhættufjárfestingum í óskráðum bréfum innanlands. Umræða hefur skapast hvort lífeyrissjóðirnir hafi nægar heimildir til slíkra fjárfestinga. Formaður Landssamtaka lífeyrissjóða, Gunnar Baldvinsson, og Ólafur Sigurðsson, formaður eigna- og áhættustýringarnefndar Landssamtaka lífeyrissjóða telja þó báðir að slíkar heimildir séu til staðar en þó með ákveðnum takmörkunum (Gunnar Baldvinsson, samtal 11. apríl 2014 & Ólafur Sigurðsson, viðtal 15. apríl 2014).

Endurfjárfestingarþörf lífeyrissjóðana á næsta ári er almennt talin vera í kringum 100-130 milljarðar. Eins og fram kemur í kaflanum Takmörkuð aðkoma stærstu fjármagnseigenda landsins þá er lífeyrissjóðunum þrátt fyrir ákveðnar takmarkanir heimilt að fjárfesta í nýsköpun, framtakssjóðum og áhætturekstri og er töluvert rými til staðar til slíkra fjárfestinga. Flestir viðmælendur sem inn á það komu töldu að það væri óábyrg stefna ef lífeyrissjóðir færu að fjárfesta beint í fyrirtækjum, til þess skorti þá sérþekkingu og myndu einnig auka áhættu eignasafna töluvert ásamt því að í ljósi þess að lífeyrissjóðir eru í raun almannaeign myndi framangreint fyrirkomulag vissulega bjóða upp á freistnivanda sem samrýmist illa hlutverki sjóðanna. Hér má t.d. sjá fyrir sér að sjóðir í litlum bæjarfélögum færu að fjárfesta í einstökum fyrirtækjum sem væru handvalin af fámennri stjórn og gæti aðkoma þeirra skekkt staðbundin samkeppnismarkað. Eðlilegra væri að lífeyrissjóðirnir myndu halda áfram á svipaðri braut og þeir hafa fetað í áhættufjárfestingu með þátttöku sinni í framtakssjóðnum Frumtaki. Ólafur Sigurðsson (viðtal, 15. apríl 2014) sagði að mikilvægt væri að skilgreina ávöxtun og áhættu, horfa til stærðar, líftíma og sjóðsstreymis. Vegna stopulrar rekstrarsögu slíkra sjóða hér á landi getur verið erfitt að framkvæma þær mælingar sem væru æskilegar en Gunnar Baldvinsson, formaður Landssamtaka lífeyrissjóða, hefur skoðað forsendur þess að lífeyrissjóðir fjárfesti í auknum mæli í nýsköpun og hefur Gunnar m.a. bent (2013) á umfangsmikla bandaríska rannsókn sem kom út árið 2002 því til stuðnings að mögulega ættu lífeyrissjóðir að líta meira til fjárfestinga í nýsköpun og þar með talið sprota- og hugbúnaðarfyrirtækjum. Rannsóknin sem um ræðir kallast Venture Capital and its role in Strategic Asset Allocation og var hún birt í Journal og Portfolio Management árið (Cheng, Baierl og Kaplan, 2002). Gögnin í þessari umfangsmiklu rannsókn spanna hartnær 40 ár á tímabilinu 1960-1999. Rannsakendur söfnuðu gögnum um 900 framtakssjóði (e. Venture funds) þ.a. 148 sjóði sem höfðu lokið starfsemi eða selt eignir og er fyrst og fremst stuðst við gögn frá þeim sjóðum. Meðaltími fjárfestinga var um 14 ár þar sem sá lengsti var 39 ár og sá stysti 7 ár. Miðgildi innri ávöxtunnar (e. Internal Rate of Return) var 8,5%, meðaltal 10% þar sem hæsta gildi var 74% og lægsta gildi neikvætt um 72%. Framangreindar niðurstöður rannsóknarinnar voru sambærilegar fyrri rannsóknum á þessu sviði. Meðaltal ávöxtunnar var hæst hjá þeim sem fjárfesta í nýsköpun eða sprotum (e. Venture) en Gunnar tók saman skýringarmynd (Mynd 5) upp úr niðurstöðum rannsóknarinnar sem hann kynnti í fyrirlestri sem hann hélt á vegum Landssamtaka lífeyrissjóða í lok árs 2013 sem bar yfirskriftina Eru fjárfestingar í nýsköpun heppilegar fyrir lífeyrissjóði sem sýnir skiptingu meðaltalsávöxtunnar eftir fjárfestaflokkum samkvæmt rannsókninni.

