Viðtöl og framkvæmd rannsóknar

Viðtölin

Tekin voru viðtöl við fjölda aðila sem hafa með aðkomu sinni, menntun eða reynslu öðlast sérþekkingu er snýr að rekstrarumhverfi fyrirtækja á Íslandi og víðar. Til að byrja með var hin almenna umræða skönnuð og reynt að sigta út aðila sem hafa haft sig frammi um að ræða málefni er snúa að rekstrarumhverfi hugbúnaðar- og sprotafyrirtækja á Íslandi. Við framgang rannsóknarinnar fékk rannsakandi síðan fjöldan allan af ábendingum um aðila sem gott væri að ræða við vegna sérfræðiþekkingu þeirra á málefnunum sem um ræðir. Þess var gætt að ræða ekki einungis við einsleitan hóp viðmælenda heldur var rætt við viðmælendur sem stöðu sinnar vegna hafa mismunandi aðkomu að rekstrarumhverfi hugbúnaðar- og sprotafyrirtækja á Íslandi. Hægt er að skipta viðmælendum í fjóra mismunandi hópa. Í fyrsta hópi viðmælenda eru rekstraraðilar en í þeim hópi eru einstaklingar sem hafa sett á laggirnar og/eða rekið fyrirtæki bæði heima og erlendis. Í öðrum hópi viðmælenda eru fjármögnunaraðilar en í þeim hópi eru fulltrúar lífeyrissjóða, fjárfestingarsjóða og einstakir fjárfestar. Í þriðja hópi viðmælenda eru fulltrúar hins opinbera en í þeim hópi eru aðilar sem starfa í stjórnsýslunni s.s. ráðuneytum og hjá löggjafarvaldinu. Í fjórða hóp viðmælenda eru sérfræðingar sem í gegnum sérfræðistörf sín hafa aðkomu að rekstrarumhverfi hugbúnaðar- og sprotafyrirtækja en hér er um að ræða lögfræðinga og endurskoðendur. Nokkrir viðmælendur falla undir fleiri en einn hóp með því að hafa t.d. verið rekstraraðilar en síðan farið í fjármögnunargeiran eða jafnvel opinbera geirann. Rætt var við eftirfarandi aðila og birtast þeir í þeirri tímaröð sem við þá var rætt:

