Rekstrarumhverfið á Íslandi í alþjóðlegum samanburði

Í kjölfar þess að niðurstöður viðtala höfðu verið greindar var farið í að bera þær saman við alþjóðlegar mælingar. Leitast var eftir því að kanna hvort að alþjóðlegar mælingar renndu stoðum undir eða hrökktu fullyrðingar viðmælenda um stöðu rekstrarumhverfisins á Íslandi. Niðurstöður alþjóðlegra mælinga voru í miklu samræmi við niðurstöður úr viðtölum. Þá var einnig kannað hvernig rekstrarumhverfi á Íslandi er metið almennt samkvæmt alþjóðlegum mælingum og hvort niðurstöður slíkra mælinga sýndu fram á einhverja þætti sem ekki hefði verið minnst á í viðtölunum. Tvær umfangsmiklar virtar alþjóðlegar mælingar sem eru framkvæmdar á hverju ári á vegum Alþjóðabankans og World Economic Forum voru lagðar til grundvallar í rannsókninni en einnig var litið til Nordic Growth Entrepreneurship Review 2012 sem Norræna ráðherranefndin gaf út.

Doing Business skýrsla Alþjóðabankans

Alþjóðabankinn (e. World Bank) sendir á hverju ári frá sér umfangsmikla skýrslu sem kallast Doing Business sem myndi útleggjast, að stunda viðskipti, þar sem leitast er eftir því að mæla hvernig ríki heimsins standa sig í að hlúa að viðskiptalífinu. Skýrslan sem kom út 2014 lagði áherslu á lítil og meðalstór fyrirtæki. Í skýrslunni kemur fram að tíu mælikvarðar eru lagðir til grundvallar á því hversu gott það er að stunda rekstur í hverju ríki fyrir sig, þessir mælikvarðar eru:

 • Að hefja rekstur
 • Að fá byggingarleyfi
 • Aðgangur að rafmagni
 • Skráning eigna
 • Aðgangur að fjármagni
 • Fjárfestavernd
 • Skattkerfið
 • Alþjóðaviðskipta
 •  Geta til að framfylgja samningum
 •  Gjaldþrotameðferðir

Ennfremur kemur fram í skýrslunni að þau hagkerfi sem skora hæst í skýrslunni séu ekki þau hagkerfi sem hafi minnsta regluverkið heldur þar sem ríkisstjórnum hefur tekist að búa til reglur sem hvetja til þátttöku í viðskiptalífinu án þess að hindra þróun einkageirans. Í því samhengi er litið til tveggja þátta: styrk löggjafans og þeirra stofnana sem ætlað er að framfylgja regluverki er snýr að viðskiptalífinu og síðan hversu flókið og kostnaðarsamt regluverkið er fyrir viðskiptalífið. Ísland var árið 2013 samkvæmt Alþjóðabankanum þrettánda besta ríkið til þess að stunda viðskipti í. Tafla 2 sýnir tuttugu efstu ríkin.

Tafla 2. Tuttugu bestu ríki til að stunda viðskipti skv. skýrslu Alþjóðabankans 2014.

 

 

Á listanum eru 189 ríki og það er alveg ljóst að 13. sæti er alls ekki slæmt sé allt úrtakið tekið með. Staða Íslands hefur haldist nokkuð stöðug síðustu ár þrátt fyrir ólgutíma. Árið 2006 var Ísland í 11. Sæti (World Bank, 2007) en árið 2010 féll Ísland um þrjú sæti niður í 14. Sæti (World Bank, 2010). Í skýrslunni 2014 kemur fram að styrkur Íslands liggi helst í því að hér er fljótlegt að fá tengingar og skráningar t.d. að fá rafmagn tengt til sín en þar trónir Ísland efst á lista. Í töflu þrjú má sjá nánar styrkleika og veikleika Íslands samkvæmt skýrslunni 2014.

Tafla 3. Helstu styrkleikar og veikleikar í rekstrarumhverfi Íslands skv. skýrslu Alþjóðabankans 2014.

 

Sé litið til þeirra þátta sérstaklega sem lagðir eru til grundvallar sem áhersluþættir í rannsókn þessari þá er mikill samhljómur með niðurstöðu Alþjóðabankans og þeirra viðmælanda sem rætt var við vegna rannsóknarinnar. Viðmælendur nefndu sérstaklega sem veikleika þætti sem sneru að því að hefja rekstur, fjárfestavernd, að borga skatta  og aðgang að fjármagni sem eru allt þættir sem eru veikleikar hjá Íslandi skv. skýrslunni þ.e.a.s. sem Ísland er í sæti 37 eða neðar í alþjóðlegum samanburði. Áhugavert er að skoða þessa þætti betur út frá niðurstöðum skýrslunnar.