Mynd 5. Meðaltal ávöxtunnar nýsköpunarsjóða. – höfundur: Gunnar Baldvinsson

Mynd 5

Eins og sést á myndinni er meðaltalsávöxtun (e. annual arithmetic average return) nýsköpunarfjárfestinga 45% sem er tölvuert fyrir ofan aðra fjárfestingarflokka. Gunnar tók saman aðra mynd upp úr rannsókninni sem sýnir sögulega meðalávöxtun nýsköpunarsjóða/framtakssjóða (e. Venture funds) en eins og sést á myndinni (mynd 6) er hún svipuð og á meðal skráðra hlutabréfa.

Mynd 6. Söguleg meðalávöxtun nýsköpunarsjóða – höfundur: Gunnar Baldvinsson

Mynd 6

Sveiflur í ávöxtun nýsköpunarsjóða voru mun meiri en í öðrum eignaflokkum sem skýrir muninn á meðaltali og meðalávöxtun en staðalfrávik þeirra var 115,6 á móti 21,6 í alþjóðlegum hlutabréfum og 15,65 í S&P500 (Cheng, Baierl og Kaplan, 2002). Samkvæmt rannsókninni er fylgni (e. Correlation coefficient) við skráð hlutabréf lítil eins og sjá má á mynd 7 eða aðeins 0,04%.

Mynd 7. Fylgni við S&P 500 – höfundur Gunnar Baldvinsson

Mynd 7

Ein af áhugaverðari niðurstöðum rannsóknarinnar eru að fjárfestingar í nýsköpunarsjóðum upp á 2-9% af eignasöfnum eiga að geta hækkað ávöxtun án þess að auka markaðsáhættu. Mynd 8 sýnir niðurstöðu framlínugreiningar með mismunandi hlutfallaskiptingu eignasafna.

Mynd 8. Hámarsávöxtun m.v. áhættu, fjárfestingar í framtakssjóðum – heimild (Cheng, Baierl og Kaplan, 2002)

Mynd 8

Gunnar lauk áhugaverði samantekt sinni á því hvort fjárfestingar í nýsköpun væru heppilegar fyrir lífeyrissjóði með því að benda á að vægi innlendra hlutabréfa væri nú nálægt 10% af eignasöfnum lífeyrissjóðanna og að kostnaður hefði töluverð áhrif sérstaklega ef litið er til áskriftarsjóða. Máli sínu til stuðnings birti Gunnar skýringarmynd (mynd 9) sem sýnir hvernig kostnaður hefur étið upp stóran hluta af hækkunum síðustu ára. Að lokum benti Gunnar á að erfitt væri að áhættudreifingu á Íslandi vegna fárra fyrirtækja og væri mótaðilaáhættan tiltölulega há.

Mynd 9. Kostnaður hefur áhrif – árleg hækkun eigna lífeyrissjóðanna. – höfundur: Gunnar Baldvinsson

