Styrkleikar samkvæmt viðtölum

Helstu styrkleikar rekstrarumhverfis hugbúnaðarfyrirtækja á Íslandi sneru meira að staðháttum, menningu og þjóðháttum en minna að breytanlegri þáttum eins og lagaumhverfi og regluverki stjórnvalda. Helstu styrkleikar sem minnst var á, og er þá átt við þætti sem komu upp hjá tveim eða fleiri viðmælendum, verða nú tilgreindir í þeirri áhersluröð sem þeirra gætti, þ.e.a.s. fyrst eru taldir upp þeir þættir sem oftast var minnst á og sem viðmælendur töldu að skiptu mestu máli og svo koll af kolli.

Smæð,mannauður, menning og landið sjálft

Það sem oftast var nefnt sem styrkleiki í rekstrarumhverfinu á Íslandi er að gott er að koma hugmyndum af stað á Íslandi, hér er öflugt tengslanet sem allir geta haft aðgang að og voru flestir viðmælendur sammála um að mannauður á Íslandi væri mikill í þeim skilning að Íslendingar eru upp til hópa duglegir, tilbúnir að ganga í mörg störf og laga sig að fjölbreyttum aðstæðum. Mannauð og menningu bar oft á góma í viðtölum um hverjir helstu styrkleikar rekstrarumhverfis hugbúnaðarfyrirtækja á Íslandi væru. Tengt þessu bar einnig oft á góma smæð hins íslenska samfélags og hversu mikill styrkur felst í henni við að koma hlutunum af stað ef það þarf að „redda“ málunum. Í þessi samhengi voru nefndir fleiri þættir sem viðmælendur töldu að skiptu mjög miklu máli varðandi rekstur hugbúnaðar- og nýsköpunarfyrirtækja og má þar helst nefna að á Íslandi er stutt í fyrsta viðskiptavininn. Viðmælendur voru flestir sammála um það að það sé auðveldara hér á landi að fá fyrirtæki og opinbera aðila til þess að prófa nýjar vörur og prófa sig áfram og vinna með sprota- og hugbúnaðarfyrirtækjum heldur en almennt gengur og gerist erlendis. Þetta fullyrtu t.a.m. nær allir viðmælendur sem hafa reynslu af rekstri erlendis. Þá nefndu margir viðmælendur að Ísland er fjölskylduvænt og hefur öflugt aðdráttarafl sem land sem gott er að búa í.

Þættir í skattaumhverfinu

Það eru fáir þættir sem hafa eins mikil áhrif á rekstur fyrirtækja eins og skattaumhverfið hverju sinni. Þess vegna kemur það eflaust ekki á óvart að þættir er snúa að skattaumhverfinu eru oft nefndir bæði sem veikleikar og styrkleikar rekstrarumhverfis hugbúnaðar- og nýsköpunarfyrirtækja á Íslandi. Það voru einkum tveir þættir sem voru ítrekað nefndir af viðmælendum sem styrkleikar og eru nær allir viðmælendur sammála um að þessir tveir skattaþættir skipti miklu máli fyrir rekstur hugbúnaðar- og nýsköpunarfyrirtækja. Þættirnir sem um ræðir eru annarsvegar hin nýtilkomna endurgreiðsla á hluta af sköttum sem greiddir eru af þróunar og rannsóknarkostnaði sem kom inn í íslenska löggjöf með lögum um stuðning við nýsköpunarfyrirtæki nr. 152/2009 og tóku gildi 1. janúar 2010 og hinsvegar nokkuð lág skattprósenta á fyrirtæki.  Nær allir viðmælendur voru á því að löggjöfin um endurgreiðslu á hluta af rannsóknar og þróunarkostnaði væri frábært skref í þá átt að bæta rekstrarstöðu hubúnaðar- og sprotafyrirtækja og að löggjafinn þyrfti að huga betur að sambærilegum úrræðum. Í stuttu máli snýr löggjöfin að því að nýsköpunarfyrirtæki sem hlotið hefur staðfestingu Rannís á tekjuárinu skv. 5. gr. lagana á rétt á sérstökum frádrætti eða endurgreiðslu af álögðum tekjuskatti sem nemur 20 prósent af útlögðum kostnaði vegna rannsóknar- og þróunarverkefna sinna, enda sé um að ræða frádráttarbæran rekstrarkostnað í skilningi 1. mgr. 1. tölul. 31. gr. tekjuskattslaga nr. 90/2003. Hinsvegar er frádrátturinn háður ákveðnum takmörkunum. Hámark kostnaðar til útreiknings á frádrætti er 100 milljón kr. á rekstrarári þannig að hámark frádráttar er þá 20 prósent af því eða 20 milljón krónur. Ef um er að ræða aðkeypta þjónustu frá viðurkenndum aðila sbr. 2. mgr. 5. gr., er hámark kostnaðar 150 milljón kr. og hámark frádráttar því 20 prósent af því eða 30 milljón kr. Hafi sami lögaðili síðan hlotið styrk frá opinberum aðila til sama nýsköpunarverkefnis og umsókn um skattafrádrátt tekur til getur frádráttur að viðbættri styrkfjárhæð aldrei orðið hærri en 70 prósent af hámarkskostnaði við verkefnið. Skattafrádrátturinn kemur til lækkunar á álögðum tekjuskatti við álagningu opinberra gjalda lögaðila, sbr. 71. gr. tekjuskattslaga en sé álagður tekjuskattur lægri en ákvarðaður frádráttur skal frádráttur greiddur út.