Aðgangur að fjármagni (alþjóðleg staða 42. sæti)

Í þeim hluta skýrslunnar (2014) sem mælir aðgang að fjármagni eru lagaleg réttindi lánveitenda og lántakenda mæld og eru þá mælikvarðar lagðir til grundvallar eins og öryggi millifærslna og aðgangur að og dreifing á fjármálaupplýsingum (e. credit information). Kannað er hvernig regluverk er varðandi lánveitingar og eru þá lagðir mælikvarðar til grundvallar eins og reglur um veð og gjaldþrotalöggjöf. Mælikvarðinn sem snýr að aðgang og dreifingu á fjármagnsupplýsingum lítur til hversu aðgengilegar og áreiðanlegar slíkar upplýsingar eru, hvernig kerfi viðhalda þeim og er þá litið bæði til almennra kerfa (e. public credit registries) og einkakerfa (e. private credit bureaus). Alþjóðleg staða er síðan mæld út frá hlutfallsmeðaltali og er þá miðað við einkunnagjöf í aðgengi að fjármálaupplýsingum (e. depth of credit information index) og lagaleg réttindi (e. strength of legal rights index). Gögnum um lagaleg réttindi lánveitenda og lántaka er safnað í gegnum spurningalista sem fjármálalögfræðingar (e. financial lawyers) svara og eru þau svör síðan greind og borin saman við laga- og regluumhverfi hverju sinni ásamt opinberum upplýsingum um lög er varða t.a.m. veð og gjaldþrot. Spurningalistar eru staðfestir með eftirfylgni , staðfestingu þriðju aðila og samanburð við opinberar heimildir. Mælikvarðinn um lagaleg réttindi endurspeglar hversu vel lög er varða gjaldþrot og veð vernda réttindi lánveitenda og lántakenda og styðja þar með við heilbrigða lánveitingu. Gögnum um aðgengi að fjármálaupplýsingum er safnað í tveimur stigum. Fyrst er leitað til fjármála- og bankaeftirlitsstofnana og staðfest hvernig staðið er að söfnun, aðgengi og dreifingu fjármálaupplýsinga. Síðan er spurningalisti sendur til viðeigandi aðila. Spurningalistar eru staðfestir með eftirfylgni, staðfestingu þriðju aðila og samanburði við opinberar heimildir. Mælikvarðinn um aðgengi að fjármálaupplýsingum endurspeglar hvernig reglur og venjur hafa áhrif á umfang, söfnun og aðgengi að fjármálaupplýsingum hvort sem það er í gegnum almenn kerfi eða einkakerfi. Til grundvallar einkunninni eru lagðir eftirfarandi sex mælikvarðar:

 1. Aðgangur er að gögnum um bæði einstaklinga og fyrirtæki.
 2. Aðgangur er að bæði jákvæðum og neikvæðum fjármálaupplýsingum.
 3. Aðgengi er að gögnum frá smásölum (e. retailers), þjónustuaðilum (utility companies) og fjármálastofnunum (e. financial institutions).
 4. Aðgengi er að upplýsingum meira en tvö ár aftur í tíman.
 5. Aðgengi er að upplýsingum um lánveitingar sem jafngilda minna en 1% af meðalinnkomu.
 6. Í gegnum lagasetningu hafa lánveitendur réttindi til að sækja gögn í stærsta gagnagrunn sem rekinn er í landinu sem varðar framangreint.

Tafla 4 sýnir stöðu þeirra samanburðarríkja sem rannsókn þessi nær til.

Tafla 4. Aðgangur að fjármagni í samanburðarríkjum skv. skýrslu Alþjóðabankans 2014.

Ísland vermir botn listans hjá samanburðarríkjunum ásamt Svíþjóð. Ísland skorar lægst ásamt Kanada þegar kemur að lagalegum réttindum sem hlýtur að teljast áhyggjuefni. Ísland er síðan í neðri helmingnum þegar kemur að aðgengi að upplýsingum. Niðurstöðurnar eru í fullu samræmi við það sem fram kom í viðtölum vegna rannsóknarinnar, þ.e.a.s. að aðgengi að fjármagni á Íslandi sé takmarkað.

 

 

Að hefja rekstur (alþjóðleg staða 52. sæti)

Í skýrslu Alþjóðabankans (2014) kemur fram að teknar voru saman upplýsingar um allar aðgerðir sem opinberlega þarf til þess að hefja rekstur ásamt þeim tíma og kostnaði sem fer í að framkvæma þær aðgerðir. Þá er einnig tekið saman hvort og þá hver krafan sé af hálfu ríkisins um fjármagnsbindingu. Undir framangreindar aðgerðir falla t.a.m. leyfisveitingar, skýrslur sem þarf að fylla út og kröfur sem eru settar varðandi rekstur. Alþjóðleg staða er síðan mæld út frá hlutfallsmeðaltali í hverjum flokki fyrir sig.

Í skýrslu Alþjóðabankans kemur fram að á Íslandi tekur það að jafnaði 4,5 daga að stofna fyrirtæki og að til þess þurfi 5 aðgerðir (e. procedures). Fram kemur að kostnaður við stofnun fyrirtækis er að jafnaði 2,7% af meðal innkomu á íbúa. Þá kemur fram að lágmarks fjármagnsbinding (e. minimum capital) sé 10,5% af meðal innkomu á íbúa. Með fjármagnsbindingu er átt við fjármagn sem þarf að leggja fram eða sýna fram á að sé til staðar í tengslum við skráningu og/eða leyfisveitingu rekstrar. Þessar kostnaðartölur eru mjög háar í samanburði við þau ríki sem Ísland ber sig gjarnan við. Sé litið til Norðurlanda má benda á að í Danmörku er kostnaður við að stofna fyrirtæki 0,2% af meðal innkomu á íbúa, 0,5% í Svíþjóð og 1,1% í Finnlandi. Í Noregi er lágmarks hlutafésbinding 5,1% af meðal innkomu á íbúa og í mörgum Evrópuríkjum er enginn binding. Í töflu 5 er yfirlit yfir stöðu þeirra samanburðarríkja sem rannsókn þessi nær til.