Mynd 9

Í ljósi stærðar sinnar þurfa lífeyrissjóðirnir að fara að huga að því hvort og þá hvernig þeir geta stuðlað að auknum hagvexti í framtíðinni og þar með aukið ávöxtun sína og jafnvel seljanleika eignasafna sinna í framtíðinni. McKinsey skýrslan benti á að Ísland verði að fara að skara fram úr í að búa til ný fyrirtæki og ef miðað væri við framtaksfjárfestingar í Bandaríkjunum þyrfti að fjárfesta í kringum þrjá milljarða á ári í slíkum fjárfestingum á Íslandi: “Iceland needs to excel at creating new companies. Taking venture capital investment levels in the US as a benchmark, Iceland would need to invest around 3 Billion ISK annually (McKinsey, 2012)”. Ljóst er að þrír milljarðar eru afskaplega lítill hluti af eignasafni lífeyrissjóðanna eða rétt rúmlega 0,1% og á milli 2-3% af endurfjárfestingarþörf lífeyrissjóðanna en 2% er eimitt lægri mörkin í framtaksfjárfestingum í niðurstöðum rannsóknarinnar hér að framan sem talin voru geta skilað aukinni ávöxtun án aukinnar áhættu.

Rannsakandi leggur að lokum til að heimildir lífeyrissjóða til fjárfestinga verði auknar og er helsta hindrunin í þessu samhengi þær hlutfallstakmarkanir sem lífeyrissjóðunum eru settar. Fyrst af öllu má nefna þá takmörkun að lífeyrissjóðir megi aðeins eiga 15% í nýsköpunarsjóðum. Þetta þýðir að ef það á að setja saman nýjan sjóð á Íslandi og fá lífeyrissjóði til að leggja til fjármagnið þá þarf að ná 7 lífeyrissjóðum saman með hámarksþáttöku hver. Þetta getur verið gífurleg takmörkun þegar kemur að því að setja saman nýja sjóði og er lagt til að þessi heimild verði rýmkuð og önnur hlutföll sem kynnt voru í kaflanum Aðkoma lífeyrissjóð verði endurskoðuð.

Afkoma og samsetning evrópskra framtakssjóða

Myndin er nokkuð ólík ef skoðuð er afkoma evrópskra nýsköpunarsjóða/framtakssjóða miðað við bandarískja en afkoma þeirra hefur ekki verið eins góð. European Private Equity and Venture Capital Association (EVCA) sem gæti útlagst sem Bandalag evrópskra fjárfestasjóða með óskráð hlutabréf eru samtök sem samanstanda af yfir 650 evrópskum þátttakendum. EVCA hefur ásamt Thomson Reuters tekið saman greinargóðar upplýsingar um samsetningu og árangur evrópska fjárfestingarsjóða með óskráð hlutabréf. Í mjög umfangsmikilli mælingu á tímabilinu 1980-2012 voru niðurstöðurnar þær að þeir sjóðir sem standa sig best eru sjóðir á stærðarbilinu 250-500 milljón evrur en þar var afkoma (Internal Rate of Return) 19,91% að meðaltali. Þegar kemur að framtakssjóðunum eða „venture funds“ þá eru það minni sjóðstærðir sem standa sig best eða í kringum 50 milljón evrur. Athygli vekur að framtakssjóðir hafa í Evrópu staðið sig verr en aðrir sjóðir með óskráð