 1. Pétur Már Halldórsson, framkvæmdastjóri Nox Medical sem er hátæknifyrirtæki og í fremstu röð í heiminum á sviði svefnrannsókna. Viðtal tekið 4. febrúar 2014 í höfuðstöðvum Nox Medical, Reykjavík.
 2. Kjartan Ólafsson,  stofnandi Basno sem er hugbúnaðarfyrirtæki í Bandaríkjunum sem sérhæfir sig í upprunastaðfestingum á árangri, viðurkenningum, prófgráðum o.þ.h. Kjartan er einnig stofnandi og eigandi Volta Labs sem er stuðningsfyrirtæki við frumkvöðlafyrirtæki (e. venture development). Þá situr Kjartan einnig í fjölda stjórna t.a.m. hjá Já.is og Datamarket. Viðtal tekið 5. febrúar 2014 á veitingarstaðnum Hressingarskálin, Reykjavík.
 3. Magnús Ragnarsson, aðstoðarmaður menntamálaráðherra. Magnús var einnig stjórnarformaður Gogogic sem var leikjafyrirtæki ásamt því að hafa verið aðgerðarstjóri (e. Chief Operational Officer) hjá Latabæ sem er framleiðslufyrirtæki á afþreyingarefni fyrir börn og komið að fleiri verkefnum er snúa að hugbúnaðargeiranum. Viðtal tekið 7. febrúar 2014 í Menntamálaráðuneytinu, Reykjavík.
 4. Ýmir Örn Finnbogason, fjármálastjóri hjá Plain Vanilla sem er íslenskt leikjafyrirtæki sem flutti skráningu sína til Bandaríkjanna. Plain Vanilla framleiðir m.a. tölvuleikinn QuizUp sem er einn af vinsælari leikjum í heiminum í snjalltækjaleikjabransanum. Viðtal tekið 11. febrúar 2014 í höfuðstöðvum Plain Vanilla, Reykjavík. Einnig svaraði Ýmir fjölmörgum eftirfylgnisspurningum á tímabilinu febrúar – maí 2014,
 5. Hjálmar Gíslason, stofnandi og framkvæmdarstjóri DataMarket ehf. sem er íslenskt hugbúnaðarfyrirtæki sem selur gagnalausnir á fyrirtækjamarkaði. DataMarket hefur flutt hluta starfsemi sinnar til Bandaríkjanna.  Viðtal fór fram í tveim hlutum með tölvupóst samskiptum 10. og 11. febrúar 2014.
 6. Helga Valfells, framkvæmdarstjóri Nýsköpunarsjóðs sem er sjóður sem fjárfestir í frumkvöðlafyrirtækjum. Viðtal fór fram með tölvupóst samskiptum 19. febrúar 2014. Helga svaraði einnig nokkrum eftirfylgnisspurningum á tímabilinu mars-apríl 2014.
 7. Pétur Jónsson, stofnandi og framkvæmdarstjóri MediaLux sem er íslenskt tónlistar- og eftirvinnslufyrirtæki. Viðtal fór fram í gegnum tölvupóst samskipti 23. febrúar 2014.
 8. Andri Gunnarsson, hdl, hjá Nordik lögfræðiþjónustu. Andri hefur unnið sem lögfræðilegur ráðgjafi íslenskra og erlendra fyrirtækja á sviði félaga-, skatta- og samningaréttar og við kaup og sölu fyrirtækja. Viðtalið fór fram 19. febrúar 2014 í höfuðstöðvum Nordik lögfræðiþjónustu, Reykjavík. Andri svaraði einnig fjölda eftirfylgnisspurninga á tímabilinu febrúar-apríl 2014.
 9. Guðjón Már Guðjónsson, stofnandi OZ 1989 sem selt var til Nokia árið 2008 og síðar stofnandi OZ árið 2009 þar sem hann starfar sem framkvæmdarstjóri. Viðtal tekið 7. mars 2014 í gegnum tölvupóst samskipti. Guðjón svaraði síðan fjölda eftirfylgnisspurninga á tímabilinu mars-apríl 2014.
 10. Stefán Svavarsson viðskiptafræðingur og endurskoðandi. Stefán hefur unnið hjá Landsvirkjun, Seðlabanka Íslands, Sérstökum saksóknara, Háskólanum í Reykjavík og Bifröst svo eitthvað sé nefnt. Stefán hefur einnig verið formaður reikningsskilaráðs, formaður prófnefndar endurskoðenda og formaður stjórnar Fjármálaeftirlitsins. Viðtal tekið 14. mars 2014 hjá embætti sérstaks saksóknara, Reykjavík.
 11. Elvar Knútur Valsson, viðskiptafræðingur og fjármálaráðgjafi hjá Atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytinu. Viðtal tekið 20. mars 2014 í Atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytinu, Reykjavík.
 12. Guðrún Þorleifsdóttir, lögfræðingur og staðgengill skrifstofustjóra á skrifstofu skattamála hjá fjármálaráðuneytinu. Guðrún vann einnig á sviði nýsköpunar hjá iðnaðar og nýsköpunarráðuneytinu (nú Atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytið) ásamt því að hafa unnið hjá Ríkisskattstjóra. Guðrún var formaður starfshóps fjármálaráðuneytisins um skattívilnanir til einstaklinga vegna kaupa á hlutabréfum í litlum fyrirtækjum í vexti. Viðtal tekið 8. apríl 2014 í fjármálaráðuneytinu.
 13. Davíð Lúðvíksson, forstöðumaður stefnumótunar og nýsköpunar hjá Samtökum Iðnaðarins. Davíð sat einnig í starfshópi fjármálaráðuneytisins um skattívilnanir til einstaklinga vegna kaupa á hlutabréfum í litlum fyrirtækjum í vexti. Viðtal tekið 9. apríl 2014 í höfuðstöðvum Samtaka Iðnaðarins, Reykjavík.
 14. Jóhann Tómas Sigurðsson, forritari og hugbúnaðararkitekt, fyrrum starfsmaður Google og einn af eigendum Investa fjárfestingarfélags í íslenskum sprotafyrirtækjum. Viðtal tekið 16. apríl 2014 á heimili Jóhanns.
 15. Ólafur Sigurðsson, framkvæmdarstjóri lífeyrissjóðsins Stafir, formaður eigna- og áhættustýringarnefndar Landssamtaka Lífeyrissjóða og fulltrúi Landssamtaka Lífeyrissjóða í nefnd á vegum fjármálaráðuneytisins um endurskoðun fjárfestingarheimilda lífeyrissjóða.
 16. Frosti Sigurjónsson, þingmaður Framsóknarflokksins, englafjárfestir, fyrrum forstjóri Nýherja, stjórnarformaður CCP og meðstofnandi og stjórnarformaður DataMarket svo eitthvað sé nefnt. Viðtalið fór fram í gegnum Skype 25. apríl 2014.