Tafla 5. Staða samanburðarríkja þegar kemur að því að hefja rekstur skv. skýrslu Alþjóðabankans 2014.

 

Ísland  og Svíþjóð eru langt á eftir hinum fimm viðmiðunarríkjunum  í einkunnargjöf þegar kemur að því að hefja rekstur, en Ísland sem er í næst neðsta sæti er 17 sætum á eftir næsta ríki.  Bæði á Íslandi og í Svíþjóð vegur lang þyngst hversu hár kostnaður er við að hefja rekstur  og er  áhugavert að sjá að hjá öllum hinum viðmiðunarríkjunum er engin hlutafjárbinding. Ísland með næst hæstan kostnað við að hefja rekstur og næst hæstu hlutafjárbindinguna. Niðurstöðurnar eru í fullu samræmi við það sem fram kom í viðtölum vegna rannsóknarinnar. Hinsvegar ber að taka fram að að meðaltali í heiminum tekur það 7 aðgerðir og 25 daga að stofna fyrirtæki og kostar það 32% af meðal innkomu á íbúa (World Bank, 2014). Ísland er því ekki illa statt í heildarsamanburðinum en sé miðað við hefðbundin viðmiðunarríki sem eru þá helst Vestræn ríki kemur Ísland ekki eins vel út eins og að framan greinir.

Fjárfestavernd (alþjóðleg staða 52. sæti)

Skýrsla Alþjóðbankans (2014) mælir minnihlutavernd og getu minnihlutaeigenda til að verja sig gegn misnotkun stjórnar á eignum. Til grundvallar við að meta fjárfestavernd eru lagðir þrír mælikvarðar:

 1. Gegnsæi á gerningum tengdra aðila (e. extent of disclosure index)
 2. Ábyrgð stjórnenda (e. extent of director liability index)
 3. Geta hluthafa til að sækja rétt sinn (e. ease of shareholder suits index)

Við gerð skýrslunnar var gögnum varðandi framangreint safnað og unnið úr þeim á sambærilegan hátt og lýst er í aðgangur að fjármagni kaflanum hér að framan.

Mælikvarðinn um gegnsæi á gerningum byggir á fimm þáttum:

 1. Hvað það þurfi til að samþykkja gerninga. Hvort það þurfi aðeins samþykki framkvæmdarstjóra eða forstjóra eða hvort það þurfi samþykki fleiri eins og stjórnar eða hluthafa.
 2. Hvort það sé nauðsynlegt að opinbera tengda gerninga.
 3. Hvort nauðsynlegt sé að skýra frá tengdum gerningum í ársreikning.
 4. Hvort nauðsynlegt sé að skýra stjórn eða hluthöfum frá tengdum gerningum.
 5. Hvort það sé nauðsynlegt að þriðji aðili meti gerninga tengdra aðila áður en þeir eiga sér stað.

Mælikvarðinn um ábyrgð stjórnenda byggir á sjö þáttum:

 1. Hvort hluthafi geti dregið framkvæmdaraðila/stjórnanda til ábyrgðar.
 2. Hvort hluthafi geti dregið ábyrgðaraðila eins og stjórn eða forstjóra til ábyrgðar.
 3. Hvort réttur geti ógilt gerninga í kjölfar kröfu hluthafa.
 4. Hvort aðgerðaraðili þurfi að bæta skaðan sem hann veldur í kjölfar stefnu hluthafa sem er samþykkt.
 5. Hvort framkvæmdaraðili þurfi að endurgreiða hagnað vegna gernings sem hluthafi hefur stefnt og fengið dæmdan sér í vil.
 6. Hvort að bæði sektir og fangelsisvist geti legið við brotum stjórnenda.
 7. Hvort hluthafar geti sótt rétt sinn beint eða óbeint vegna skaða sem félagið þeirra er valdið.

Mælikvarðinn um getu hluthafa til að sækja rétt sinn byggir á sex þáttum:

 1. Hverskonar skjöl eru aðgengileg hluthöfum sem sækja rétt sinn fyrir dómstólum frá sakborningum og vitnum á meðan á réttarhöldum stendur.
 2. Hvort hluthafar sem sækja rétt sinn fái tækifæri til þess að ræða við sakborning og vitni á meðan á réttarhöldum stendur.
 3. Hvort hluthafar sem sækja rétt sinn geti fengið aðgengi að viðeigandi skjölum er snúa að málinu án þess að þurfa að biðja um hvert skjal sérstaklega.
 4. Hvort hluthafar sem eiga 10% eða minna í félagi hafi rétt til þess að fara fram á að ríkisvaldið skoði gerninga án þess að þurfa að sækja mál fyrir dómstólum.
 5. Hvort hluthafar sem eiga 10% eða minna í félagi hafi rétt til þess að skoða skjöl er varða gerninga án þess að til lögsóknar komi.
 6. Hvort sönnunarbyrði fyrir einkamál sé lægri en fyrir opinberar ákærur.