hlutabréf (e. Private equity). Samanburður á árangri bandarískra  og evrópskra framtakssjóða er nokkuð afgerandi. Evrópskir framtakssjóðir eru með fremur veikan árangur, en sé litið til yfirtakna (e. Buyouts) þá er afkoma þeirra 2,48% á tímabilinu 1980-2012 en sé litið til bandarískra sjóða er afkoman 7,42%. Í framtakssjóðunum sjálfum er afkoma evrópsku sjóðanna         -1,13% en bandarísku sjóðanna 3,61%, bilið á milli afkomu bandarískra og evrópskra sjóða er því töluvert. Framangreindar tölur eru ekki mjög aðlaðandi þegar kemur að því að meta afkomu fjárfestinga almennt, en eins og bent er á í skýrslunni komu framtakssjóðir illa út úr svokölluðum tæknibólum á tímabilinu sem er mælt þ.e.a.s. 1980-2012 og toga mislukkaðir sjóðir útkomuna hressilega niður. Sé t.d. litið til afkomu (IRR) framtakssjóða í efsta fjórðungi yfir sama tímabil var hún 18,49% (EVCA & Reuters, 2013). Ýmsar tilgátur hafa verið settar fram um það hvers vegna bandarískir framtakssjóðir standa sig almennt mun betur en evrópskir. Sú tilgáta sem kemur hvað oftast upp snýr að því að bandarískir framtakssjóðir eru betur fjármagnaðir og fjármagna fyrirtæki sín betur en evrópskir sjóðir. Evrópsk nýsköpunarfyrirtæki afla lægri fjármögnunnar að meðaltali en nýsköpunarfyrirtæki í Sílíkondal séu öll stig fjármögnunnar tekin með. Þetta getur skipt miklu máli eins og Axel Brabers yfirmaður viðskiptasviðs hjá Evrópska framtakssjóðnum GIMV benti á þegar hann sagði að til þess að ná mjög háaum upphæðum fyrir sölu að þá tæki það jafnframt iðulega hárra fjárfestinga og að það væri beint samband þarna á milli (Brabers 2012). Fulltrúar annarra evrópskra framtakssjóða hafa bent á að ein helsta ástæða þess að mun hærra verð fæst fyrir t.d. bandarísk og ísraelsk fyrirtæki heldur en evrópsk sé að evrópsk fyrirtæki nái ekki nægilegri fjármögnun eins og þau bandarísku og ísraelsku gera (Pelly og fl. 2012). Samkvæmt mælingum Startup Ecosystem Report (2012) skýrslunni eru Sílikondalur í Bandaríkjunum og Tel Aviv í Ísrael langöflugust nýsköpunarhagkerfin í heiminum. Í skýrslunni kemur fram að það sé ekkert fjármögnunarskarð (e. Funding gap) í þessum hagkerfum og það sé ein stærsta ástæða þess að þau njóti öflugs forskots gagnvart öðrum nýsköpunarhagkerfum víða um heim. Í Sílikondal sem dæmi eru fyrirtæki að meðaltali yfir öll stig fjármögnunar að afla 32% meira fjármagns en fyrirtæki annarstaðar. Það skiptir ekki máli við hvern er talað, hvort það séu sjóðstjórar í Evrópu, engla fjárfestar í Bandaríkjunum eða rekstraraðilar á Íslandi, langflestir segja að fullnægjandi aðgangur að fjármögnun sé lykilþáttur í að búa til öflugt og samkeppnishæft framtakshagkerfi.