Til viðbótar við framangreind viðtöl var einnig leitar ýmis konar ráðgjafar hjá fjölda aðila vegna rannsóknarinnar. Ráðgjöfin fólst m.a. í sérfræðiálitum, mati, yfirferð og reifun hugmynda svo eitthvað sé nefnt. Eftirfarandi aðilar veittu ráðgjöf vegna rannsóknarinnar:

 1. Bergþóra Halldórsdóttir, lögfræðingur hjá Samtökum Atvinnulífsins.
 2. Grettir Jóhannesson, sérfræðingur hjá Landsbanka Íslands.
 3. Ragnar Þórisson, fjárfestir og fyrrum sjóðsstjóri Boreas Capital.
 4. Róbert Helgason, sérfræðingur hjá Seðlabanka Íslands.
 5. Ásmundur Vilhjálmsson, skattalögfræðingur og aðjúnkt við Háskóla Íslands
 6. Kristín Norðfjörð, lögfræðingur og skattasérfræðingur.
 7. Magnús Lundbeg, Deputy head of mission hjá sænska sendiráðinu á Íslandi.
 8. Gunnar Baldvinsson, formaður Landssamtaka Lífeyrissjóða.
 9. Erik Johansson, managing Partner hjá Nordic Investment Solutions.
 10. Carl-Peter Mattsson, managing partner hjá Nordic Investment Solutions.
 11. Bjarni Lárusson, lögfræðingur hjá Ríkisskattstjóra.

Í gegnum framangreind viðtöl var unnt að greina mynstur í því hvar áherslupunktar liggja varðandi styrkleika og veikleika í rekstrarumhverfi hugbúnaðarfyrirtækja á Íslandi. Viðtölin reyndust gefa af sér hafsjó af verðmætum upplýsingum og var uppbyggingu og áhersluþáttum rannsóknarinnar stillt upp í takt við þá mynd sem kom út úr viðtölunum.

 

