Inngangur

1        Inngangur

Árið 2012 gaf eitt virtasta ráðgjafafyrirtæki í heiminum McKinsey & Company út umfangsmikla skýrslu um leið Íslands til aukins hagvaxtar. McKinsey & Company réðst í þessa úttekt með viðamikilli gagnaöflun og rýni og viðtölum við fjölmarga aðila víðsvegar að m.a. úr íslensku atvinnulífi, stjórnsýslu og háskólum svo eitthvað sé nefnt. Úttekt McKinsey & Company er þrískipt. Í fyrsta lagi er farið ítarlega yfir helstu áskoranir sem standa frammi fyrir íslensku efnahagslífi. Í öðru lagi er skoðað hverjir eru helstu drifkraftar íslenska hagkerfisins og hvað hindrar helst hagvöxt hér á landi. Í þriðja lagi er mörkuð hagvaxtaráætlun fyrir Ísland og tillögur kynntar um hvernig megi auka hagvöxt á Íslandi og skref kynnt til þess að sækja í þá átt (McKinsey Scandinavia, 2012). Á Viðskiptaþingi Viðskiptaráðs sem haldið var 12. febrúar 2014 í Reykjavík ræddi Sven Smit framkvæmdarstjóri McKinsey & Company í Evrópu um skýrsluna um Ísland. Sven taldi að ein mikilvægustu skilaboð skýrslunnar væru að auka þyrfti verðmæti útflutnings um 1.000 milljarða króna ef Íslendingar stefna á 3% hagvöxt næstu 20 árin. Sven benti á að í dag standi auðlindagreinar undir meginþorra útflutnings en vegna takmarkana á vaxtarmöguleikum þurfi stór hluti af framtíðarvexti að koma frá alþjóðageiranum. Sven bætti því við að til þess að þessi umbreyting geti átt sér stað þurfi að auka fjölda starfa innan alþjóðageirans um 20.000, fjárfesting þyrfti að aukast um circa 300 milljarða króna og framleiðni samhliða að aukast um 50%. Sven sagði að til þess að ná sem bestum árangri ættu Íslendingar ekki að dreifa kröftum sínum of víða heldur ættu þeir að leggja áherslu á þekkingadrifnar greinar sem hafa alþjóðlegar, söluhæfar og aðgreinanlegar vörur. Að lokum fór Sven yfir það hvað þyrfti að gera til þess að ná fram kerfisbreytingum af því tagi sem gætu gert framangreind markmið raunhæf. Sven sagði að það sem vantaði fyrst og fremst væri áætlun. Sven sagði að Íslendingar þyrftu að fara í gegnum fjögur þrep: draga fram staðreyndir, setja markmið, þróa áætlun og innleiða í kjölfarið breytingar (Smit, 2014).

Í kjölfar þess að bankakerfið á Íslandi lenti í miklum hremmingum í lok árs 2008 hafa tveir geirar sótt í sig veðrið af miklum krafti þannig að eftir hefur verið tekið. Í fyrsta lagi er um að ræða ferðaþjónustuna sem hefur vaxið á miklum hraða og verður að öllum líkindum stærsta tekjulind þjóðarinnar næstu ár í formi gjaldeyristekna. Í öðru lagi er um að ræða hugbúnaðargeirann. Frægasta dæmið í hugbúnaðargeiranum er án efa fyrirtækið CCP sem gerir m.a. leikinn EVE-Online. Undanfarin ár hafa hinsvegar fleiri öflug hugbúnaðarfyrirtæki stokkið fram á sjónarsviðið og verið að gera það gott og má þar m.a. nefna fyrirtæki eins og Plain Vanilla, DataMarket, GreenCloud og Clara. Það sem framangreind fyrirtæki eiga hinsvegar öll sameiginlegt er að þau hafa eða eru öll að færa sig til Bandaríkjanna a.m.k. skráningu sína og einhvern hluta rekstrarins. Það sem hugbúnaðar- og sprotageirinn hafa umfram þá geira sem hafa sögulega keyrt áfram hagvöxt og lífsgæði á Íslandi er að þeir byggja ekki á tæmanlegum náttúruauðlindum eða stífum staðarskilyrðum. Þá uppfylla þessir geirar kröfurnar sem Sven setti fram þegar hann sagði að Íslendingar ættu að leggja áherslu á þekkingardrifnar greinar sem hafa alþjóðlegar, söluhæfar og aðgreinanlegar vörur.