Í skýrslunni 2012 Pan-European Private Equity and Venture Capital Activity sem tekin var saman af EVCA (2012) er samantekt á samsetningu evrópskra sjóða með óskráð bréf. Í skýrslunni kemur m.a. fram að lífeyrissjóðir lögðu til 20% af fjármögnun slíkra sjóða árið 2012 en hlutfallið er þó töluvert lægra ef einungis er litið til þátttöku lífeyrissjóða í framtakssjóðum (e. Venture funds) en þar var það 5,3% sem er þó mun hærra hlutfall en íslenskir sjóður leggja til. Mynd 4 sýnir hlutfallsskiptingu fjármögnunaraðila á evrópskum sjóðum með óskráð bréf árið 2012.

Mynd 10: hlutfall á fjármögnun evrópskra  sjóða með óskráð bréf 2012 – heimild: EVCAMynd 10

 

BIRD og Yozma verkefnin

Ef Ísland ætti að leita til einhvers ríkis að fyrirmyndum þegar kemur að fjármögnun sprotafyrirtækja þá er Ísrael svo sannarlega áhugaverður kandídat. Ísrael er með hæsta hlutfall af nýsköpunar og sprotafyrirtækjum (e. startups) í heiminum m.v. höfðatölu eða eitt fyrirtæki fyrir hverja 1844 Ísraela ásamt því að eiga sex fleiri fyrirtæki á NASDAQ hlutabréfamarkaðinum heldur en öll Evrópa samanlagt og næst flest fyrirtæki þar í heiminum á eftir Bandaríkjunum (Senor & Singer, 2009). Ísraelsk sprotafyrirtæki mælast reglulega sem best fjármögnuðu sprotafyrirtæki í veröldinni og Tel Aviv skorar t.a.m. hæst ásamt Sílíkondal samkvæmt Startup Ecosystem skýrsunni (2012) fyrir nýsköpunarhagkerfi þegar kemur að fjármögnun. Sem dæmi um framangreint er hægt að benda á að árið 2008 voru framtaksfjárfestingar (e. venture capital investments) m.v. höfðatölu í Ísrael 2,5 sinnum hærri en í Bandaríkjunum og meira en 30 sinnum hærri en í Evrópu. Það sama ár var nær 2 milljörðum bandaríkjadala fjárfest í sprotafyrirtækjum í Ísrael sem hefur aðeins 7,1 milljón íbúa en það er sambærileg upphæð og fjárfest var í Bretlandi sama ár með sína 61 milljón íbúa eða í Þýskalandi og Frakklandi samanlagt (Senor & Singer, 2009).

Í lok níunda áratugs síðustu aldar gekk Ísrael í gegnum mjög svipuð vandamál og þau sem viðmælendur í þessari rannsókn lýstu á Íslandi í dag. Yigal Erlich er vísindamaður sem vann fyrir Ísraelska ríkið í lok níunda áratugarins lýsir ástandinu í nýsköpunar- og sprotaumhverfinu á þeim tíma þannig: „Á meðan Ísraelar voru mjög góðir í að þróa nýja tækni þá kunnu þeir ekki að stjórna fyrirtækjum eða markaðssetja vörur sínar erlendis. (Senor & Singer, 2009).Ísraelskir frumkvöðlar stóðu frammi fyrir vandamálum sem sneru að því hvernig væri hægt að aðlaga vörur sínar að stærri erlendum mörkuðum og hvernig ætti að markaðssetja og dreifa vörum utan heimalandsins ásamt því að fjármagn vantaði gjarnan á seinni stigum sprotafyrirtækja þ.e. þegar kom að markaðssetningu utan Ísraels, ekki ólíkt því sem margir viðmælendur töluðu um að væri ein helsta áskorun íslenskra sprotafyrirtækja þegar þau komast upp úr fyrstu skrefum rekstrar. Til þess að geta sinnt framangreindu vantaði í Ísrael betri aðgang að framtaksfjármögnun og erlendri sérfræðiþekkingu og tengslaneti. Á þessum tíma voru tvær megin uppsprettur fjármögnunnar fyrir sprotafyrirtæki. Önnur leiðin var sú að hægt var að sækja um styrk hjá Office of the Chief Scientist sem var þannig úthlutað að jafnað var annað framlag í fyrirtækið. Þessir styrkir voru hinsvegar takmarkaðir og tryggðu ekki nægt fjármagn til verkefna þeim afleiðingum að flest fyrirtæki sem fengu styrki mislukkuðust. Skýrsla sem ríkisstjórnin tók saman um árangur af þessum styrkjum staðfesti þetta en helsta niðurstaða skýrslunnar var að 60% af þeim fyrirtækjum sem fengju styrki næðu ekki framhaldsfjármögnun til að markaðssetja vörur sínar (Senor & Singer, 2009).