Mælikvarði á styrk fjárfestaverndar (e. strength of investor protection index) er meðaltalið af þremur framangreindum mælikvörðum þ.e. gegnsæi á gerningum tengdra aðila, ábyrgð stjórnenda og geta hluthafa til að sækja rétt sinn.

Í skýrslunni kemur fram eftirfarandi varðandi Ísland: Gegnsæi er metin 7/10. Ábyrgð forstjóra er metin 5/10. Hluthafavernd er metin 6/10. Styrkur fjárfestaverndar er metin 6/10. Í stuttu máli er Ísland að standa sig illa að þessu leyti í samanburði við þau ríki sem Ísland ber sig gjarnan við. Í töflu 6 er að finna yfirlit yfir stöðu þeirra samanburðarríkja sem rannsókn þessi nær til.

Tafla 6. Staða samanburðarríkja þegar kemur að fjárfestavernd skv. skýrslu Alþjóðabankans 2014.

 

Ísland rekur lestina í fjárfestavernd og er 18 sætum á eftir Svíþjóð sem er 24 sætum á eftir næsta samanburðarríki. Ísland skorar áberandi lágt í ábyrgð forstjóra, hluthafavernd og styrk fjárfestaverndar. Niðurstöðurnar eru í fullu samræmi við það sem fram kom í viðtölum vegna rannsóknarinnar þó að viðmælendur hafi ekki lagt mikla áherslu á framangreinda þætti.

 

Að borga skatta (alþjóðleg staða 37. sæti)

Skýrsla Alþjóðbankans (2014) leitast við að mæla skattaumhverfi lítilla til meðalstórra fyrirtækja á milli ríkja og hversu mikið slík fyrirtæki þurfa að borga á hverju ári og hversu mikil byrði skattkerfið er á rekstur fyrirtækja. Mældir skattar og gjöld eru eftirfarandi: fyrirtækjaskattur, lífeyrissjóðsgjöld og önnur gjöld, eignaskatta, atvinnurekstrargjöld, arðgreiðsluskatta, fjármagnstekjuskatt, eignatilfærsluskatta, sorphirðuskatta, vegaskatta, ökutækjaskatta og fjármagnstilfærsluskatta. Til einföldunnar má benda á að mæld eru öll gjöld sem skylt er að greiða og snúa að hefðbundnum rekstri. Þetta er umfangsmeiri mæling en flest ríki stunda sem mæla skattbyrði vegna þess að þessi mæling tekur tillit til allra raungjalda sem fyrirtæki þurfa að standa skil á vegna löggjafar ríkisvaldsins. Dæmi um þetta er að þegar flest ríki kynna skattbyrði á fyrirtæki þá er ekki tekin með launatengd gjöld sem þarf að greiða vegna starfsmanna t.a.m. lífeyrisskuldbindingar, skýrsla Alþjóðabankans tekur þessi gjöld með vegna þess að það endurspeglar betur raunbyrði á rekstur fyrirtækisins af hálfu löggjafans. Hér verður þó einnig að benda á að flestar tegundir af virðisaukaskatt eru ekki teknar með nema hann sé ekki endurheimtanlegur. Ástæðan fyrir þessu er að virðisaukaskattlagning hefur ekki áhrif á bókhaldshagnað (e. accounting profits) þ.e. þeir eru ekki endurspeglaðir í rekstrarreikning. Virðisaukaskattlagning er samt tekin með í útreikning á tíma og aðgerðum er snúa að skattlagningu enda auka þeir á lagalegu byrðina við að mæta kröfum skattkerfisins. Einkunnagjöf tekur hlutfallslegt meðaltal af þeim mælikvörðum sem eru lagðir til grundvallar sem eru:

 1. Tími sem fer í að mæta kröfum skattkerfisins mælt í klukkustundum á ári.
 2. Fjöldi aðgerða við að mæta kröfum skattkerfisins
 3. Skattahlutfall af hagnaði
 4. Tíminn sem fer í að mæta kröfum skattkerfisins er mældur þannig að tekið er mið af því hvað það tekur langan tíma að sinna eftirfarandi skyldum:
 5. Safna upplýsingum um og reikna út hvað þarf að greiða í skatt.
 6. Fylla út skattskýrslur og önnur gögn sem krafist er vegna greiðslu opinberra gjalda.
 7. Að greiða skattana.
 8. Gera sérstakt skattbókhald sé þess krafist.

Skattahlutfallið af hagnaði er reiknað þannig að mælt er hver heildarskattbyrðin og hver skyld opinber gjöld vegna reksturs er á öðru ári reksturs og er það þá mælt sem hlutfall af rekstrarhagnaði eða nettó hagnaði fyrir skatta. Heimilaður frádráttur og undanþágur eru reiknaðar inn í hlutfallið. Skattinum sem er hluti af heildarhlutfallinu er hægt að skipta í fimm flokka:

 1. Hagnaður / fyrirtækjaskattur (e. corporate income tax)
 2. Launatengd gjöld og annar kostnaður vegna starfsmannahalds (e. social contributions and labor taxes)
 3. Eignaskattar (e. property taxes)
 4. Veltuskattar (e. turnover taxes)
 5. Aðrir skattar, t.a.m. útsvar og fylkjaskattar.

