Niðurstöður

Með viðtölunum var unnt að afmarka skýra þætti sem veikleika og styrkleika rekstrarumhverfis hugbúnaðarfyrirtækja á Íslandi. Þess var gætt að spurningalistinn og eðli viðtals hverju sinni væru ekki leiðandi og áhersla lögð á að viðmælendur myndu að eigin frumkvæði nefna þá þætti sem þeir töldu mikilvægasta varðandi rekstarumhverfið á Íslandi. Í viðtölunum kom fram þó nokkur fjöldi af áhersluþáttum bæði hvað varða styrkleika og veikleika í rekstrarumhverfinu á Íslandi. Verður nú farið yfir helstu niðurstöður úr viðtölunum og í næstu köflum er farið yfir niðurstöður rannsóknar á stöðu Íslands í alþjóðlegum samanburði hvað varðar rekstrarumhverfi og samkeppnishæfni íslenska hagkerfisins með áherslu á þá þætti sem fram komu í viðtölunum. Það reyndist vera mikill samhljómur á milli þess sem viðmælendur töldu vera styrkleika og veikleika í rekstrarumhverfi hugbúnaðar- og sprotafyrirtækja á Íslandi og hvernig Ísland mældist í alþjóðlegum samanburði.  Því er um að ræða tvær óháðar gagnalindir, eigindlega í formi viðtala og megindlega í formi alþjóðlegra mælinga með sambærilegar niðurstöður. Niðurstöður úr þessum tveimur mælingum þ.e.a.s. viðtölunum og mælingum á stöðu Íslands í alþjóðlegum samanburði skiluðu því enn afmarkaðri og skýrari niðurstöðu um hvaða þætti þyrfti helst að takast á við í rekstrarumhverfi hugbúnaðar- og sprotafyrirtækja á Íslandi til þess að Ísland gæti orðið eitt af samkeppnishæfustu ríkjum heims hvað þetta varðar. Mögulegar lausnir verða síðan kynntar í umræðukaflanum.