Viðmælendur eru flestir á því að gallinn á löggjöfinni um endurgreiðsluna væri sá að hún er takmörkunum háð varðandi upphæðir og að þar væri Ísland ekki að koma eins vel út væri löggjöfin borin saman við sambærilegar löggjafir t.d. í Kanada. Viðmælendur fagna því að kerfið í kringum endurgreiðsluna er fremur einfallt og leggja áherslu á það að einfalt skattkerfi er mikilvægur styrkleiki þegar kemur að rekstrarumhverfi fyrirtækja. Meirihluti viðmælenda telur að skattkerfið á Íslandi sé fremur einfallt sé það borið saman við skattumhverfi erlendis. Þeir viðmælendur sem hafa reynslu af rekstri í Bandaríkjunum sögðu t.a.m. allir að skattkerfið hér væri mjög einfalt og þægilegt miðað við Bandaríkin. Viðmælendur nefndu flestir að einn helsti styrkurinn við skattaumhverfið á Íslandi sérstaklega í alþjóðlegu samhengi væri að hér væri fremur lág tekjuskattprósenta á fyrirtæki og þeir sem þekktu til sögðu að í flestum viðmiðunarríkjum og þá sérstaklega á Norðurlöndunum væri skattprósenta á fyrirtæki töluvert hærri, þetta héldi þrátt fyrir skattahækkanir síðastliðinna ára. Tekjuskattur í almennu þrepi sem er það þrep sem hlutafélög og einkahlutafélög falla undir er 20% sem er fremur lágt í alþjóðlegu tilliti eins og betur er farið yfir í kaflanum Rekstrarumhverfið á Íslandi í alþjóðlegum samanburði. (Ríkisskattstjóri 2014).Séu skattar og gjöld á fyrirtæki vigtuð og mæld í heild sinni kemur í ljós að skattbyrðin á Íslandi sem hlutfall af hagnaði er 29,9% sem er tiltölulega lágt í alþjóðlegum samanburði, en Alþjóðabankinn hefur tekið saman ítarlega tölfræði um þetta sem farið er betur yfir í framangreindum kafla. Þá ber einnig að nefna að vegna þess að skattprósenta er í lægri kantinum í alþjóðlegu tilliti getur verið hagstæðara að „exit-a“ á Íslandi en með því er átt við að það getur verið hagkvæmara að selja fyrirtækið en í samanburðaríkjum, t.a.m. er mun hagstæðara að selja fyrirtæki á Íslandi en Bandaríkjunum (World Bank, 2014).

Aðgangur að stjórnvöldum

Þáttur sem oft var nefndur sem styrkleiki og tengist að öllum líkindum að þó nokkru leyti einnig smæð þjóðarinnar er að aðgangur að stjórnvöldum er talinn vera góður. Viðmælendur telja að auðveldara sé á Íslandi en í stærri ríkjum fyrir einstaka fyrirtæki að koma hugmyndum sínum á framfæri og komast í bein samskipti við stjórnvöld. Viðmælandi sem starfar í Atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytinu benti t.a.m. á að hann sé í Norrænni embættismannanefnd um atvinnumál og þekki því vel inn á starfsemi hjá ráðuneytum Norðurlandanna og fullyrti hann að aðgangur atvinnulífsins að stjórnsýslunni væri mun betri á Íslandi en víðast annars staðar. Sem dæmi um þetta er ekki óalgengt að fyrirtæki eða einstaklingar sem óska eftir fundi með ráðherra eða aðilum í ráðuneytunum á Íslandi til þess að kynna hugmyndir, vörur eða ræða málin fái beiðni sinni sinnt innan skamms tíma. Atvinnuvega- og nýsköpunarráðherra Ragnheiður Elín Árnadóttir fór t.a.m. fljótlega eftir að hún varð ráðherra og heimsótti tuttugu nýsköpunarfyrirtæki þar sem rætt var við starfsmenn fyrirtækjanna og m.a. spurt hvað þeir vildu sjá stjórnvöld gera (Elvar Knútur Valsson, 2014). Framangreint er eitthvað sem  er sjaldgæft á Norðurlöndunum og alls ekki hægt að ganga að sem vísu og myndi teljast nær ógerningur án frekari skipulagningar í stærri ríkjum eins og Bandaríkjunum. Þetta staðfestu viðmælendur sem höfðu þurft að vinna með yfirvöldum á Íslandi, Norðurlöndunum, Bandaríkjunum og víðar. Enginn viðmælandi kvartaði undan því að aðgangur að stjórnvöldum væri slæmur.