Heildarskatthlutfallið af hagnaði er reiknað út með það í huga að mæla hver sé heildarskattbyrðin sem reksturinn þarf að bera. Þröskuldur er lagður á þriðja mælikvarðann, skattahlutfallið. Þröskuldurinn er hæsta skatthlutfallið í topp 15% hagkerfa í skattskori. Þröskuldurinn vegna 2014 skýrslunnar er 25,5% sem þýðir að öll ríki sem hafa 25,5% eða lægra skatthlutfall af hagnaði fá sama skorið. Þetta er gert til þess að reyna að hreinsa út skekkjur sem kunna að myndast vegna ríkja sem þurfa ekki að sækja skatttekjur af fyrirtækjum vegna þess að þau afla megintekna sinna á annan hátt t.d. með skattlagningu á erlend fyrirtæki eða ákveðna geira eða vegna tekna af auðlindum eins og olíusölu.

Fram kemur í skýrslunni að meðal fjöldi skattgreiðslna á ári fyrir fyrirtæki á Íslandi eru 26. Sá tími sem fer í að borga skatta á Íslandi eru 140 klst. á ári og heildar meðal skatthlutfallið er 29,9% af hagnaði. Séu þessi gildi borin saman við þau ríki sem Ísland ber sig gjarnan saman við kemur í ljós að skattkerfið hér virðist útheimta mikinn tíma og vinnu en vera með fremur lága skattprósentu. Í Danmörku eru meðal greiðslurnar tíu talsins og skatthlutfallið 27% af hagnaði. Í Noregi eru greiðslurnar ekki nema fjórar talsins en skatthlutfallið er hærra eða 40,7%. Í Svíþjóð eru greiðslurnar fjórar en skatthlutfallið 52%. Í töflu 8 er yfirlit yfir stöðu þeirra samanburðarríkja sem rannsókn þessi nær til þegar kemur að því að borga skatta en skatthlutföll af hagnaði í nokkrum öðrum vestrænum ríkjum má sjá í töflu 7 (World Bank, 2014).

Tafla 7. Skattahlutfall af hagnaði í nokkrum vestrænum ríkjum skv. skýrslu alþjóðabankans 2014.

 

Tafla 8. Staða samanburðarríkja þegar kemur að því að borga skatta skv. skýrslu Alþjóðabankans 2014.

Ísland er á miðjum lista varðandi skattaumhverfið og eru niðurstöðurnar í takt við það sem fram kom hjá nokkrum viðmælendum vegna rannsóknarinnar þ.e.a.s. að Ísland er með lágt skattahlutfall en hinsvegar er skattkerfið ekki nógu þægilegt en Ísland og Ísrael bera algjörlega af í fjölda greiðslna og er Ísland með rúmlega tvöfalt fleiri greiðslur en ríkið sem kemur næst. Þó ber að taka fram að nokkrir viðmælendur telja að skattaumhverfið á Íslandi sé fremur einfalt samanborið við önnur ríki. Í skýrslunni er sérstaklega talið Íslandi til tekna að skattkerfið var einfaldað árið 2013 og skattahlutfallið lækkað en Ísland færist upp um listann á milli ára í þessum flokk úr 41. sæti í 37. sæti og skýrist sú breyting af því að greiðslum fækkaði og skatthlutfall lækkaði á milli ára.

Fleiri mælikvarðar – World Economic Forum

Fleiri alþjóðlegar mælingar hafa verið gerðar á rekstrarumhverfi og samkeppnishæfni Íslands í alþjóðlegu samhengi. Ein stærsta og mest tilvitnaða skýrslan sem mælir framangreinda þætti er World Economic Forum Global Competitiveness Report sem myndi útleggjast sem Alþjóðlega samkeppnisskýrsla Alþjóðlegu hagfræðistofnunarinnar (WEF) en hún er gefin út hvert ár. Skýrslan mælir samkeppnishæfni ríkja með því að meta stofnanir, löggjöf og aðra þætti sem hafa áhrif á samkeppnishæfni og núverandi hagsæld og getu til að skapa hagsæld til meðal langs tíma. Niðurstöður skýrslunar sem er nær 600 blaðsíður á lengd fyrir 2013-2014 er fengnar þannig að safnað er gögnum frá fjölda alþjóðastofnana víðsvegar um heiminn ásamt því að WEF leggur fyrir könnun á hverju ári (e. annual executive opinion survey). Könnunin sem er unnin á ekki ósvipaðan hátt og könnunin hjá Alþjóðabankanum er lögð fyrir í öllum ríkjunum sem eru mæld og er samkeppniseinkun síðan reiknuð þar sem lagt er til grundvallar niðurstaðan úr könnuninni auk fjölda annarra alþjóðlegra mælinga og má þar helst nefna: Global Competitiveness Index, Networked Readiness Index, Enabling Trade Index, Travel & Tourism Competitiveness Index, the Financial Development Index og Gender Gap Index svo eitthvað sé nefnt auk upplýsinga úr fjölda innlendra gagnagrunna í hverju ríki fyrir sig. Árlega könnun WEF hefur verið framkvæmd í meira en þrjátíu ár og er hún umfangsmesta könnun sem framkvæmd er á þessu sviði í heiminum. 13.683 framámenn í viðskiptum (e. business leaders) svöruðu könnuninni fyrir 2013-2014 (World Economic Forum, 2013).