Hugbúnaðarfyrirtækið WhatsApp hafði aðeins 55 starfsmenn þegar það var keypt fyrir 19 milljarða bandaríkjadala af samfélagsmiðlarisanum Facebook, upphæð sem nemur hærri fjárhæð en allri landsframleiðslu Íslands árið 2013 (Shih og fl, 2014). Fyrirtæki eins og WhatsApp eru ekki bundin við það hvar þau starfa eða hvers konar auðlindir þau hafa aðgang að nema að sjálfsögðu mannauð sem er nokkuð hreyfanleg auðlind. Það er þess vegna sem hugbúnaðar- og sprotageirinn getur hentað svo vel til þess að auka útflutningstekjur þjóðarinnar. Íslensk fyrirtæki búa við ákveðin takmörk vegna landfræðilegar staðsetningar sinnar, Íslendingar eru lítil þjóð með of einsleitt hagkerfi sem er langt frá öllum mörkuðum. Stærðarhlutföll fara einnig oft mjög illa með Íslendinga en eitt helsta áhyggjuefni ferðaþjónustunnar fyrir næstu ár er t.a.m. að landið ráði einfaldlega ekki við allan þann fjölda ferðamanna sem gætu viljað koma til landsins og er þá verið að líta bæði til þátta eins og ágang á náttúruauðlindir þjóðarinnar og burðaverk landsins eins og vegakerfi og þjónustustoðir. Ekkert af framangreindum þáttum eru hinsvegar stór hindrun fyrir geira eins og hugbúnaðargeirann. Þá má einnig benda á það sem Hilmar Veigar Pétursson, forstjóri CCP, benti á í erindi sínu á Iðnþingi Samtaka Iðnaðarins þann 6. mars 2014 þegar hann sagði að það sem einkennir hugbúnaðarfyrirtæki er að ef þau fara á hausinn þá hefur iðulega skapast gífurlega mikil þekking sem heldur áfram að skapa þekkingu og vöxt annarstaðar í hagkerfinu s.s. helstu auðlindir fyrirtækisins eyðileggjast ekki. Máli sínu til stuðnings birti Hilmar yfirlitsmynd (Mynd 1) sem hann hafði útbúið sem sýndi öll þau fyrirtæki sem urðu til út frá OZ á sínum tíma (Hilmar Pétursson, 2014).

 

Mynd 1. Fyrirtæki stofnuð út frá OZ  – höfundur: Hilmar Veigar Pétursson

1.1      Tilgangur rannsóknarinnar

Vegna eðlis hugbúnaðar- og sprotafyrirtækja þ.e.a.s. að þau eru ekki bundin landfræðilegum staðháttum með sama hætti og rekstur á öðrum sviðum er staðan sú að hagkerfi keppa um þessi fyrirtæki og sú keppni fer fram í formi aðlaðandi lagasetninga, hvatakerfa og uppsetningar á öflugum rekstrarumhverfum fyrir þessi fyrirtæki. Það eru margir sem telja að styrking hugbúnaðar- og sprotageirans á Íslandi sé lausnin við þeim áskorunum sem eru kynntar í McKinsey skýrslunni. Rannsókn þessi mun fara nánar ofan í hvernig ástandið á Íslandi er gagnvart þessum geira og leitast við að meta hvort Ísland sé samkeppnishæft hagkerfi í þessu tilliti, hvort einhverjir þættir í rekstrarumhverfinu séu það ekki og ef svo er skoða þá hvað sé mögulega hægt að gera til að bæta þá þætti sem kunna að valda því að flest af efnilegustu fyrirtækjum Íslands í hugbúnaðargeiranum hafa valið það að flytja úr landi síðastliðin ár.