Hin leiðin til að sækja fjármagn á þessum tíma var í gegnum svokallaða BIRD styrki sem komið var á laggirnar eftir 110 milljón dollara fjárframlag frá ísraelska og bandaríska ríkinu. BIRD verkefnið varð milliliður á milli ísraelska frumkvöðla og bandarískra markaðs- og dreifingaraðila. Verkefnið virkaði þannig að þeir sem fengu styrki fengu á bilinu 500 þúsund til eina milljón dollara á tveggja til þriggja ára tímabili. BIRD tengiliðir unnu svo að því að opna tengingar inn í Bandaríkin við dreifingar- og markaðsaðila til þess að koma vörum fyrirtækjana á alþjóðlegan markað. Þá var það gulrót fyrir bandarísku aðilana að BIRD greiddi helming af þeirra kostnaði við verkefnið. BIRD verkefnið fékk síðan einskonar rétthafagreiðslur (e. royalties) tilbaka frá þeim verkefnum sem nutu velgengni. Árið 2009 hafði verið fjárfest í gegnum BIRD verkefnið fyrir yfir 250 milljón dollara í 780 verkefnum sem hafði leitt til 8 milljarða dollara í beinum og óbeinum sölum (Senor & Singer, 2009). Þrátt fyrir að framangreindur árangur sé mjög aðdáunarverður þá voru það hliðaráhrif verkefnisins sem líklega hafa skilað mestum ábata fyrir Ísrael. BIRD verkefnið kenndi ísraelskum fyrirtækjum hvernig á að stunda viðskipti á Bandaríkjamarkaði ásamt því að opna mikil og verðmæt tengsl inn á þennan stærsta og þróaðasta markað í heimi sem Ísraelar búa svo sannarlega að í dag. Mörg ísraelsk fyrirtæki nýttu t.a.m. BIRD verkefnið til þess að senda starfsfólk sitt til bandarískra samstarfsaðila til þjálfunnar og opnuðu jafnvel tímabundið skrifstofur hjá þeim. Árið 1992 voru 75% ísraelskra fyrirtækja sem voru skráð NASDAQ fyrirtæki sem höfðu hlotið stuðning í gegnum BIRD verkefnið.

BIRD verkefnið opnaði á tengsl og þekkingu en fjármögnunin var enn af skornum skammti, sérstaklega fyrir þá sem lengra voru komnir og þurftu hærri upphæðir en 500 þúsund til 1 milljón dollara. Aðstandendur BIRD verkefnisins voru sannfærðir um að það þyrfti að byggja upp alvöru framtaks fjárfestingarumhverfi í Ísrael og að eina lausnin væri að feta svipaða leið og í gegnum BIRD þegar kæmi að því að skipuleggja umhverfið, það þyrfti s.s. að vera sterk tengsl við erlenda fjármögnunaraðila þannig að ekki eingöngu ísraelskir frumkvöðlar myndu fá erlend tengsl og þekkingu heldur einnig ísraelskir fjármögnunaraðilar. Lausnin var hugmynd sem fæddist í fjármálaráðuneyti Ísrael og var nefnd Yozma sem er hebreska og þýðir frumkvæði. Hugmyndin var sú að ísraelska ríkið myndi fjárfesta 100 milljón dollurum til að koma á laggirnar tíu framtakssjóðum (e. venture funds). Til þess að uppfylla kröfur ríkisins varð hver sjóður að hafa fulltrúa frá þremur sviðum: ísraelskum framtaksfjárfestum í þjálfun, erlendum framtakssjóði og ísraelsku fjárfestingarfélagi eða banka. Til að byrja með bauð ísraelska ríkið 1,5 á móti 1 í mótframlag þannig að ef ísraelsku samstarfsaðilarnir gátu útvegað 12 milljón dollara í fjárfestingar þá myndi ríkið leggja fram 8 milljónir á móti. Þetta var síðan hækkað í  2 á móti 1 eða 16 milljónir á móti 8 frá ríkisstjórninni sem dæmi. Aðal aðdráttaraflið fyrir erlenda framtaksfjárfesta var hinsvegar möguleg afkoma en ríkið tók 40% eignahlut í sjóðunum en bauð síðan hluthöfum að kaupa ríkið út ódýrt ásamt því að bjóða árlega vexti eftir fimm ár ef sjóðurinn skilaði hagnaði (Senor & Singer, 2009). Þetta voru mjög góð kjör út frá fjárfestingarsjónarhóli. Margir telja að þetta hafi verið lykillinn að árangri Yozma verkefnisins þ.e.a.s. að það voru innbyggðir valkostir að komast auðveldlega inn og út.