Í skýrslunni fyrir 2013-2014 er Ísland í 31. sæti af 148 þjóðum sem mældar voru. Samkvæmt skýrslunni eru allir þeir þættir þar sem Ísland nær hærri einkunn en 31. Sæti, þættir sem hægt er að flokka sem samkeppnisforskot (e. competitive advantage) fyrir Ísland. Þessi mælikvarði á við um ríki sem mælast í 11.-50. sæti í heildarmælingunni. Í skýrslunni kemur fram að á eftir gjaldeyrishöftum og verðbólgu eru þættir eins og aðgangur að fjármögnun og skatthlutfall og skattalöggjöf þeir þættir sem valda mestum vandkvæðum við samkeppnishæfni íslenska hagkerfisins.Fleiri áhugaverðar mælingar koma fram í skýrslunni sem snúa að þeim þáttum sem farið er yfir í rannsókn þessari. Í skýrslunni kemur fram að af þeim 148 löndum sem mæld voru er Ísland í 124 sæti þegar kemur að áhrifum skattlagningar á hvata til fjárfestinga. Þetta þýðir að rúmlega 83% af mældum ríkjum eru fyrir ofan Ísland í þessu tilliti. Myndin heldur áfram að vera dökk þegar litið er til annarra þátta er snúa að fjárfestingu en þegar kemur að áhrifum löggjafar á erlenda fjárfestingu er Ísland í 144. sæti eða neðstu meðal neðstu 3%. Hafa verður þó í huga að gjaldeyrishöft spila stóran hluta í þessum þætti. Þetta endurspeglast síðan í því að þegar kemur að erlendu eignarhaldi er Ísland í 141 sæti. Séu áhrif skattlagningar á hvata til þess að vinna skoðuð er Ísland í 117 sæti. Hvað varðar getu til þess að laða að hæfileika (e. talent) erlendis frá þá mælist Ísland í 73 sæti sem er fyrir miðju en hinsvegar mælist Ísland í 24. sæti þegar kemur að því að halda hæfileikum í landinu sem er í topp 16%. Þegar kemur að aðgangi að fjármagni er myndin ekki álitleg heldur en Ísland er fyrir miðju að meðaltali þegar þeir þættir eru skoðaðir sem er mun neðar en samanburðarlönd. Ísland er í 70. sæti þegar kemur að fjármögnun í gegnum hlutabréfamarkað, 73. sæti þegar kemur að aðgengi að lánum og 68. sæti þegar kemur að aðgengi að framtaksfjármagni (e. Venture Capital). Sé litið til jákvæðra þátta sem hafa afgerandi áhrif á rekstur sprota- og hugbúnaðarfyrirtækja má nefna að Ísland skorar mjög hátt þegar kemur að tækniviðbúnaði (e. Technological readiness) en þar er Ísland t.d. í öðru sæti þegar kemur að tileinkun fyrirtækja á tækni við rekstur, fimmta sæti þegar kemur að bandvídd og gagnaflutningshraða og áfram má telja. Fleiri þættir er varða þetta mælast einnig hátt en Ísland er að mælast að meðaltali í topp 20% þegar kemur að nýsköpun (e. innovation). Í rými fyrir nýsköpun mælist Ísland í 32. sæti, í gæði rannsóknarstofnanna mælist Ísland í 28. sæti, í aðgengi að verkfræðingum og raungreinamenntuðu fólki mælist Ísland í 28. sæti, í umsóknum um einkaleyfi m.v. fjölda íbúa mælist Ísland í 17. sæti og í samstarfi háskólasamfélagsins með atvinnulífinu í þróunum og rannsóknum mælist Ísland í 25. sæti. Framangreindar mælingar renna stoðum undir það sem fram kom hjá viðmælendum að Ísland er að fullu samkeppnishæft og í raun einn af betri stöðum í heiminum til þess að hefja rekstur fyritækja sem reiða sig þætti eins og tækni, nýsköpun, rannsóknir, internetið o.s.frv. út frá framangreindum þáttum. Hinsvegar kreppir skóinn að þegar kemur að þáttum eins og fjárfestingu, hvötum og skattlagningu. Skýrsla WEF tekur saman vel yfir hundrað mælikvarða og snúa margir þeirra ekkert sérstaklega að þáttum er varða að miklu leyti rekstrarumhverfi hugbúnaðar- og sprotafyrirtækja. Í samantekt á niðurstöðum sem fylgir hér á eftir hafa verið teknir út þeir þættir sem taldir eru hafa teljandi áhrif á rekstrarumhverfi nýsköpunar- og hugbúnaðarfyrirtækja og er viðmið m.a. sótt úr mati viðmælenda. Í töflu 9 er samanburður á niðurstöðum valdra mælikvarða úr skýrslu WEF meðal viðmiðunarríkja. Tölurnar í dálkunum sýna stöðu hvers ríkis og er því betra að hafa lága tölu.

Tafla 9. Helstu niðurstöður skýrslu WEF 2014 meðal viðmiðunarríkja.