 

1.2      Rannsóknarspurningar

Rannsókn þessi skoðar hvernig rekstrarumhverfi hugbúnaðar- og sprotafyrirtækja er á Íslandi. Ein helsta ástæða þess að farið er í að skoða rekstrarumhverfi hugbúnaðar- og sprotafyrirtækja á Íslandi er sú að undanfarin ár hafa þó nokkur  slík fyrirtæki sem hófu rekstur sinn á Íslandi flutt úr landi að hluta til eða öllu leyti. Í hinni almennu umræðu er rætt um að Ísland sé góður staður til að koma með hugmyndir og byrja hið svokallaða nýsköpunarferli þ.e. að setja upp rekstrarform í kringum hugmyndirnar og fá stuðning við það en hinsvegar er talað um að þegar einhverjar alvöru tekjur fara að koma inn svo ekki sé talað um meiri fjármagnsþörf til markaðsstarfs erlendis að þá hættir Ísland að verða samkeppnishæft og rekstrarumhverfið verður erfiðara. Ljóst er að þetta er verðugt rannsóknarefni og verður því í rannsókn þessari reynt að svara spurningunni: Býður Ísland upp á gott rekstrarumhverfi fyrir hugbúnaðar- og sprotafyrirtæki? Í kjölfarið verður reynt að svara spurningunni: Hvað er hægt að gera til þess að rekstrarumhverfi hugbúnaðar- og sprotafyrirtækja verði í fremstu röð í heiminum og að slík fyrirtæki hafa góða vaxtarmöguleika.

Ljóst er að framangreindar spurningar eru ansi víðtækar og verður því til frekari afmörkunnar á efnisatriðum, lögð áhersla á þrjá efnisþætti er varða rekstrarumhverfi fyrirtækja og leitast við að svara eftirfarandi spurningum:

  • Er skattaumhverfið almennt á Íslandi hagstætt rekstri hugbúnaðar- og sprotafyrirtækja í alþjóðlegum samanburði og hvernig er hægt að bæta það.
  • Er fjármögnunarumhverfið á Íslandi hagstætt rekstri hugbúnaðar- og sprotafyrirtækja í alþjóðlegum samanburði, og hvernig er hægt að bæta það.
  • Eru almennar rekstraraðstæður á Íslandi er snúa að mannuð, þekkingu, stjórnvöldum og rekstrarformi hagstæðar í alþjóðlegum samanburði, og hvernig er hægt að bæta þær.

Leitast verður við að svara framangreindum spurningum með því að leita álits sérfræðinga þ.e.a.s. aðila hafa með aðkomu sinni, menntun eða reynslu öðlast sérþekkingu er snýr að rekstrarumhverfi fyrirtækja á Íslandi og víðar. Því er um að ræða empiríska rannsókn með viðtalsaðferðafræði.

 