Kostnaður gagnvart vexti er hagkvæmur á Íslandi

Nokkrir viðmælendur nefndu að kostnaður gagnvart vexti væri hagkvæmur á Íslandi. Með þessu er átt við að kostnaðarhlutföll í fyrirtækjarekstri á Íslandi eru lág miðað við vöxt fyrirtækja í sambærilegum geirum erlendis. Viðmælendur sem höfðu kynnt sér þetta nánar nefndu þætti eins og lágan launakostnað, hagkvæmni í smæð t.a.m. stuttar vegalengdir og boðleiðir, skjótvirkari afgreiðslu á nær öllum sviðum, betri og skilvirkari aðgang að prufumörkuðum, ódýra aðstöðu, meiri hraða í ákvörðunum og almennt einfaldara regluverk. Ekki liggja fyrir fullnægjandi rannsóknir eða mælingar á því hvernig kostnaður gagnvart vexti er á Íslandi en þeir aðilar sem þekkja til hérlendis og víða erlendis fullyrtu að á því væri ekki nokkur vafi að það er ódýrara að koma sprotafyrirtækjum á legg á Íslandi heldur en almennt í Vestrænum ríkjum. Frosti Sigurjónsson, þingmaður Framsóknarflokksins, hefur komið víða við í nýsköpunarumhverfinu á Íslandi m.a. verið stjórnarformaður CCP og meðstofnandi Datamarket svo eitthvað sé nefnt. Frosti segir að íslensk nýsköpun sé mjög samkeppnishæf í alþjóðlegum samanburði þegar kemur að kostnaði gagnvart vexti. Ásamt þeim þáttum sem eru nefndir hér að framan segir Frosti að svokallað „exit valuation“ sé á pari við Sílíkondal í Bandaríkjunum. Með „exit valuation“ er átt við þegar fyrirtæki eru seld en þetta er kallað „exit“ eða útgangur vegna þess að á þessu stigi leysa gjarnan helstu stofnfjárfestar út fjárfestingar sínar. Þrátt fyrir að ekki séu til fullnægjandi rannsóknir eða mælingar á arðsemi fjárfesta í nýsköpunarfyrirtækjum þá hafa nýleg dæmi sýnt að hún er oft margföld og er hér átt sérstaklega við stofnfjárfestingar. Erfitt getur verið að nálgast nákvæmar upplýsingar um markaðsverð og fleira slíkt í óskráðum fyrirtækjum en nokkrir viðmælendur sögðu að þeir þekktu mýmörg dæmi um margfaldanir á stofnfjárfestingum í hugbúnaðar- og sprotafyrirtækjum á Íslandi og nýleg dæmi um yfir hundraðfaldan hagnað.

Fleiri þættir

Þrátt fyrir að viðmælendur hefðu ekki minnst á fleiri þætti af neinni áherslu en að framan greinir að þá er ljóst að það eru fleiri styrkleikar í rekstrarumhverfi hugbúnaðar- og nýsköpunarfyrirtækja á Íslandi. Árleg mæling Alþjóðabankans á rekstrarumhverfi fyrirtækja sýnir t.a.m. að Ísland skorar hátt í alþjóðlegum samaburði á eftirfarandi sviðum: að fá rafmagn, að framfylgja samningum, að fara í gegnum gjaldþrot/greiðsluþrot og skráningu eigna. Þá skorar Ísland einnig hátt á sviðum eins og tækniviðbúnaði eins og fram kemur í árlegri mælingu World Economic Forum. Nánar er farið í þessar mælingar og stöðu Íslands í alþjóðlegum samanburði í kaflanum  Rekstrarumhverfið á Íslandi í alþjóðlegum samanburði.