 

Ísland er neðst viðmiðunarríkja sé litið til skýrslunnar í heild sinni í 31. sæti. Ísland skorar hæst af viðmiðunarríkjunum í tækniviðbúnaði og hlýtur það að teljast aðdáunarvert að tileinkun íslenskra fyrirtækja á tækni er sú næst besta í heiminum. Þá er aðgangur að tækni og bandvídd og gagnaflutningshraði sem eru þættir sem geta skipt rekstur hugbúnaðarfyrirtækja miklu máli í topp tíu. Þegar kemur að aðlaðandi umhverfi er Ísland næst neðst viðmiðunarríkja rétt á eftir Ísrael þrátt fyrir að geta okkar til þess að halda hæfileikum í landinu sé góð. Ísland skorar lang neðst í að laða að sér hæfileika erlendis frá og er neðst þegar kemur að byrði löggjafar. Í öllum öðrum flokkum er Ísland neðst meðal viðmiðunarríkjanna og oft er bilið mjög stórt. Ísland er t.a.m. 66,5 sætum á eftir næsta viðmiðunarríki í þeim mælikvörðum er snúa að skattaumhverfinu. Ísland er 74 sætum á eftir næsta viðmiðunarríki þegar kemur að áhrifum skattlagningar á hvata til fjárfestinga og 27 sætum á eftir næsta viðmiðunarríki þegar kemur að áhrifum skattlagningar á hvata til að vinna. Í báðum þessum flokkum er Ísland í neðsta fjórðungi af þeim 148 ríkjum sem mæld eru. Þegar kemur að fjármögnun er Ísland neðst viðmiðunarríkja rétt eins og það var í mælingu Alþjóðabankans. Ísland er áberandi verst statt þegar kemur að áhrifum löggjafar á erlenda fjárfestingu en þar er Ísland í 144. sæti eða neðstu 3 prósentunum af öllum mældum ríkjum en hafa ber í huga áhrif gjaldeyrishafta. Þegar kemur að aðgengi að fjármögnun er Ísland að mælast fyrir miðju af öllum 148 ríkjunum sem mæld voru. Í aðgengi að lánum, framtaksfjármagni og fjármögnun í gegnum hlutabréfamarkað er Ísland á bilinu 68.-73. sæti. Þegar kemur að nýsköpun er Ísland að skora nokkuð hátt, en meðalskorið er 26. sæti sem er gott sé miðað við heildarúrtakið eða topp 20 prósent., en meðal viðmiðunarríkjanna er Ísland neðst, átta sætum á eftir næsta ríki að meðaltali. Niðurstöður skýrslu WEF eru í nær fullu samræmi við niðurstöður úr viðtölum. Mikið áhyggjuefni er hversu lágt Ísland skorar þegar kemur að áhrifum skattlagningar á hvata til fjárfestinga og vinnu og að laða að erlenda fjárfestingu og byrði opinbers regluverks en í þessum flokkum er Ísland meðal neðstu ríkja í allri mælingunni.

Fleiri mælikvarðar – Nordic Growth Entrepreneurship Review 2012

Árið 2013 gaf Norræna ráðherranefndin út skýrslu um frumkvöðlastarfsemi á norðurlöndunum sem kallaðist Nordic Growth Entrepreneurship Review 2012 (Nordic Innovation, 2013). Ein af aðal niðurstöðum skýrslunnar er að aðgangur nýsköpunar- og sprotafyrirtækja að fjármagni er lang lakastur hér á landi af öllum norðurlöndunum. Aðgangur að fjármagni er skilgreindur í skýrslunni sem hver sá fjárstuðningur sem stendur frumkvöðlum til boða hvort sem það er í formi lána, fjármögnunar í gegnum hlutabréfamarkað eða áhættufjármögnunar. Til viðbótar við það að Ísland komi verst norðurlanda út í framangreindu tilliti er það einnig niðurstaða skýrslunnar að það almennt skortir á aðgang að fjármagni fyrir nýsköpunar- og sprotafyrirtæki á öllum norðurlöndunum. Ísland mælist því neðst í hópi ríkja sem mælist illa. Í skýrslunni kemur einnig fram að á norðurlöndunum er eitt helsta vandamálið sem snýr að nýsköpunar- og sprotafyrirtækjum vöntun á þekkingu og hæfileikum. Þetta er í fullu samræmi við niðurstöður úr viðtölum.

 

Niðurstöður úr alþjóðlegum samanburði

Niðurstöðurnar úr þeim alþjóðlegum mælingum sem farið hefur verið yfir hér að framan ríma að nær öllu leyti við þá mynd sem kom út úr viðtölum sem tekin voru. Áberandi veikleikar í rekstrarumhverfi á Íslandi snúa að eftirfarandi þáttum.

Áhrif skattlagningar á hvata til fjárfestinga og hvata til vinnu

Þetta var eitt af fyrstu atriðunum sem meirihluti viðmælenda nefndi sem vandkvæði fyrir rekstrarumhverfið á Íslandi. Ísland mælist í neðsta fjórðungi allra mældra ríkja í þessu tilliti hjá WEF eða í 124. sæti þegar kemur að áhrifum skattlagningar á hvata til að fjárfesta og 117. sæti þegar kemur að áhrifum á hvata til að vinna.