1.3      Skilgreiningar lykilhugtaka

Hugbúnaðarfyrirtæki: Ljóst er að til þess að svara þeim rannsóknarspurningum sem settar hafa verið fram þarf að byrja á því að skilgreina hvað hugbúnaðarfyrirtæki sé. Hugbúnaður (e. software) er óáþreifanleg eining sem er notuð með áþreifanlegum hlutum (Dictionary.com, 2014). Hugbúnað þarf að forrita og krefst sköpun hugbúnaðar því ávallt vinnuframlags manna. Hugbúnaður er fyrst og fremst notaður til þess að stýra notkun raftækja og sem stjórn- og vinnutæki í hinu óáþreifanlega rafeindasviði (e. cyber space). Það sem einkennir því hugbúnaðarfyrirtæki er að framleiðni þeirra skilar ekki af sér áþreifanlegum vörum og reiða hugbúnaðarfyrirtæki sig því almennt ekki á hefðbundnar flutningsleiðir með vörur sínar s.s. með skipum flugvélum og bifreiðum. Þá þurfa hugbúnaðarfyrirtæki almennt ekki áþreifanleg aðföng til framleiðslu á vörum sínum að undanskildum þeim tólum sem þarf til þess að hefja forritun sem eru fyrst og fremst tölvur. Þetta gerir það að verkum að hugbúnaðarfyrirtæki eru almennt ónæmari fyrir rekstrarþáttum eins og tollaumhverfi, staðháttum og aðgengi að auðlindum en önnur framleiðslufyrirtæki. Hugbúnaðarfyrirtæki krefjast hinsvegar mjög sérhæfðs vinnuafls og er þá fyrst og fremst horft til sérhæfingar er snýr að tölvugeiranum t.d. forritara og sérhæfingar í að selja og markaðssetja hugbúnað. Verðmæti í hugbúnaðarfyrirtækjum liggja fyrst og fremst í kóðanum sem þau hafa smíðað, vöruhönnunninni, söluleiðum og sérþekkingu og reynslu hjá starfsfólki. Hugbúnaðarfyrirtæki flokkast iðulega sem hátæknifyrirtæki. Samkvæmt skilgreiningu OECD eru hátæknifyrirtæki skilgreind sem fyrirtæki sem skráð eru innan þeirra fimm atvinnugreinaflokka sem leggja að meðaltali mest til rannsóknar- og þróunarstarfsemi sem hlutfall af veltu og falla hugbúnaðarfyrirtæki undir þá skilgreiningu. Miðað er við að árlegur þróunarkostnaður hátæknifyrirtækja sé að jafnaði yfir 4% af veltu (Samtök Iðnaðarins, 2009). Sprotafyrirtæki: Í rannsókninni er ásamt hugbúnaðarfyrirtækjum lögð áhersla á sprotafyrirtæki. Við gerð rannsóknarinnar er stuðst við skilgreiningu Samtaka sprotafyrirtækja (SSP) á því hvað sé sprotafyrirtæki;

Sprotafyrirtæki eru skilgreind sem hátæknifyrirtæki en þau eru venjulega sprottin upp úr rannsókna- eða þróunarverkefnum einstaklinga, þróunarhópa, háskóla, rannsóknarstofnana eða annarra fyrirtækja og byggjast á sérhæfðri þekkingu, tækni eða öðru nýnæmi. Gengið er út frá því viðmiði að árlegur þróunarkostnaður sprotafyrirtækja sé að jafnaði yfir 10% af veltu og að veltan sé undir einum milljarði króna á ári (Samtök Iðnaðarins, 2009).

Við framangreinda skilgreiningu verður þó að bæta að félagið þarf að hafa mikla vaxtamöguleika. Hugbúnaðarfyrirtæki geta verið sprotafyrirtæki og eru fyrirferðamestu fyrirtækin í sprotageiranum. Í daglegri umræðu er það sem er skilgreint sem sprotafyrirtæki hér að framan stundum einnig kallað nýsköpunarfyrirtæki eða frumkvöðlafyrirtæki. Hugtakanotkun var rædd nokkuð við viðmælendur og er ljóst að þessum hugtökum er gjarnan blandað saman á Íslandi. Flestir viðmælendur sem rætt var við vegna rannsóknarinnar sem koma að rekstri starfa hjá fyrirtækjum sem myndu flokkast til sprotafyrirtækja. Ákveðið var að skoða rekstrarumhverfi sprotafyrirtækja á Íslandi en leggja þó áherslu á afmarkaðan geira innan sprotaumhverfisins, hugbúnaðarfyrirtæki. Ljóst er að hugbúnaðarumhverfið býður upp á ákveðna afmörkun í rekstri samanber því sem nefnt er hér að framan en í meginatriðum eru hugbúnaðarfyrirtæki iðulega sprotafyrirtæki fram að því að þau rjúfa veltuskilgreininguna þ.e.a.s. fara fram yfir einn milljarð króna á ári í veltu.