Framkvæmd rannsóknar

Eftir að viðtöl höfðu afmarkað áhersluþætti var staða Íslands í alþjóðlegu samhengi metin. Þetta var fyrst og fremst gert með því að skoða niðurstöður alþjóðlegra mælinga. Þrjár stórar og virtar alþjóðlegar mælingar væru helst lagðar til grundvallar í mælingum á alþjóðlegri stöðu Íslands. Mæling Alþjóðabankans (e. World Bank) á rekstrarumhverfi ríkja er ein besta og mest viðeigandi mælingin á rekstrarumhverfi mismunandi ríkja í alþjóðlegum samanburði en Alþjóðabankinn gefur á hverju ári út ítarlega skýrslu sem nefnist Doing Business þar sem leitast er við að mæla samkeppnishæfni ríkja á ýmsum sviðum er snúa að rekstrarumhverfi. Þá gefur World Economic Forum (WEF) árlega út skýrslu sem kallast Competitiveness Report sem mælir samkeppnishæfni hagkerfa en skýrslan sem er vel yfir 600 blaðsíður á lengd er mjög umfangsmikil og mælir fjöldan allan af þáttum er m.a. snúa að rekstrarumhverfi og gefur því viðeigandi mælikvarða fyrir rannsóknina. Í þriðja lagi var árið 2012 gefin út umfangsmikil skýrsla sem kallast Startup Ecosystem Report 2012 sem unnin var af Startup Genome en sú skýrsla tekur saman og mælir bestu sprotaumhverfin í heiminum og gefur þeim einkunn eftir ákveðnum mælikvörðum sem snúa t.a.m. að skatta- og fjármögnunarumhverfi. Einnig var litið til skýrslu Norrænu ráðherranefndarinnar um frumkvöðlastarfsemi á norðurlöndunum, Nordic Growth Entrepreneurship Review 2012. Ekki var litið til hinnar þekktu mælingu á nýsköpunarumhverfi ríkja, Global Entrepreneurship Monitor, þar sem Ísland hefur ekki verið með í mælingum síðustu ár. Niðurstöður viðtala og alþjóðlegra mælinga voru síðan keyrðar saman til þess að fá heildarniðurstöður á því hvernig rekstrarumhverfi íslenskra hugbúnaðar- og sprotafyrirækja er í alþjóðlegum samanburði og hvaða þættir teljast til styrkleika og veikleika. Í umræðukafla eru síðan reifaðar mögulegar lausnir á þeim veikleikum sem fram komu í rannsókninni og er þá horft fyrst og fremst til erlendra fyrirmynda. Í þessu samhengi var skoðað hvernig erlend viðmiðunarríki hafa staðið að lagasetningum og hvernig úrræðum er beitt er snúa að þeim áhersluþáttum sem fram komu sem veikleikar í rannsókninni. Við mat á því hvaða ríki voru valin sem viðmiðunarríki voru þrír þættir lagðir til grundvallar:

1       Ríkið sé frjálst vestrænt lýðræðisríki með sambærilega stjórnarhætti og fjármálakerfi og á Íslandi þar sem litið er framhjá núverandi haftaumhverfi á Íslandi.

2       Ríkið hafi tiltölulega nýlega eða innan s.l. þrjátíu ára beitt lagasetningu eða úrræðum sem hafa snúið að sambærilegum viðfangsefnum og lögð eru til grundvallar í rannsókninni þ.e.a.s. ákveðnum rekstrarþáttum sem hafa verið afmarkaðar í gegnum fyrrgreint ferli.

3       Að góður árangur hafi hlotist af þeim úrræðum sem ríkið beitti.

Þó að nokkur fjöldi ríkja uppfyllti framangreind skilyrði og ljóst að fjöldi þeirra væri of mikill til samanburðar í rannsókn af þessari stærðargráðu. Því var valið þrengt enn frekar úr þeim ríkjalista sem uppfyllti framangreind skilyrði. Við mat á þeim ríkjum sem eftir stóðu var lagt til grundvallar ábendingar viðmælenda og hin almenna og akademíska umræða t.a.m. áherslur fjölmiðlaumfjöllunnar í fjármálaheiminum í stórum alþjóðlegum miðlum á borð við Financial Times, Bloomberg og Forbes, á stefnur og úrræði einstakra ríkja sem höfðu ítrekað fengið umfjöllun. Á þessu stigi rannsóknarinnar voru sex ríki sem skildu sig áberandi að frá öðrum, þetta voru ríkin: Ísrael, Bandaríkin, Kanada, Írland, Bretland og Svíþjóð.

Í niðurstöðukafla rannsóknarinnar er síðan lagt mat á það hvernig rekstrarumhverfi hugbúnaðarfyrirtækja er á Íslandi í alþjóðlegum samanburði. Þá er metið hvernig framangreind úrræði og lagasetningar viðmiðunarríkja gætu hugsanlega gagnast til þess að bæta rekstrarumhverfið á Íslandi í þá átt að Ísland verði mælanlega eitt af ákjósanlegri ríkjum heims til þess að hefja og stunda rekstur hugbúnaðar- og sprotafyrirtækja.