Aðgangur að fjármagni

Ein skýrasta útkoman úr alþjóðlega samanburðinum er að aðgangur að fjármagni á Íslandi er takmarkaður og að Ísland stendur ekki vel að því leyti m.v. viðmiðunarríki. Eins og fram er komið kemur fram í skýrslu WEF að á eftir gjaldeyrishöftum og verðbólgu eru aðgangur að fjármögnun og skatthlutfall og skattalöggjöf þeir þættir sem valda mestum vandkvæðum við samkeppnishæfni íslenska hagkerfisins. Niðurstöður Alþjóðabankans voru þær að í heildina er Ísland neðst viðmiðunarríkja þegar kemur að aðgengi að fjármagni eða í 42. sæti. Ísland var einnig neðst viðmiðunarríkja þegar kemur að fjármögnun skv. WEF eða að meðaltali í 88. sæti. Munurinn á mælingunum skýrist af því að aðrir þættir eru lagðir til grundvallar matinu eins og fram kemur í yfirferðinni hér að framan. Takmarkaður aðgangur að fjármagni á Íslandi var síðan einnig staðfestur í skýrslu Norrænu ráðherranefndarinnar.  Framangreindar niðurstöður ríma að öllu leyti við niðurstöður úr viðtölum en flestir viðmælendur töldu aðgang að fjármagni vera helsta vandamálið í rekstrarumhverfi hugbúnaðar- og sprotafyrirtækja.

Byrði opinberrar löggjafar og regluverks

Í skýrslu WEF er Ísland í 111. sæti þegar kemur að mælingum á byrði löggjafar og regluverks. Ísland er því neðst viðmiðunarríkja í þessum flokki og í neðsta fjórðungi af þeim 148 ríkjum sem mæld voru. Nokkrir viðmælendur nefndu þennan þátt einnig sem veikleika í rekstrarumhverfinu á Íslandi en þó voru fleiri sem nefndu óstöðugleika sem vandamál sem eflaust fellur undir þennan flokk. Viðmælendur nefndu að það væri mjög óþægilegt að á Íslandi er skattalöggjöf og ýmsum reglum sem snúa að rekstrarumhverfi breytt mjög reglulega sem skapar óvissu og óþægindi í rekstri.

Neikvætt umhverfi gagnvart erlendu fjármagni og hæfileikum

Samkvæmt skýrslu WEF er Ísland í 73. sæti þegar kemur að getu til að laða að hæfileika eða sérfræðikunnáttu erlendis frá sem er lang neðst viðmiðunarríkja. Ísland er síðan í 144. sæti þegar kemur að áhrifum löggjafar á erlenda fjárfestingu sem er aðeins fjórum sætum frá botninum. Hér verður þó að hafa í huga að gjaldeyrishöft hafa líklega mikil áhrif á þennan mælikvarða.

Kostnaður við að stofna fyrirtæki

Þrátt fyrir að vera eitt af þeim ríkjum, þar sem það tekur hvað fæstar aðgerðir og stystan tíma að stofna fyrirtæki, var Ísland í 52. sæti á mælikvarða Alþjóðabankans er snýr að því að hefja rekstur. Ástæða þess að Ísland er svona neðarlega er að kostnaður við að stofna fyrirtæki og krafan um fjárbindingu vegna þess er há í alþjóðlegum samanburði. Ísland skorar næst neðst af viðmiðunarríkjum í báðum þessum flokkum en á Íslandi kostar það að meðaltali 2,7% af árstekjum að stofna fyrirtæki og 10,5% af árstekjum að meðaltali er krafist í sem lágmarks fjárbindingar í kringum það ferli. Hér má einnig benda á að í lang flestum viðmiðunarríkjum, ekki bara þeim sem eru tekin til viðmiðunar í þessari rannsókn heldur einnig flestum vestrænum ríkjum er ekki krafist neinnar lágmarks fjárbindingar. Framangreindar niðurstöður eru í fullu samræmi við áhyggjur viðmælenda af því að kostnaður við að stofna fyrirtæki á Íslandi sé of hár.

 

Alþjóðlegur samanburður var Íslandi þó ekki alsæmur, langt í frá. En þættir sem hafa teljandi áhrif á rekstrarumhverfi hugbúnaðar- og nýsköpunarfyrirtækja sem Ísland skoraði áberandi hátt í eru eftirfarandi:

Tækniviðbúnaður og nýsköpunarumhverfi

Ísland stendur vel að vígi þegar kemur að nýsköpun og tækniviðbúnaði. Ísland skoraði hæst viðmiðunarríkja í tækniviðbúnaði í skýrslu WEF og þrátt fyrir að vera neðst viðmiðunarríkja í nýsköpun að þá skorar Ísland hátt þar í alþjóðlegu samhengi. Ísland er síðan efst allra ríkja þegar kemur að aðgengi að rafmagni samkvæmt skýrslu Alþjóðabankans.

Skattahlutfall

Ísland er með tiltölulega lágt skattahlutfall á fyrirtæki í alþjóðlegum samaburði en Ísland er með 29,9% skatthlutfall af hagnaði sem er nokkuð lágt ef litið er til vestrænna ríkja og sérstaklega lágt ef litið er til norðurlanda. Sé litið til viðmiðunarríkja er Ísland í miðjunni þegar kemur að skattahlutfalli á hagnað fyrirtækja.