Tíu Yozma sjóðum var komið á legg á árunum 1992 til 1997 og söfnuðu þeir yfir 200 milljón dollurum í fjárfestingar með aðstoð ríkisins. Sjóðirnir voru keyptir út eða einkavæddir innan fimm ára og árið 2009 stýrðu þeir yfir 3 milljörðum dollara í eignasöfnum sínum ásamt því að styðja við hundruði ísraelskra fyrirtækja. Yozma verkefnið er talið megin ástæða þess að Ísrael komst inn í framtaksfjárfestingarumhverfið í Bandaríkjunum og að hafa búið til þróaðan og öflugan framtaksfjárfestingargeira í Ísrael. Í dag eru a.m.k. 45 framtakssjóðir starfandi í Ísrael. Mörg ríki hafa horft til Yozma verkefnisins sem mögulegt módel til að koma fjármagni og erlendum tengingum í gang á sínum heimasvæðum og má hér sem dæmi nefna að árið 2008 settu Írar á laggirnar 500 milljón evra sjóð sem var byggður á Yozma módelinu (Senor & Singer, 2009). Takmarkið var og er að laða að erlendar fjárfestingar og erlend tengslanet ásamt því að laða að öflug sprotafyrirtæki inn í heimahagkerfið.

Það kom rannsakara á óvart hversu keimlík vandamálin sem Ísraelskt sprotaumhverfi stóð frammi fyrir í lok níunda áratugarins voru þeim vandamálum sem viðmælendur lýstu hér á Íslandi. Árangur af BIRD og Yozma verkefnunum er mjög aðdáunarverður og Ísrael mælist nær alltaf í öðru sæti á eftir Bandaríkjunum þegar kemur að aðgengi að framtaksfjármögnun. Viðmælendur kvörtuðu undan því að aðgengi að erlendri sérfræðiþekkingu væri takmörkuð hér, að aðgengi að framtaksfjármagni á ákveðnum stigum væri takmarkað og að hér skorti þekkingu og reynslu í framtaksfjárfestingar. Það liggur því beint við að skoða módel eins og Yozma módelið og til viðmiðunar er hægt að skoða árangur af nýrri útfærslu af Yozma módelinu sem sett var á laggirnar í Írlandi.

First North

First North er hliðarmarkaður fyrir hlutabréfaviðskipti sem hefur ekki verið mjög virkur undanfarin ár. Frosti Sigurjónsson, alþingismaður og englafjárfestir, hefur bent á að með því að opna á að lífeyrisjóðir geti auðveldlega fjárfest á First North og að First North myndi þá falla undir skráð bréf vegna þess að það eru það miklar kröfur á First North, þá sé hægt að gera fjármögnunarumhverfið á Íslandi meira aðlaðandi á margan hátt (viðtal 26. apríl 2014). Í dag er lítill hvati til að skrá sig á First North ef enginn lífeyrissjóður getur keypt þar hlutabréf. Það er flöggunarskylda og krafist meiri aga og gegnsæji í stjórnarháttum og meiri krafa er gerð til uppgjöra þeirra fyrirtækja sem skrá sig þar. Þetta er því kostnaðarsamt ferli og ekki ætti ekki að vera gert nema ávinningur sé fyrirsjáanlegur fyrir hluthafa. Væntanlegur ávinningur hluthafa við skráningu á First North væri þá að þetta væri leið til að finna meira vaxtafé og auka seljanleika fyrir hluthafa. Með því að opna greiðari leið fyrir stærstu fjárfesta landsins til að kaupa á First North myndu aukast líkur á að smá og meðalstór fyrirtæki myndu vilja nýta sér þennan möguleika. Á móti geta lífeyrissjóðir dreift áhættu sinni víðar. Í dag kaupa lífeyrisjóðir fá og stór félög þegar kemur að skráðum bréfum og óttast margir verðbóluhttu vegna þessa. Með framangreindum hætti væri hvati fyrir lítil og meðalstór félög til að vera á markaði og um leið myndi gegnsæji í rekstri þeirra aukast og að sama skapi geta lífeyrisjóðir haft fjölbreyttari aðgang að gagnsærri félögum sem fjárfestingarkosti.

 

[1] Þessi fjármögnun er stundum kölluð sprotafjármögnun (e. seed funding)